Súkkulaðiterta með söltu karamellukremi og afmæli Eldhússagna!


Súkkulaðiterta með saltri karamellu

Í dag er sérstakur dagur. Í fyrsta lagi er pabbi minn 65 ára í dag. En það þýðir líka að það er einmitt eitt ár síðan að ég opnaði þetta matarblogg. Fyrir einu ári síðan settist ég í stutta stund niður við tölvuna áður en ég fór í afmælisveisluna til pabba og stóð upp skömmu seinna sem matarbloggari. Á þeim tímapunkti var ég í fullkomri óvissu um hvað það myndi hafa í för með sér eða hvort ég myndi yfir höfuð endast í meira en einn dag sem matarbloggari!

blogg

Annað hefur komið á daginn, ég er hér enn og hef birt yfir 270 uppskriftir á þessu ári sem liðið er eða rúmlega fimm bloggfærslur í hverri viku. Enn ótrúlegri er sú staðreynd að fullt af fólki virðist hafa áhuga og ánægju af uppskriftunum mínum. Það er nokkuð sem gleður mig ósegjanlega mikið og er mér hvatning í að halda ótrauð áfram. Ég hefði líklega gefist upp fyrir löngu ef ég væri ekki með svona góða og skemmtilega lesendur eins og þið eruð! 🙂

blogg1

Það er líka svo gaman að sjá hversu mikil gróska er komin í íslensk matarblogg. Síðan ég byrjaði að blogga hafa bæst í hópinn mörg fleiri skemmtileg og bitastæð matarblogg hér á WordPress. Ég er sannfærð um að íslensk matarblogg eiga eftir að verða enn fleiri þegar fram líða stundir. Matarblogg bjóða upp á svo marga nýja og spennandi kosti þegar kemur að uppskriftum og mat. Í fyrsta lagi geta allir spreytt sig á matarbloggi, til þess þarf enga kokka- eða bakaramenntun, bara áhuga og vilja. Matarbloggin eru líka lifandi svæði þar sem lesendur geta rætt um matinn og uppskriftirnar, þeir geta deilt með sér ráðum og upplýsingum og þannig í raun stöðugt verið að þróa uppskriftirnar áfram.

blogg2

Í lok fyrsta mánaðarins sem ég bloggaði heimsóttu um það bil 60 lesendur í síðuna mína daglega. Mér fannst það ótrúlega margt fólk og ég skildi ekkert í að 60 manns hefðu fyrir því að heimsækja blogið mitt á hverjum degi. Í dag sækja 6-7000 gestir bloggið mitt daglega en sem mest hafa heimsóknirnar farið upp í 13 þúsund gesti á dag – næstum því jafn margir og kusu flokkinn Bjarta framtíð í síðustu kosningum eða 7% af kosningabærum Íslendingum! 😉 Það er dálítið undarleg tilfinning og óraunverulegt að fara varla á mannamót án þess að ég hitti ókunnugt fólk sem segist lesa bloggið mitt. Bloggið hefur fært mér ótrúlega mörg verkefni sem mig hefði aldrei órað fyrir að mér myndu bjóðast. Uppskriftir frá mér hafa birst í Vikunni, Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og að auki er ég með fastan uppskriftaþátt hjá N4 dagskránni sem kemur út vikulega fyrir norðan. Ég hef tekið að mér að elda fyrir 40 manna  árshátíð og núna er ég að vinna að stóru og spennandi verkefni sem kemur út á prenti í náinni framtíð. Bloggið hefur því leitt mig á algjörlega nýjar og spennandi slóðir!

IMG_0281

Í tilefni dagsins finnst mér við hæfi að koma með krassandi uppskrift af afmælisköku! Ég hef beðið spennt eftir rétta tilefninu að birta þessa frábæru uppskrift af einni þeirri bestu tertu sem ég hef smakkað – tilefnið getur ekki orðið betra en í dag! 🙂 Þetta er himnesk súkkulaðiterta með söltu karamellukremi. Kremið er draumkennt marengskrem með dulce de leche saltri karamellu og kakan umvafin þykku og girnilegu súkkulaðikremi. Sjálf kakan er yndislega bragðgóð og er næstum því eins og súkkulaðifrauð. Þið bara verðið að prófa þessa kræsingu! Það lítur kannski út fyrir að kakan sé flókin en hún er það í raun ekki, kannski dálítið tímafrek en algjörlega þess virði!

IMG_0310

IMG_0307

IMG_0304

Uppskrift: 

Kökubotnar

 • 2 egg
 • 2 dl sterkt kaffi
 • 2½ dl súrmjólk
 • 1,25 dl matarolía
 • 200 g hveiti
 • 420 g sykur
 • 85 g kakó
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk vanillusykur

Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.

Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.

Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.

IMG_0273

IMG_0291

Marengskrem með saltri karamellu

 • 160 g eggjahvítur (ca. 5 egg)
 • 200 g sykur
 • 400 g smjör, vel við stofuhita
 • 1/2 tsk maldon salt (eða annað flögusalt)
 • 2 dl dulce de leche karamellusósa (Hér eru upplýsingar um dulce de leche sósuna, hana er hægt að kaupa tilbúna í t.d. Þinni verslun, Hagkaup og fleiri sérverslununum)
 • 1/2 tsk vanillusykur
Eggjahvítur og sykur sett í hrærivélaskálina. Skálin er sett yfir vatnsbað, þ.e. sett ofan í pott með sjóðandi vatni. Blandan er hituð og hrært í stöðugt á meðan með þeytara. Þegar sykurinn er uppleystur og blandan farin að hitna (komin í 65 gráður ef notaður er mælir) er skálin sett á hrærivélina og þeytt þar til blandan er stífþeytt, glansandi og orðin köld (ég þeytti í ca. 10 mínútur). Þá er þeytaranum skipt út fyrir hrærarann. Smjörinu (verður að vera við góðan stofuhita) er bætt út í og hrært á lægstu stillingunni. Á meðan smjörið er að blandast við marengsinn getur litið út fyrir að hann skilji sig en óttist ekki, þetta blandast allt vel saman að lokum! Þegar blandan nær um það bil sömu áferð og majónes má auka hraðan, stilla á millihraða og hræra í smástund til viðbótar. Því næst er slökkt á hrærivélinni og dulce de leche sósunni, saltinu og vanillusykrinum er bætt út í og síðan hrært á lægsta hraða, hækka svo smá saman í millihraða. Nauðsynlegt er að smakka svo til kremið, ég til dæmis bætti við dulce de leche sósu.
Krem

Súkkulaðikrem:

 • 45 g kakó
 • 90 ml sjóðandi vatn
 • 340 g smjör við stofuhita
 • 65 g flórsykur
 • 450 g suðusúkkulaði

Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og leyft að kólna dálítið. Þá er kakó og sjóðandi vatni hrært saman með gaffli þar til blandan er slétt. Smjörið er hrært með flórsykrinum þar til blandan verður létt og ljós, í minnst 5 mínútur. Því næst er súkkulaðinu hrært saman við blönduna og í lokin er kakóblöndunni hrært út í kremið. Ef kremið er þunnt þá er gott að geyma það í kæli í smástund til að það þykkni.

IMG_0312

Tertan sett saman:
Einn kökubotn er lagður á kökudisk og góðu magni af marengskremi er smurt á botninn. Þetta er endurtekið með hina tvo botnana. Í lokin er restinni af kreminu smurt utan um kökuna alla. Þá er kakan sett í kæli í ca. 20 mínútur þar til kremið hefur stífnað dálítið. Því næst er súkkulaðikreminu smurt utan um kökuna og kakan sett í kæli í nokkra tíma (best yfir nóttu) til að brjóta sig. Gott er að taka kökuna út allavega einum tíma áður en hún er
borin fram.
IMG_0294
Súkkulaðiterta með saltri karamellu
IMG_0293

76 hugrenningar um “Súkkulaðiterta með söltu karamellukremi og afmæli Eldhússagna!

 1. Til hamingju með árs afmælið 🙂 Er búin að fylgjast reglulega með þér síðan síðasta sumar þegar ég uppgötvaði skemmtilega matarbloggið þitt. Hef prófað margar góðar uppskriftir og þónokkrar eru komnar í reglubundna eldun 🙂 Hlakka til að prufa fleiri uppskriftir á komandi árum !

  Kristín Vald
  p.s. Í vinnunni minni og saumaklúbbum er reglulega talað um bloggið þitt og uppskriftirnar þínar 🙂

 2. Til hamingju með 1 árs afmælið 🙂 Ég fylgist spennt með á hverjum degi. Vona að þú haldir ótrauð áfram!

 3. Til hamingju með þetta flotta blogg sem kom mér til að elda og baka. Hver í fjölskyldunni hefði trúað að ég færi að gera laxarétti, kjúklingarétti og hinar og þessar kökurnar líkt og gerðist eftir að þetta blogg varð til! Ég hef heldur aldrei stúderað hillur verslana betur en síðasta árið til að finna eitthvað sem á að vera í uppskrifti frá þér. Takk fyrir Dröfn.

