Ég er svo hrifin af pæjum eða bökum, þó sérstaklega og aðallega eplabökum. Mér finnst líka hindber sjúklega góð, ég er því búin að horfa lengi á þessa uppskrift og ætla að prófa hana. Þessi baka var ofsalega góð og krökkunum fannst hún himnesk! Svona bökur eru svo þægilegar að gera, þær eru fljótlegar og oftast á maður allt hráefnið til. Ég mæli með þessari fyrir bóndann á morgun! 🙂
Uppskrift:
- 100 g smjör, skorið í teninga
- 100 g muscovadosykur eða púðursykur
- 75 g haframjöl
- 100 g pecan hnetur, saxaðar smátt
- 1 tsk vanillusykur
- ½ tsk kanill
Fylling:
- 4-5 epli, afhýdd og skorin í litla jafnstóra teninga
- ca 2 dl hindber (hægt að nota fryst hindber sem hafa verið afþýdd)
- Safi úr 1/4-1/2 sítrónu
Eplin eru sett í bökuform ásamt hindberjunum og sítrónusafanum dreift yfir. Þá er restinni af hráefnunum blandað saman í höndunum og dreift yfir eplin og hindberin. „Crumble“-ið (hvað kallast það á íslensku??) er hægt að gera með góðum fyrirvara og geyma í ísskáp. Bakan er bökuð í miðjum ofni við 180 gráður í 20-25 mínútur. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

