Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu


Fyrr í sumar var ég að kaupa kjöt í versluninni ,,Til sjávar og sveita“ þegar ég sá þar krukku af Dulce de leche. Ég vissi ekki hvers konar sósa þetta var en keypti eina krukku fyrir forvitnissakir (Sósan fæst líka í Þinni verslun). Núna lét ég loksins verða af því að skoða þessa sósu betur. Þá kom berlega í ljós að ég er jú bara leikmaður á matargerðarsviðinu því þessi sósa er vel þekkt. Dulce de leche er karmellusósa búin til úr niðursoðinni sætri mjólk. Hún er upprunnin frá Suður Ameríku og var fyrst framleitt þar fyrir yfir 100 árum til að varðveita mjólk yfir sumarmánuðina.  Sósuna er hægt að nota á marga mismunandi vegu, gott er að nota hana á pönnukökur t.d. með ís og svo fer hún líka sérlega vel með marengsbotni eða í bökur með rjóma og ferskum ávöxtum.  Það er sem sagt hægt að kaupa karmellusósuna tilbúna, eins og ég gerði að þessu sinni, eða búa hana til með því að setja niðursoðna sætmjólk í dós í pott með vatni og sjóða.

Niðursoðnu sætmjólkina er hægt að fá í Kosti og í verslunum með asíska matvöru. Miðinn er tekinn af dósinni og hún er sett í pott og hann fylltur vatni, það þarf að vera vatn yfir dósinni.  Látið suðuna koma upp og lækkið svo niður um helming þannig að vatnið rétt bárast. Látið sjóða í þrjár klukkustundir, því lengur sem mjólkin er soðin þess mun þykkari verður karamellan. Það þarf að sjá til þess að það sé alltaf vatn yfir dósinni á meðan suðu stendur gott er að snúa dósinni einstaka sinnum. Dósin er svo tekin úr pottinum og hún látin standa á borði í svona 20 mínútur áður en hún er opnuð. Það er líka hægt að geyma hana í ísskáp yfir nótt ef ekki á að nota hana strax.  Ef karamellan er of stíf er hægt að velgja aðeins í henni í potti eða örbylgjuofni.

Í Englandi var farið að gera ,,Banoffee pie“ fyrir um það bil 40 árum. Það er baka með kexbotni, Dulce de leche karamellusósu, banönum og rjóma. ,,Banoffee“ er orð sem hefur meira að segja fest sig í sessi í ensku yfir allt sem bragðast eða lyktar eins og blanda af banönum og karamellu! Hér er ég með uppskrift af sambærilegri böku og það er vel hægt að skipta út karamellusósunni í þessari böku fyrir Dulce de leche karamellusósuna. Mig langaði að gera böku úr þessari Dulce de leche karamellusósu sem ég hafði keypt en langaði ekki að gera ,,Banoffee“ böku þar sem ég gerði sambærilega slíka böku nýlega. Ég ákvað því að nota hindber í stað banana. Karamellan er sæt en hindberin eru súrsæt og með mildum rjómanum þá getur þessi blanda varla klikkað! Uppskrift:

  • 200 gr Digestive
  • 100 gr smjör
  • 500 gr hindber (má nota frosin hindber sem hafa verið afþýdd)
  • 400 gr Dulce de leche karamellusósa (eða ein dós niðursoðin sætmjólk soðin eftir leiðbeiningunum hér að ofan)
  • 300 ml rjómi
  • súkkulaðispænir til skreytingar

Aðferð: Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Blöndunni þrýst í botninn á forminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna áður en karamellusósan er sett á botninn. Þegar karamellusósunni hefur verið hellt yfir botninn er hindberjunum raðað yfir og að lokum þeyttum rjóma. Skreytt með súkkulaðispæni. Leyfið bökunni gjarnan að brjóta sig í ísskáp í nokkrar klukkustundir áður en hún er borin fram.

Brieostabaka með mango chutney


Eitt kvöldið í vikunni fengum við góða gesti í kvöldkaffi. Ég vildi bjóða upp á osta en langaði í tilbreytingu frá venjulegum ostabakka. Ég fór að hugsa um þegar góðir ostar eru bakaðir í ofni með mango chutney og kasjúhnetum og datt í hug hvort að það væri ekki hægt að gera meira úr því, einhverskonar böku. Ég fór á netið og fann ekkert á íslenskum vefsíðum. En þegar ég fór að skoða sænskar vefsíður kom í ljós að ég var ekkert að finna upp hjólið! Það voru til nokkrar útgáfur af bökum með brie og mango chutney enda eru Svíar mikið fyrir allskonar bökur. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir og týndi saman það mér leist vel á úr hverri uppskrift og útkoman var þessi baka sem var afar ljúffeng. Það er hægt bera fram með bökunni parmaskinku sem er örugglega afar gott en þar sem gestirnir okkar eru grænmetisætur þá gerði ég það ekki. Þessa böku er líka hægt að bera fram sem forrétt. Þá er hægt að setja bökusneið og salat á forréttadiska.