  • Þetta er náttúrulega afrek hjá mér Inga mín, ég hlýt að fá einhverskona medalíu! 😉 En duglega þú að vera farin að elda og baka eins og vindurinn – stórt like á það, klapp á bakið og koss á kinn! 🙂

 4. Til hamingju ég hef fylgst með blogginu næstum frá byrjun og bent öllum mínum skemmtilegu vinkonum á ..Takk fyrir mig…

  • Kærar þakkir Brynja – ég sendi kveðju til þín og allra skemmtilegu vinkvenna þinna! 🙂

 5. Til hamingju með pabba þinn og þetta frábæra blogg Dröfn, vona að þú haldir áfram sem lengst!!! 🙂

 6. Til hamingju með áfangann! Megir þú halda ótrauð áfram 🙂 Bloggið þitt er frábært 🙂

 7. Til hamingju ! Fer reglulega hér inn og hef prófað margt og allt alveg æðislegt. En ein spurning varðandi þessa girnilegu afmælisköku. Þarf að vera svona mikill sykur 420 gr ?

  • Takk fyrir kveðjuna Þóra Jóna! 🙂 Varðandi sykurinn þá hef ég prófað mig áfram með hann, upphaflega var hann enn meiri! 🙂 En hafa ber í huga að þetta er fyrir þrjá botna. Ég prófaði að fara niður í 370 g sykur og botnarnir urðu alveg fínir. Hins vegar missa þeir þá aðeins þennan „frauð“ eiginleika sem er svo góður. Það er að botnarnir verða svolítið eins og súkkulaðimús í áferð – það er svo gott! 🙂

   • Datt það einmitt í hug 🙂 Eins og sænska kladdkakan hún er bara ekki eins ef maður minnkar sykurinn. Bara borða eina sneið þá er þetta í góðu lagi 🙂

 8. Til hamingju með afmælið, finnst æðislegt að skoða allar þessar frábæru uppskriftir, fer stundum alveg í hringi hvað ég á að prófa næst, allt svo girnilegt 🙂

 9. Til hamingju,frábært blogg hjá þér og uppskriftirnar mikið notaðar á mínu heimili.

 10. Til hamingju með afmælið! Klárlega besta íslenska bloggið í dag. Virkilega vandað, flottar myndir, vel skrifaðir og skemmtilegir textar og frábærar uppskriftir. Bíð spennt eftir bók!

 11. Er mikið kaffibragð af kökunni? Er þá hægt að setja eitthvað annað í staðinn, eins og t.d. kakó? Mig langar svo rosalega að prófa þessa en finnst kaffibragð í kökum ekki alveg nógu gott 😦

  • Mikið skil ég þig vel – ég þoli nefnilega ekki kaffibragð af kökum og forðast nær alltaf að setja kaffi í kökur! 🙂 Ég drekk ekki kaffi og borða ekki einu sinni neitt með mokkabragði! Þú ættir því að geta treyst mér 100% þegar ég segi að það sé ekkert kaffibragð af þessari köku! 😀

 12. Til hamingju með eins árs afmælið þitt! Frábært blogg sem ég kíki reglulega inn á…og þessi dásemdarkaka verður pottþétt bökuð á næstu vikum 🙂

 13. Hamingjuóskir með ársafmælið….hagnýtar og girnilegar uppskriftir, bragðgóð útkoma, fallegir munir, fjölbreytni, greinagóðar upplýsingar, mikil elja og svo mætti lengi telja…stórkostlegt í einu orði. Væri gaman að fá afmælisforsíðuhaus…..jú hú….enn og aftur til hamingju.

 14. Innilega til hamingju með árs afmælið 🙂 Allt svo gott sem ég hef prófað svo er síðan sjálf algert listaverk með öllum þessum fallegu og litríku myndum. Kærar þakkir fyrir mig og fjölskylduna mína!

 15. Elsku Dröfn, innilega til lukku með fyrsta árið, hlakka til að fylgjast með næstu árum 🙂

 16. Elsku besta vinkonan mín til hamingju með 1 árs afmælið.. Þetta blogg er algjörlega frábært.. en verð þó að minnast á að samskiptin á milli okkar hafa minnkað á þessu ári sem liðið er þar sem að nú er óþarfi að hringja í tíma og ótíma til að fá uppskriftir af öllu því gómsæta góðgæti sem alltaf er á boðstólnum hjá þér… Hveiti…smjör…sykur..súkkulaði…fiskur…kjöt…grænmeti… Öll þessi hráefni ein og sér eru bara venjuleg.. en umbreitast í eitthvað unaðslegt sem bráðnar á tungunni og lifir lengi í minningunni þegar þú hefur handleikið þau af alúð… Margir eru góðir í mörgu en þú ert góð í lang flest öllu 🙂 Takk fyrir öll matar og kaffiboðin í fortíðinni og hér með legg ég fram ósk um að þessi afmæliskaka verði á boðstólnum í næsta afmæli…Kossar og knús ..ingunn pingunn 🙂

 17. halló !! það er svo girnilegt bara að horfa á þessa stóru súkklaðiköku, á klárlega eftir að prófa að baka eina slíka!! en heldur þú að það sé hægt að nota sweetened condensed milk í staðin fyrir dulce karmelluna???

