Mascarpone þeytingur með berjum og Toffypops


Í gærkvöldi hittist matarklúbburinn okkar sem er alltaf tilhlökkunarefni. Eitt af því dásamlega við þennan klúbb, fyrir utan frábæra félagsskapinn, er að strákarnir elda og skipuleggja allt, við konurnar mætum bara og látum dekstra við okkur með mat og víni! 🙂 Þeir koma alltaf jafnmikið á óvart og galdra fram hvern gómsæta réttinn á fætur annars í hverju boði. Í gær kom það í hlut Elfars að gera eftirréttinn. Hann kom heim frá Stokkhólmi seinni partinn í gær og réðst strax í eftirréttagerð. Þessi eftirréttur heppnaðist svo rosalega vel hjá honum að rétturinn fær klárlega sína eigin færslu hér á blogginu!

Uppskrift f. 8-10:

  • 750 g mascarpone ostur
  • 6 dl rjómi, þeyttur
  • 300 g flórsykur
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 vanillustöng, klofin á lengdina og kornin skafin úr
  • 3 pakkar Toffypops kex
  • ber til skreytingar t.d. jarðaber, hindber, bláber, blæjuber og ástaraldin.

Rjóminn þeyttur og geymdur í ísskáp. Toffypops kexið er saxað niður og það sett í botninn á eldföstu móti. Örlítið af kexinu tekið til hliðar til að dreifa yfir réttinn í blálokin. Mascarpone ostinum, flórsykri, vanillusykri og vanillukornum blandað saman og þeytt þar til blandan verður létt. Þeytta rjómanum bætt varlega út í með sleikju. Rjómaostakremið smurt yfir Toffytops kexið. Skreytt með berjum og restinni af kexinu stráð yfir.

Ananasbaka


Ég hef séð sömu uppskriftina af ananasböku bregða fyrir á nokkrum sænskum matarbloggum og uppskriftasíðum. Alls staðar fær þessi uppskrift þvílíkt góða dóma og hrós hjá þeim sem hafa prófað. Ég verð nú að viðurkenna að þegar ég las hvað væri uppskriftinni þá var ég ekkert of spennt. Í henni eru afar fá hráefni og aðaluppistaðan er ananas úr dós! Gæti þetta mögulega verið gott? Ég tók áhættuna og lagaði þessa böku í eftirrétt um daginn þegar ég var með sænska gesti í heimsókn. Ég hugsaði sem svo að ég væri örugg með ljúffenga sashimi forréttinn (sem ég fæ ekki nóg af!) og svo ofnbakaða þorskinn með pístasíusalsa í aðalrétt. Ég gæti því vel tekið áhættu með eftirréttinn. Þetta er mögulega fljótlegasti eftirrétturinn sem ég hef nokkurn tímann búið til! Ég held að ég hafi örugglega verið innan við 10 mínútur að útbúa þessa böku fyrir ofninn. Þegar bakan kom út úr ofninum fannst mér hún líta afar óspennandi út og var viss um að hún væri ekki góð. En ég verð að viðurkenna að þessi ananasbaka kom verulega á óvart! Hún var afar ljúffeng, sérstaklega með vanilluís. Gestirnir voru mjög hrifnir en þau eru hins vegar einstaklega kurteist fólk og hefðu örugglega aldrei sagt neitt annað! En þessi baka er að mínu mati afskaplega fljótgerð, verulega ódýr og afar gómsæt! 🙂

Uppskrift:

Bökudeig:

150 gr smjör
1 dl sykur
1 tsk lyftiduft
3- 3 1/2 dl hveiti

Fylling:

ca 400 gr maukaður ananas (sigtaður þannig að vökvinn renni af)
1 dós sýrður rjómi ( 34 %)
1 egg
3/4 dl sykur
1.5 msk vanillusykur
1 dl kókosmjöl (má sleppa)

Aðferð:

Ofninn er stilltur á 175 gráður. Hráefnið í bökubotninn er blandað saman í matvinnsluvél þar til það verður að deigi (það er í lagi þótt það sé laust í sér) og síðan er deiginu þrýst vel í botninn á bökuformi (ca. 22-24 cm, líka hægt að nota lausbotna kökuform). Ef þið eigið ekki matvinnsluvél er hægt að skera smjörið í litla bita og vinna deigið saman í höndunum.
Hráefnunum í fyllinguna er blandað saman og hellt yfir bökubotninn. Bakað í ofni við 175 gráður í 25-30 mínútur. Borið fram volgt eða kalt með vanilluís eða rjóma (mér fannst bakan best köld og með ís!)

