Tacobaka


Ég er alltaf á höttunum eftir góðum nautahakksuppskriftum. Nautahakk er fremur ódýrt hráefni, það er fljótlegt í matreiðslu og það er hægt að gera úr því margskonar ólíka matrétti. Í gærkvöldi bjó ég til tacoböku sem var býsna góð. Uppskriftina fann ég á sænskri uppskriftasíðu. Ég reyndar breytti henni töluvert, bætti meðal annars við maís, papriku, kotasælu og lauk ásamt því að gera fleiri breytingar. Í uppskriftinni er jalapeños sem er sterkt en mér finnst það afar gott í þennan rétt. En það þarf að kannski að minnka magnið talsvert ef börn borða réttinn, þeim líkar sjaldan sterkur matur. Það er líka sniðugt að setja ekki jalapeños í hakkið heldur raða því ofan á réttinn ásamt tómötum, þá er hægt að skilja eftir horn fyrir börnin án jalapeños.

Uppskrift f. 4

Deig:

  • 2 ½ dl hveiti
  • 125 gr smjör, kalt
  • 2-3 msk kalt vatn

Smjöri og hveiti blandað saman, gott að gera það í matvinnsluvél eða með tveimur göfflum, þar til það er orðið eins og gróft mjöl. Bætið þá vatninu saman við deigið og hnoðið. Fletjið út deigið milli smjörpappírs og setjið það svo í bökuform (eða eldfast mót). Kælið deigið í ísskáp í 30 mínútur (til þess að það dragist ekki saman við baksturinn). Bakið svo við 225 gráður í 10 mínútur.

Tacofylling:

  • 700 gr nautahakk
  • 1 bréf tacokrydd
  • 200 gr kotasæla
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 2 dl maísbaunir
  • 1 dós sýrður rjómi með hvítlauk
  • 2 niðurskornir tómatar
  • jalapeños eftir smekk
  • rifinn ostur

Steikið lauk og papriku á pönnu. Bætið við hakki og þegar það er gegnumsteikt er tacokryddi bætt við ásamt maísbaunum, kotasælu og jalapeños. Látið malla á lágum hita, hrærið í blöndunni öðru hverju. Hellið nautahakkinu í bökuformið. Breiðið ofan á hakkið sýrða rjómanum, leggið tómatsneiðar yfir sýrða rjómann (og jalapeños ef maður kýs þar frekar að dreifa því yfir réttinn fremur en að setja það í hakkið). Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn. Bakið í ofni við 225 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.

Berið fram með guacamole, sýrðum rjóma, tómatsalsa og salati.

Osta-quesadillur með chili og súperhollt salsa – óvænt ástarsamband!


Í gærkvöldi var saumaklúbbur hjá einum skemmtilegasta klúbb landsins þó víða væri leitað! Þar flæddi heilsueflandi hormón, endorfín, allt kvöldið! Samkvæmt rannsókn breska tannlæknafélagsins gefur hlátur jafn mikla ánægju og það að borða 2.000 súkkulaðistykki! Sé það satt þá var jafngildum mörg þúsund súkkulaðistykkja sporðrennt í gærkvöldi! 🙂 Auk þess komu þessar gæðakonur með ýmiskonar gúmmelaði í klúbbinn. Sá skemmtilegi atburður gerðist á hlaðborðinu að það upphófst óvænt ástarsamband milli réttanna sem við Ragnhildur komum með! Hún Ragga, sem hæglega gæti haldið úti girnilegu matarbloggi (hvet hana til þess hér með!),  býr í Bandaríkjunum. Þegar hún er hér á landi þá kynnir hún okkur oft fyrir ýmsum girnilegum bandarískum vörum eða réttum. Til dæmis kynnti hún okkur eitt sinn fyrir sjúklega góðu og hollu snakki, Multigrain, sem er gert úr hörfræjum, sólblómafræjum og brúnum hrísgrjónum. Það fæst stundum í Kosti. Berið það fram með ofboðslega góðri ídýfu:

  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 2 dl sweet chilisósa

Blandað saman og borið fram með Multigrain snakkinu.