Uppskrift

Botn:

  • 3 dl hveiti
  • 125 gr smjör (kalt, skorið niður í litla bita)
  • 1 msk kalt vatn
  • 1/2 dl sólblómafræ (má sleppa)

Fylling:

  • 400g brie ostur (ég notaði einn brie ost og einn gullost)
  • U.þ.b. 1.5 dl mango chutney
  • 3 egg
  • 2 1/2 dl rjómi (má nota matargerðarjóma)
  • salt og pipar
Hveiti og smjör sett í matvinnsluvél þar til það verður að deigi. Vatni bætt við og hrært í smástund í viðbót. Sólblómafræjum bætt við í lokin, gott að láta þau ekki myljast of mikið niður. Deginu þrýst niður á botninn í  bökuformi og upp með hliðunum, kælt í 30 mínútur. Botninn bakaður við 225 gráður í 10 mínútur. Brie ostur skorinn í sneiðar og raðað ofan á botninn. Helmingurinn af mango chutney smurt ofan á ostinn (ég mældi ekki magnið af mango chutneyið, smurði því bara vel á!). Eggjum, rjóma, salt og pipar pískað saman. Helmingnum af eggjahrærunni helt ofan á bökufyllinguna. Afgangnum af brie osti raðað yfir ásamt mango chutney og að lokum er restinni af eggjablöndunni hellt yfir. Lækkið ofnin niður í 200 gráður og bakið í 30-40 mínútur eða þar til bakan er tilbúin. Setjið álpappír yfir bökuna ef hún dökknar of mikið.

Balsamedik-síróp
  • 2 dl balsamedik
  • 1 msk hunang
  • 1 hvítlauksrif

Hráefninu blandað saman í lítinn pott og látið krauma þar til blandan hefur soðið niður um helming og hefur þykknað. Hvítlauksrifið fjarlægt, blandan kæld, hellt yfir bökuna.

Banana-karamellubaka


Þessi himneska baka kemur úr smiðju Davids Lebovitz sem er snillingur þegar kemur að eftirréttagerð. Uppskriftina er að finna í bókinni hans Ready for Dessert: My Best Recipies. Á ensku heitir þessi baka Butterscotch Banana Cream Pie. Ég er búin að spá aðeins í þetta ,,butterscotch“. Á íslensku notum við orðið karamella yfir allar gerðir karamellu. En á ensku er til:

Butterscotch = púðursykur, rjómi og smjör hitað í ca. 115°C – 125°C.
Toffee = púðursykur, rjómi og smjör hitað upp í 150°C – 160°C þar til það verður stökkt.
Caramel = hvítur sykur ásamt smjöri og rjóma hitað þar til sykurinn brúnast, gerist við 150-170°C

Ég fæ ekki séð að við eigum mismunandi orð yfir þessar karamellur en ég er búin að fletta upp í eldhúsbiblíunni minni, Matarást eftir Nönnu Rögnvaldar, hún notar ensku orðin til aðgreiningar.

Eins og kemur fram hér að ofan þá er oftast rjómi í butterscotch-karamellunni en David notar mjólk í þessari uppskrift sem er auðvitað snilld, þá getur maður fengið sér fleiri sneiðar af bökunni án samviskubits! 🙂

Það kannski lítur út fyrir að það sé flókið að gera karamelluna en svo er alls ekki. Fylgið bara leiðbeiningunum nákvæmlega. Snilld við þessa böku er að það er hægt að útbúa hana deginum áður, en þá er bara rjómanum bætt við rétt áður en bakan er borið fram. Ég mæli með að þið prófið þessa dásemdarböku sem allra fyrst! 🙂

 Uppskrift

Botn:
180 gr súkkulaðikex (td. Maryland, rautt) eða Digestive kex ef maður vill minna sætan botn.
3 msk sykur
4 msk bráðið smjör

Aðferð:
Smyrjið bökuform. Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Sett í botninn á forminu og blöndunni þrýst i í botninn og upp í hliðar á bökuforminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna á meðan karamellan er er útbúin.