Súkkulaði – tvenna með hindberjum


Súkkulaði og hindber, tvenna sem ég mun aldrei fá nóg af! Ég prófaði þennan eftirrétt í fyrsta sinn í gærkvöldi og hann skaust strax á top 10 listann yfir uppáhalds eftirrétti og trónir þar mjög ofarlega! Ekki nóg með að hann sé dásamlega bragðgóður heldur er hann afar auðveldur að búa til. Fersk hindber kosta yfirleitt hönd, fót og frumburð manns að auki! Ekki nóg með það heldur eru oftast talsvert af berjunum ónýt í boxinu. Svona spari á ég því alltaf þessi hindber sem fást í Kosti, til að nota í góða eftirrétti. Þau kosta reyndar heilmikið en ekki jafn mikið og fersk. En þá fær maður stór og ljúffeng hindber sem eru næstum því eins og nýtínd þegar þau eru afþýdd, öll heil og alltaf til reiðu í frystinum. Ladys fingers eru fingurkökur sem eru þekktastar fyrir að vera notaðar í Tiramisu (einn af fáum eftirréttum sem ég borða ekki, mér finnst kaffi svo vont!), þær eru meðal annars til í Bónus. Það er líka Ribena saft í uppskriftinni eða Creme de Cassi líkjör en ég átti hvorugt til og setti í staðinn örlítið af sérrý.

Uppskrift (fyrir 4-6 glös)

  • 250 gr hreint mjólkursúkkulaði
  • 100 gr suðusúkkulaði
  • 1/4 dl mjólk
  • 1 peli rjómi
  • 150 gr frosin hindber, afþýdd
  • 200 gr fersk hindber (ég notaði frosin sem ég afþýddi)
  • 1-2 msk sítrónusafi
  • 2 msk flórsykur eða eftir smekk
  • 8-10 fingurkökur (Lady fingers)
  • 3 msk vatn
  • 1 msk Creme de Cassis-líkjör eða 1 msk Ribena-safi

Saxið allt súkkulaðið og setjið í skál. Hitið mjólkina og 3 msk af rjómanum við meðalhita og hellið yfir súkkulaðið. Hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Ef súkkulaðið bráðnar ekki alveg má setja það yfir vatnsbað í augnablik. Látið súkkulaðið kólna svolítið og þeytið restina af rjómanum á meðan. Bætið þeytta rjómanum varlega saman við súkkulaðið og kælið í ísskáp. Setjið nú frosnu hindberin (afþýdd) í matvinnsluvél ásamt sítrónusafa og flórsykri og maukið vel. Sigtið hratið frá maukinu og setjið 4-5 msk af hindberjasósunni í djúpan disk ásamt vatninu og líkjörnum. Dýfið fingurkökunum (brjótið þær ef það þarf til að þær passi í glösin) ofan í vökvann og þekjið botninn á glösunum með þeim. Setjið nokkur hindber ofan á kökurnar og hellið svo súkkulaðiblöndunni yfir. Gott getur verið að setja súkkulaðið í einnota sprautupoka og sprauta ofan í glösin. Setjið afganginn af hindberjunum ofan á súkkulaðimúsina. Látið plastfilmu yfir glösin og geymið í ísskáp í minnst tvær klukkustundir. Setjið afganginn af hindberjasósunni ofan á hindberin áður en glösin eru borin fram.

Pavlova í fínu formi


Ég hef áður sett hér inn uppskrift af Pavlovu, þeirri dásemdar tertu. Þetta er hins vegar rosalega góð öðruvísi útgáfa af Pavlovu, bökuð af móður minni, gestabloggara dagsins! 🙂 Hér er marengsinn settur í eldfast mót sem getur verið handhægt og sniðugt. Nóa kroppi er svo bætt út í rjómann sem gerir réttinn sérstaklega góðan! Það er líka hægt að nota súkkulaðirúsínur ef maður kýs það frekar. Ofan á rjómann er hægt að nota hvaða ávexti eða ber sem er. Hér notaði mamma jarðaber, vínber og íslensk bláber.