Í gærkvöldi kom Ragga með feyki gott og hollt salsa sem hún bar fram með þessum mexíkósku skálum, Tostios Scoops (einungis 7% fita) sem fást oft í Kosti og Hagkaup. Salsasósan er súperholl og var einstaklega góð í þessum skálum. Ég hins vegar bjó til heitar Quesadillur með chili, fetaosti og mozzarellaosti. Fyrir mistök setti ein okkar salsað hennar Röggu á quesadillurnar mínar og viti menn, þetta passaði eins og flís við rass (sem er kannski ósmekkleg samlíking þegar um mat er að ræða en á samt svo vel við 😉 )! Þarna var því kominn nýr og girnilegur partýréttur: ,,Osta-quesadillur með chili og súperhollu salsa“!

Súper hollt salsa, uppskrift:

  • 1 stór dós kotasæla
  • 8 tómatar
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1/2 lime
  • ferskt kóríander, saxað fremur smátt
  • 1 rautt chili, saxað smátt
  • salt og pipar

Skerið tómatana í helminga og hreinsið úr þeim aldinkjötið, það er ekki notað. Skerið skelina af tómötunum smátt. Kotasælu, tómötum, chili, lauk og kóríander blandað saman. Smakkað til með limesafa, salti og pipar. Salsað látið brjóta sig í ísskáp í 15-30 mínútur áður en það er borið fram.

Osta-quesadillur með chili:

  • 2 rauð chili
  • 200 gr mozzarella ostur, rifinn
  • 100 gr fetaostur
  • 12-16 grænar ólífur, steinlausar (ég átti þær ekki til og notaði í staðinn 1 avókadó)
  • 2-3 msk ferskt kóríander, saxað
  • 8 hveititortillur
  • 4 msk ólífuolía
  • 1/2 – 1 tsk paprikuduft

Hitið ofninn í 200 gráður. Fræhreinsið og saxið chili-aldinin og setjið þau í matvinnsluvél ásamt mozzarella osti, fetaosti, ólífum (eða avókadó) og kóríander og látið vélina ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Einnig má saxa allt smátt og hræra saman í skál. Setjið 4 tortillur á pappírsklædda bökunarplötu, skiptið ostamaukinu jafnt á þær og leggið hinar tortillurnar ofan á (ég notaði orginal wrap tortillas frá Santa María, þær eru það stórar að ég varð að nota tvær bökunarplötur). Blandið saman ólífuolíu og paprikudufti og penslið tortillurnar vel. Leggið álpappírsörk yfir og bakið í miðjum ofni í um 5 mínútur. Fjarlægið þá álpappírinn og bakið áfram í um 5 mínútur eða þar til tortillurnar eru að byrja að taka lit á brúnunum. Takið þær þá út og skerið þær í fjóra til átta geira hverja. Berið þær fram heitar eða volgar, t.d. sem léttan aðalrétt með salati, á hlaðborð eða sem partýrétt. Og gjarnan með súperholla salsanu hennar frú Röggu Bree sem eldar bara á háhæluðum! 🙂

Guacamole


Guacamole er í miklu uppáhaldi hér á heimilinu. Ég kaupi aldrei þetta tilbúna í krukkum, það er bara alls ekki gott! Enda minnir mig að það standi í innhaldslýsingu að í krukkunni sé 1% avókadó! Yngstu krökkunum finnst reyndar best þegar ég stappa saman fersku avókadó og blanda við tilbúna guacamole kryddblöndu. En okkur hinum finnst þessi uppskrift best. Það er hægt að nota hana með meiru en bara tortillas vefjum eða tortilla flögum. Það getur verið gott að bera fram guacamole með grilluðum mat, hamborgurum og ekki síst með þessum rétti. Eins og alltaf með avókadó þá er mikilvægt að það sé orðið rétt þroskað. Til að hraða fyrir þroskanum er hægt að setja avókadó í lokaðan bréfpoka með eplum og/eða banönum sem gefa frá sér etýl gas sem hraðar fyrir þroskanum. Það er misjafn smekkur fólks hversu gróft það vill hafa guacamole maukið. Ég vil hafa bita í því en það er líka hægt að mauka það alveg saman fyrir þá sem vilja. Hér að neðan gef ég upp hlutföll í uppskriftinni en það er mikilvægt að smakka maukið til. Til dæmis geta chili-aldin verið misjafnlega bragðsterk og gæti þurft að minnka eða auka magnið af þeim sem og af öðrum hráefnum.