  • Já, Kristín, það er ekkert mál að nota sweetened condunsed milk, ég gerði það einmitt í þetta sinn! Ég setti link í uppskriftina á hvernig hægt er að sjóða dós með sætri mjólk og búa þannig til úr henni í Dulce karamellu. Maður sem sagt velur bara hvort maður kaupir tilbúna dulce de leche eða gerir eigin. 🙂

 18. Til hamingju með afmælið elsku eiginkona, ég er svo þakklátur fyrir að fá að njóta og bara að njóta. Þetta eru hrein forréttindi að fá þessa dýrð á diskinn. Það er mikil hamingja sem kemur i gegnum magann.
  Þinn eiginmaður
  Elfar

 19. Þið eruð svo mikil dásemd! Ástarþakkir fyrir stórkostlegt blogg og meiriháttar skurðlækna-ráðstefnu:o)
  Kveðja, Laufey

 20. Svona í tilefi dagsins ákvað ég að skilja eftir skilaboð, les reglulega bloggið og mig dreyma um að gera einhvertímann svona flottan mat ! notast mikið við upplýsingarnar hér til að elda læri og meðlæti. takk fyrir flottar uppskriftir

 21. Til hamingju með afmælið, einstaklega falleg og skemmtileg síða hjá þér. Ætla að prófa að baka kökuna þína fyrir afmæli í næstu viku og langar að spyrja þig hvort það sé í lagi að frysta botnana.

 22. Þessi kaka er alveg meiriháttar flott og ekki síður góð, gerði hana í gær fyrir afmælisveislu og hún sló í gegn, kærar þakkir fyrir hana og svo margt, margt fleira í þínum uppskriftapakka:) Afmæliskveðjur…

 23. Sæl Döfn. Innilegar hamingjuóskir árs afmælið. Ég kíki sko hingað á hverjum degi og allt ofsalega gott sem ég hef prufað. Þakkir fyrir góðar uppskriftir.
  Varðandi þessa girnilegu köku, bakaðir þú botnana alla í einu og þá á blæstri eða einn í einu ?
  Afmæliskveðjur 🙂

  • Sæl Birna og takk fyrir hlý orð! 🙂 Já, ég bakaði alla botnana í einu á blæstri. Formin eru 20 cm og þar með rétt sluppu þau öll saman í ofninn. 🙂

 24. Sæl. Til hamingju með þennan áfanga. 🙂
  Ég ætla að prófa þessa köku um helgina og langar svo að skreyta hana svona fallega með lituðum fánum eins og þú gerðir. Er þetta skraut e-ð sem þú fékkst á Íslandi?

  • Takk fyrir Drífa! Ef mig minnir rétt þá fékk ég þessa fána fyrir um það bil ári í Tiger en þeir gætu vel verið til þar enn. 🙂

 25. Takk fyrir frábært matarblogg, allt sem ég hef prufað er súpergott en mig langar að prufa þessa girnilegu flottu afmælisköku en það fæst ekki dulce karamella þar sem ég bý. Ég keypti því St.Dalfour karamellusósu í staðinn. Ætli það sé ekki óhætt að prufa það?

  • Sæl Ylfa og takk fyrir kveðjuna. Ég veit ekki alveg hvernig sú karamellusósa er en þú ættir bara að prófa! Dulce de leche sósan er fremur þykk, þó passlega þykk þannig að hægt er að hræra hana saman við marengskremið. Eina sem mér dettur í hug sem gæti verið neikvætt er ef þessi karamellusósa er mjög þunn. Prófaðu bara að setja hana saman við kremið og smakkaðu þig áfram með magnið. En ef þú getur keypt niðursoðna sætmjólk þar sem þú býrð þá getur þú sjálf búið til dulce de leche sósuna. Gangi þér vel! 🙂