Uppskrift:

  • 8 eggjahvítur
  • 400 gr sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 3 tsk edik
  • 1/2 líter rjómi
  • Nóa kropp eða súkkulaðirúsínur
  • ávextir og/eða ber
  • 100 gr suðusúkkulaði

Eggjahvítur stífþeyttar, sykri bætt smám saman út í ásamt edik og salti. Marengsinn settur í eldfast mót og bakaður við 175 gráður í 30 mínútur, þá er lækkað niður í 135 gráður og bakað í 30 mínútur til vibótar. Eftir það er slökkt á ofninum og marengsinn látin kólna í ofninum, helst yfir nóttu. Rjómi þeyttur, Nóa kroppi bætt út í og rjómanum síðan smurt yfir marengsinn. Skreytt með berjum og eða ávöxtum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, kiwi eða ástaraldin. Að lokum er suðusúkkulaði brætt og dreift yfir berin og ávextina. Það er hægt að dreifa brædda súkkulaðinu yfir réttinn með skeið. En það er líka hægt að setja súkkulaðið í lítin poka, klippa örlítið gat á eitt hornið og sprauta því svo yfir (það má þó ekki vera það heitt að það bræði pokann).

Döðlueftirréttur


DöðlueftirrétturHugsa sér að það sé þegar kominn september! Börnin eru komin á kaf í skólann, íþróttir, tónlistaskólann og allt sem því fylgir. Ég er að vinna að meistararitgerðinni minni sem er 30 einingar (jafngildir heilli önn) sem fjallar um rafbækur og rafbókavæðingu á Íslandi, ásamt því að vinna hlutastarf í rannsóknarverkefni á Landspítalanum. Auk þess er ég að reyna að vera dugleg að mæta í ræktina og skokka, það geri ég eingöngu til að geta borðað meiri mat! Eftir á að hyggja hefði verið snjallt af mér að reyna að tengja efni meistararitgerðar minnar þessum bloggskrifum. Ég hefði örugglega getað tengt bloggið við námið mitt á einhvern hátt þar sem að ég er í upplýsingafræði sem er afar vítt svið. Þá hefði ég allavega afsökun fyrir því að ritgerðaskrifin endi oft þannig að ég sé að skoða uppskriftir á netinu! 😉

En uppskrift dagsins er einkar ljúffengur eftirréttur sem er bæði fljótlegur og auðveldur. Þetta er líka efttirréttur sem hentar vel að bera fram fyrir marga. Ekki hræðast áfengið í réttinum. Ég er lítið fyrir eftirrétti með miklu líkjörsbragði og notaði því bara rúmlega eina matskeið af líkjörnum, það gaf afar milt og gott bragð. Ég átti ekki Bailey’s en notaði Grand Marnier í staðinn sem kom vel út.

Í upprunalegu uppskriftinni voru mælieiningarnar í bollum sem mér finnst alveg óþolandi! Ég meina, veit einhver hver þessi bolli er? Er það kaffibolli, tebolli, espressobolli…?? Og þá hvaða stærð? Ég er löngu hætt að nenna að engjast um yfir þessu vandamáli, sérstaklega eftir að ég braut uppáhaldsbollann minn við það að mæla hveiti eitt sinn (sem sannaði það að bollar eiga bara alls ekki heima í hveitidöllum!) Núna skoða ég alltaf töflur þar sem bollum er breytt yfir í grömm en það er auðvitað mjög misjafnt eftir hráefninu hversu mörg grömm eru í bolla. Þið þurfið því ekki að hárreyta ykkur yfir þessu vandamáli þar sem að ég gef mælieiningarnar upp í óvéfengjanlegum grömmum! 🙂

Uppskrift f. 4

  • 300 gr döðlur, skornar í litla bita
  • 100 gr. suðusúkkulaði, saxað
  • 2 græn epli, flysjuð og skorin í bita
  • Bailey’s líkjör

Saxið döðlur, súkkulaði og epli í meðalstóra bita og setjið í skál. Hellið Bailey’s líkjörnum yfir og látið standa í kæli í um það bil 1 klukkustund.

Karamellusósa:

  • 200 gr sykur
  • 50 gr smjör
  • 2 1/2 dl rjómi

Bræðið sykur og smjör saman á pönnu við fremur háan hita. Hellið rjómanum saman við og hrærið þar til að sósan þykknar.

Hellið karamellusósunni yfir ávextina. Berið fram með þeyttum rjóma eða ís.

Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu


Fyrr í sumar var ég að kaupa kjöt í versluninni ,,Til sjávar og sveita“ þegar ég sá þar krukku af Dulce de leche. Ég vissi ekki hvers konar sósa þetta var en keypti eina krukku fyrir forvitnissakir (Sósan fæst líka í Þinni verslun). Núna lét ég loksins verða af því að skoða þessa sósu betur. Þá kom berlega í ljós að ég er jú bara leikmaður á matargerðarsviðinu því þessi sósa er vel þekkt. Dulce de leche er karmellusósa búin til úr niðursoðinni sætri mjólk. Hún er upprunnin frá Suður Ameríku og var fyrst framleitt þar fyrir yfir 100 árum til að varðveita mjólk yfir sumarmánuðina.  Sósuna er hægt að nota á marga mismunandi vegu, gott er að nota hana á pönnukökur t.d. með ís og svo fer hún líka sérlega vel með marengsbotni eða í bökur með rjóma og ferskum ávöxtum.  Það er sem sagt hægt að kaupa karmellusósuna tilbúna, eins og ég gerði að þessu sinni, eða búa hana til með því að setja niðursoðna sætmjólk í dós í pott með vatni og sjóða.

Niðursoðnu sætmjólkina er hægt að fá í Kosti og í verslunum með asíska matvöru. Miðinn er tekinn af dósinni og hún er sett í pott og hann fylltur vatni, það þarf að vera vatn yfir dósinni.  Látið suðuna koma upp og lækkið svo niður um helming þannig að vatnið rétt bárast. Látið sjóða í þrjár klukkustundir, því lengur sem mjólkin er soðin þess mun þykkari verður karamellan. Það þarf að sjá til þess að það sé alltaf vatn yfir dósinni á meðan suðu stendur gott er að snúa dósinni einstaka sinnum. Dósin er svo tekin úr pottinum og hún látin standa á borði í svona 20 mínútur áður en hún er opnuð. Það er líka hægt að geyma hana í ísskáp yfir nótt ef ekki á að nota hana strax.  Ef karamellan er of stíf er hægt að velgja aðeins í henni í potti eða örbylgjuofni.

Í Englandi var farið að gera ,,Banoffee pie“ fyrir um það bil 40 árum. Það er baka með kexbotni, Dulce de leche karamellusósu, banönum og rjóma. ,,Banoffee“ er orð sem hefur meira að segja fest sig í sessi í ensku yfir allt sem bragðast eða lyktar eins og blanda af banönum og karamellu! Hér er ég með uppskrift af sambærilegri böku og það er vel hægt að skipta út karamellusósunni í þessari böku fyrir Dulce de leche karamellusósuna. Mig langaði að gera böku úr þessari Dulce de leche karamellusósu sem ég hafði keypt en langaði ekki að gera ,,Banoffee“ böku þar sem ég gerði sambærilega slíka böku nýlega. Ég ákvað því að nota hindber í stað banana. Karamellan er sæt en hindberin eru súrsæt og með mildum rjómanum þá getur þessi blanda varla klikkað! Uppskrift:

  • 200 gr Digestive
  • 100 gr smjör
  • 500 gr hindber (má nota frosin hindber sem hafa verið afþýdd)
  • 400 gr Dulce de leche karamellusósa (eða ein dós niðursoðin sætmjólk soðin eftir leiðbeiningunum hér að ofan)
  • 300 ml rjómi
  • súkkulaðispænir til skreytingar

Aðferð: Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Blöndunni þrýst í botninn á forminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna áður en karamellusósan er sett á botninn. Þegar karamellusósunni hefur verið hellt yfir botninn er hindberjunum raðað yfir og að lokum þeyttum rjóma. Skreytt með súkkulaðispæni. Leyfið bökunni gjarnan að brjóta sig í ísskáp í nokkrar klukkustundir áður en hún er borin fram.

Heimsins bestu Brownies


Ég hef áður minnst á muscovado sykur og hvað hann sé góður í tertur og kökur. Muscovado sykur er hrásykur, unninn úr sykurreyr en ekki hreinsaður. Þó að hann sé ekki beint hollur þá inniheldur hann b-vítamín og ýmis önnur næringarefni sem eru ekki í hreinsuðum sykri. Það er ákveðið lakkrís/karmellubragð af honum og hann hentar því afar vel í ýmsar kökur, sælgæti, karamellusósur auk heitra drykkja. Þegar muscovado sykur er notaður í kökur verða þær bragðmeiri og rakari en ef að notaður er venjulegur sykur eða púðursykur þar sem að muscovado heldur svo vel í sér raka. Þess vegna hentar hann vel í brownies því þær eiga að vera svolítið rakar og næstum klesstar. Mér finnst þessar brownies feykigóðar og einfaldar að baka. Þegar ég er með matarboð skelli ég oft í eina uppskrift á meðan ég elda matinn og býð upp á nýbakaðar og gómsætar brownies í eftirrétt!