Uppskrift:

  • 2 vel þroskuð avókadó, skorin í litla bita
  • 2 stórir tómatar, skornir mjög smátt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt (má sleppa)
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1-2 fersk rauð chili, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
  • safi úr einni límónu (lime)
  • 1-2 búnt ferskt kóríander, saxað smátt
  • 1/2 tsk salt

Blandið saman öllum hráefnunum og setjið í skál, lokið skálinni mjög þétt með plastfilmu og geymið í ísskáp í minnst korter áður en hún er borin fram. Guacamole geymist illa og ætti því að vera borið fram strax.

Mexíkósk tortilluterta


Þessi uppskrift kemur frá sænsku matarbloggi en ég hef aðeins breytt henni. Krakkarnir eru afar hrifnir af þessum rétti og rukka mig reglulega um hann. Vinkona Jóhönnu heyrði að það yrði tortilluterta í matinn hjá okkur og fannst það hljóma voða vel að það yrði terta í kvöldmatinn hjá okkur! 🙂 Ég nota extra stórar tortillukökur en þær fást hjá Tyrkneskum bazar Síðumúla og líka í Kosti. En það er hægt að nota allar stærðir af tortillum í þessa uppskrift, þegar ég er með minnstu gerðina geri ég tvær tertur en ef ég er með millistærð geri ég eina tertu en þá verður hún bara hærri. Ég ber fram með tortillutertunni ferskt salat, en ég er orðin sjálfbær núna í salatinu, allt þetta græna á myndinni kemur úr garðinum! Venjulega hef ég líka með þessu sýrðan rjóma, ferskt guacamole og salsa. En á meðan ég eldaði þessa stóru tertu týndist út úr húsi hver fjölskyldumeðlimurinn á fætur öðrum, alltaf svo magt skemmtilegt að gera hjá öllum í góða veðrinu! Á endanum sat ég því ein eftir þegar tertan var tilbúin og ég lét mér því bara nægja salatið að sinni sem meðlæti.

Uppskrift f. 4:

  • 5-6 st meðalstórar tortillakökur
  • 800 gr. kjúklingabringur
  • 1/2-1 bréf burrito kjúklingakrydd
  • 1 gulur laukur
  • 1 púrrlaukur
  • 250 gr. sveppir
  • 1 rauð paprika
  • smjör til steikingar
  • 1 krukka Thick´n Chunky Salsa
  • 200 rjómaostur
  • svartar ólífur, saxaðar
  • rifinn ostur
  • salt og pipar

Stillið ofninn á 225 gráður. Skerið kjúklingabringurnar í litla teninga, saxið laukinn, skerið púrrlaukinn í strimla, sneiðið sveppina og skerið paprikuna í bita. Steikið kjúklinginn í smjörinu og kryddið með burrito kryddinu, bætið sveppum, papriku, lauk og púrrlauk við og steikið í nokkrar mínútur. Bætið út í salsaósunni og rjómaosti og látið malla þar til að rjómaosturinn hefur bráðnað. Smakkið til með salti og pipar.

Setjið smjörpappír á ofnplötu og eina tortillaköku á plötuna. Breiðið kjúklingasósu yfir kökuna, þá rifnum osti, leggið yfir aðra tortilluköku yfir og þannig koll af kolli. Endið á kjúklingasósu, stráið ólífum yfir og að lokum rifnum osti.  Hitið í ofninum í ca. 15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og gullinbrúnn.

Berið fram með salati, sýrðum rjóma, fersku guacamole og salsasósu.