   • Ég gerði kremið með St.Dalfour karamellunni og það var mjög gott:). Ég smakkaði það svo til með 1 tsk af Torani karamellusýrópi og er bara nokkuð sátt 🙂 Kaupi svo Dulce næst þegar ég á leið í bæinn ef ég geri kökuna aftur seinna. Hún er svo flott á veisluborðið 🙂

 26. Var með afmæli á sunnudaginn og gerði þessa svakalegu köku, doldið tímafrek en alveg þess virði algjört æði 😉 ég gerði einnig kirsuberjatertuna, brownie-kökuna með hindberjarjómanum og súkkulaði og bananakökuna. Allar sssssvvvvvooooo góðar og allir í skýjunum yfir þessum kökum, takk takk takk;).
  Hef prófað nokkrar kökur frá þér og þær hafa alltaf sleigjið í gegn 🙂

 27. Kærar þakkir fyrir dásamlega síðu. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér.

  Mig langar mikið að prófa að baka þessa girnilegu tertu fyrir fyrsta afmæli dóttur minnar en er í vandræðum með karamellusósuna. Ég fæ hana hvergi. Samkvæmt starfsmanni hjá Hagkaup má ekki lengur flytja hana inn út af magninu af mjólk sem er í henni. Veit ekki hvort þetta er rétt. Ég ætlaði að prófa að sjóða sjálf condensed milk en Kostur á hana ekki til. Geturðu bent mér á eitthvað sem ég get notað í staðinn.

  • Takk fyrir góða kveðju Hrönn! 🙂 Ég hef einmitt tekið eftir því að það er orðið erfitt að fá bæði sætmjólk og tilbúna Dulce de leche. Ég þori ekki alveg að fara með hvað hægt sé að nota í staðinn. Það eru þó til allskonar tilbúnar karamellusósur sem mögulega væri hægt að nota. Hér ofar í athugasemdum var einhver sem prófaði til dæmis St.Dalfour karamellusósuna. En svo langar mig líka að benda þér á kirsuberjatertuna. Botnarnir eru eins og í þessari köku hér en á hana er notað dásamlega gott kirsuberjakrem, þessi er í miklu uppáhaldi hjá mér. https://eldhussogur.com/2012/07/02/dasamleg-kirsuberjaterta/

 28. Bakvísun: Afmæliskakan hans Martins | Tvíbura gourmet

 29. Fyrir þá sem finna ekki niðursoðna mjólk með auðveldum hætti, þá fann ég þessar tvær aðferðir við að gera dulce de leche án niðursoðnu mjólkurinnar, http://www.foodnetwork.com/recipes/alton-brown/dulce-de-leche-recipe.html og http://smittenkitchen.com/blog/2014/01/homemade-dulce-de-leche/ Tek það fram að ég á eftir að prófa en geri fastlega ráð fyrir að komandi fimmtudagskvöld fari í þessa tilraunastarfsemi 🙂

  • Ég prófaði uppskriftina frá SmittenKitchen og hún heppnaðist mjög vel! Ekki flókin, bara örlítið tímafrek 🙂 Mæli með henni.

 30. Hæ hæ 🙂

  Mig langar að prufa þessa við tækifæri en er með smá spurningu: Hvernig er að sleppa súkkulaðikreminu og hafa bara karamellukremið? Er möst að hafa súkkulaðikremið?

  Kveðja,
  Eyrún

  • Ég hef svo sem ekki prófað það en ég held að það sé alls ekkert nauðsynlegt að hafa líka súkkulaðikremið. Kannski einna helst spurning um hvernig áferð karamellukremið hefur upp á útltit kökunnar að gera, ég man ekki alveg hvernig kakan leit út áður en ég setti súkkulaðikremið á.
   Endilega láttu vita hvernig það kemur út ef þú prófar! 🙂
   Eitt enn, það virðist vera erfitt að fá Dulce de leche kremið, eða sætmjólkina til að búa hana til, hér á landi nú um mundir. Mestar líkurnar á að fá hana í Kolaportinu. Hins vegar er til sölt karamellusósa frá Stonewall kitchen (t.d. til í Þinni Verslun, Hagkaup og á fleiri stöðum held ég) sem væri hægt að nota í staðinn. En þar sem sú sósa er sölt þá myndi ég jafnvel sleppa maldon saltinu – allavega prófa mig áfram með það.

   • Mér finnst ég endilega hafa rekist á Dulce de leche kremið í Kosti um daginn, ætla að kíkja þangað ef ég legg í þetta 🙂
    Takk fyrir ábendinguna, ég læt vita hvernig fer með prufuna 😉

 31. Bakvísun: “Kladdkaka” með appelsínukaramellu Pipp og Rice krispies | Eldhússögur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.