Uppskrift:

200 gr. suðusúkkulaði
225 gr. smjör
3 egg
225 Muscovado sykur (dökkur)
80 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
100 gr. grófhakkaðir valhnetukjarnar, líka hægt að nota pekanhnetur.
200 gr. mjólkursúkkulaði, grófbrytjað

Hitið ofnin í 180 gráður og smyrjið ferkantað form (ca. 20×30 cm). Brjótið suðusúkkulaðið í bita og setjið í pott ásamt smjörinu, bræðið við mjög vægan hita. Takið pottinn af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og blandan slétt. Þeytið saman egg og Muscovado sykur þar til létt og ljóst. Hrærið súkkulaðiblöndunni saman við. Blandið hveiti, lyftidufti, valhnetum og mjólkursúkkulaði varlega saman við. Hellið í formið og bakið neðarlega í ofni í 30-40 mín, eða þar til skorpa hefur myndast ofan á en kakan er enn mjúk. Leyfið kökunni að kólna dálítið í forminu áður en hún er skorin í bita. Berið bitana fram volga með vanilluís eða þeyttum rjóma, berjum og jafnvel heitri karamellusósu!

Karmellusósa:

120 g smjör
115 g púðursykur
½ tsk vanilludropar
¼ bolli rjómi

Setjið allt hráefnið saman í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sósuna krauma í 3-5 mínútur. Hærið stöðugt í á meðan.
Berið sósuna fram heita með kökunni

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin


Pannacotta er ljúffengur eftirréttur upprunninn frá Ítalíu. Þetta er nokkurskonar vanillubúðingur en pannacotta þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Þetta er einfaldur eftirréttur, rjómi, sætuefni og vanilla er soðið saman ásamt matarlími og síðan kælt. Yfirleitt er pannacotta borið fram með berum eða ávöxtum. Það er líka hægt að bragðbæta búðinginn með til dæmis kaffi, kanel, kakó eða kardimommu en hér nota ég hvítt súkkulaði. Þessi blanda, rjómi, ekta vanilla, hvítt súkkulaði og ástaraldin, gerir eftirréttinn skotheldan fyrir alla sælkera!

 Uppskrift f. 4

  •  5 dl rjómi
  • 1 msk hunang
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 vanillustöng, vanillukornin skafin innan úr stönginni
  • 80 gr. hvítt súkkulaði, saxað
  • 2 plötur matarlím
  • 4 ástaraldin (passion fruit)

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafinn úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur og hvítt súkkulaði ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 3 klukkutíma. Áður en pannacottað er borið fram eru ástaraldinin skorin í tvennt, innvolsið skafið úr og dreift yfir.

Bakaðar perur með mjúkum marengs og súkkulaði


Þetta er mjög fljótlegur en góður eftirréttur og ef maður á niðursoðnar perur til taks þá er auðvelt að útbúa þennan rétt með litlum fyrirvara því auk peranna eru bara örfá hráefni. Í þetta sinn bætti ég líka við hvítu súkkulaði. Ávextir með bræddu hvítu súkkulaði er alltaf feykigóð blanda og ég tók því áhættuna að það kæmi vel út í þessum rétti sem það og gerði.

Ég man mjög vel eftir því þegar ég gerði þennan rétt í fyrsta sinn. Þá var ég tvítug, nýflutt til Stokkhólms og við vorum að fá gesti í fyrsta sinn í íbúðina okkar þar. Ég átti litla dós af perum og lagði þær í form, það var ekki nóg þannig að ég tók ferskar perur sem voru mjög harðar og óþroskaðar, afhýddi, skar þær í tvennt og fyllti formið. Svo komu gestirnir, rétturinn leit mjög vel út og allir fengu sér í skál. Við Elfar lentum á dósaperunum sem voru mjúkar og heitar. Gestirnir fengu hins vegar á sinn disk fersku perurnar sem voru auðvitað enn grjótharðar! Þau reyndu að skera perurnar með skeiðinni en það gekk vægast sagt illa. Ég man að annar gesturinn sagði að þessi réttur væri mjög sérstakur! Og þá var hann ekki að meina ,,sérstaklega góður“! 🙂 Sama kvöld kveiktum við í fyrsta sinn upp í gamla arninum í íbúðinni, Elfar hafði fyrr um daginn rogast heim með 40 kílóa viðarpoka en við áttum ekki bíl. Ég vildi nú breiða yfir þennan misheppnaða rétt og kveikja upp í notalegum arni fyrir gestina. Það tókst ekki betur en svo að íbúðin fylltist af reyk og gestirnir enduðu úti á svölum til að reyna að ná andanum og nágranninn bankaði upp á og hélt að það væri kviknað í! Þessir gestir komu aldrei í heimsókn aftur! 😉