Karamella: 

215 gr. púðursykur
30 gr. smjör
3 msk. maizenamjöl
375 ml. nýmjólk
1/2 tsk. salt
3 eggjarauður
1/2 tsk vanilluextract (ég notaði fræin úr ferskri vanillustöng í staðinn en það er líka hægt að nota vanilludropa)
3 þroskaðir bananar

Aðferð:

  1. Bræðið smjör og púðursykur saman á meðalhita í potti, hellið yfir í meðalstóra skál, setjið sigti yfir skálina og setjið til hliðar
  2. Hrærið maizenamjölið út í 75 gr. af mjólkinni í lítilli skál. Hitið restina af mjólkinni með saltinu í potti þangað til að blandan er við suðu og hellið þá maizenamjölsblöndunni út í og hrærið þar til blandan þykknar (álíka mikið og majónes).
  3. Þeytið eggjarauðurnar saman í skál. Hellið smá af heitri mjólkurblöndunni útí eggin og þeytið meira. Hellið nú eggjablöndunni út í pottinn með heitu mjólkinni, sjóðið á meðalhita til að blandan þykkni.
  4. Hellið nú heitri blöndunni í gegnum sigtið ofan í púðursykurblönduna. Bætið vanilluextract við og hrærið vel saman. Núna er karamellan tilbúin.
  5. Skerið bananana niður í 6 mm sneiðar og dreifið yfir kexbotninn. Hellið karmellublöndunni yfir bananana, setjið plastfilmu yfir bökuna og geymið í kæli í minnst 2 klukkutíma áður en rjóminn er settur ofan á og bakan borin á borð.

IMG_3190

Rjómi:

250 ml rjómi
1 msk sykur
1/2 tsk vanilluextract
súkkulaðispænir til skreytingar

Þeytið rjómann þar til hann fer að þykkna, bætið þá sykri og vanilluextract út í og þeytið rjómann til fulls. Dreifið yfir bökuna og skreytið með súkkulaðispæni.

Berjabaka – Jóhanna Inga 7 ára gestabloggar!


Jóhanna Inga hefur nú lokið vikulöngu matreiðslunámskeiði. Hún gaf námskeiðinu hæstu einkunn en það er afar góður vitnisburður þar sem að þessi unga stúlka er kröfuhörð! 🙂 Þau fengu að gera alls 16 rétti, meðal annars pottrétt, pönnukökur, pæ, ís, salat, brauð, kökur, fiskrétt og súpu. Allt voru þetta mjög góðir og girnilegir réttir. Í lokin fengu þær vinkonurnar kokkahúfur! 🙂

Jóhanna Inga, Gyða Dröfn og Hrefna Rós:

Jóhanna Inga ætlar að gefa uppskrift af einum rétti sem hún útbjó. Þó svo að allir réttirnir hafi verið góðir var þetta eitthvað sem öllum í fjölskyldunni fannst afar ljúffengt. Hún segir að það sé mjög auðvelt að búa til þennan rétt! 🙂

Berjapæ

  • 2 dl. hveiti
  • 1 dl. púðursykur
  • 1 dl. sykur
  • 1/2 tsk. kanill
  • 1/4 tsk. salt
  • 2 dl. haframjöl
  • 100 gr. smjör
  • 4 dl. ber (hægt að nota frosna berjablöndu)
  • 1 epli, afhýdd og skorið í bita
  • 2 dl. sykur
  • 2 msk. maísmjöl

Aðferð:

  1. Blandaðu saman fyrstu 7 hráefnunum. Smjörið á að vera kalt.
  2. Myldu saman öll hráefnin þar til blandan minnir á haframjöl. Gættu þess að mylja ekki of mikið því þá bráðnar smjörið.
  3. Blandaðu eplunum, berjum, sykrinum og maísmjölinu saman.
  4. Settu berjablönduna í eldfast mót og stráðu svo hveitiblöndunni yfir.
  5. Settu í 180 gráðu heitan ofn í 35-40 mínútur eða þar til toppurinn er orðin gullinbrún og berjablandan bubblar upp um hliðarnar.
  6. Berið fram heitt með ís eða rjóma.
Hér er berjapæið hennar Jóhönnu ásamt heimatilbúna ísnum sem hún útbjó. Jóhanna vill koma því á framfæri að það hentar mjög vel líka að nota nýtínd bláber í þessa berjaböku! 🙂