En fylgið bara uppskriftinni og kveikið ekki upp í stífluðum arni, þá get ég lofað ykkur að gestirnir verða sáttir! 🙂

Uppskrift:

  • 1 stór dós perur
  • 4 eggjahvítur
  • 4 msk flórsykur
  • 100 gr suðusúkkulaði
  • 50 gr hvítt súkkulaði (hentar vel að nota hvíta súkkulaðidropa), má sleppa


Aðferð:

Raðið perunum í eldfast mót með skornu hliðina upp. Saxið hvíta súkkulaðið frekar fínt og setjið í dældirnar í perunum, ef notaðir eru hvítir súkkulaðidropar þarf ekki að saxa þá. Stífþeytið eggjahvítur og sykur. Þekjið perurnar með eggjahrærunni. Bakið við 110 gráður í u.þ.b 20 mínútur eða þar til rétturinn er orðinn fallega brúnn. Bræðið súkkulaði í vatnsbaði og dreifið því yfir réttinn eftir að formið er tekið úr ofninum . Berið fram heitt með ís.

Súkkulaðimús


Það eru til nokkrar útfærslur af súkkulaðifrauði. Mér finnst eiginlega hægt að flokka þær gróflega í fjórar útgáfur. Ein útgáfan er súkkulaði, sykur og bara eggjahvítur. Í annarri útgáfu er eggjarauðunum bætt út í súkkulaðið, sem sagt eggjarauðurnar notaðar auk eggjahvítanna. Í þriðju útgáfunni bætist rjómi við grunnhráefnið. Í þeirri fjórðu er enginn rjómi notaður en í stað hans kemur smjör. Í bókinni hennar Juliu Child notar hún einmitt síðastnefndu aðferðina (mæli með kvikmyndinni Julie & Julia ef þið hafið ekki séð hana enn!). Ég er enn að prufa mig áfram. Núna notaði ég uppskrift með hvorki smjöri né rjóma sem telst líklega mest hefðbundin og upprunaleg uppskrift af súkkulaðifrauði og það kom afar vel út. Ég notaði 70% súkkulaði en það er með 70% kakóinnihaldi og 30% sykri. Það er talað um að það þurfi aðeins að venjast svona kröftugu og lítið sætu súkkulaði og mörgum finnst það fullrammt við fyrstu kynni. Fyrir þá sem finnst þetta of rammt súkkulaði geta notað 56% súkklaði í uppskriftina hér að neðan. Næst ætla ég að prófa uppskriftina frá Juliu Child sem er með smjöri og mun auðvitað uppfæra hér á blogginu hvers konar súkkulaðifrauð hafi vinninginn!

Uppskrift f. 6-8 (fer eftir skammtastærð)

200 gr gott dökkt súkkulaði (56-70%)

8 eggjahvítur

75 gr sykur

3 eggjarauður

Súkkulaði brætt í vatnsbaði og kælt dálítið. Eggjarauður ásamt helmingnum af sykrinum þeytt þar til blandan verður ljós. Brædda súkkulaðinu hellt varlega saman við eggjarauðurnar og hrært vel í á meðan. Eggjahvíturnar hálfþeyttar og afganginum af sykrinum bætt út í smátt og smátt meðan þær eru stífþeyttar. Blandið þriðjungi af þeyttu eggjahvítunum rösklega saman við súkkulaðiblönduna með písk eða sleif. Að því búnu er afganginum af eggjahvítunum blandað varlega saman saman við með sleikju. Hér sést rétt tækni hvernig blanda á þeyttum eggjahvítum við annað hráefni án þess að þær missi ,,loftið“.

Setjið súkkulaðifrauðið í skálar eða glös og geymið í ísskáp í að minnsta kosti 2-3 klukkutíma áður en það er borið fram. Það er falleg og gott að skreyta með þeyttum rjóma og berjum, t.d. hindberjum eða jarðaberjum