Blómkáls- og brokkolígratín


Í dag kom út nýtt Séð og heyrt blað sem var með umfjöllun um áhugaverð íslensk blogg. Það var gaman að sjá að Eldhússögur voru með í þessum hópi og það á sömu blaðsíðu og meistarinn sjálfur, mér finnst ég nú tæplega verðug þess! 🙂

image

Það hefur gripið um sig mikið æði hér á landi sem snýst um lágkolvetna mataræði eða LKL-mataræði. Þetta mataræði hefur lengi verið vinsælt í Svíþjóð og þar í landi eru til eru afar mörg matarblogg sem leggja áherslu á slíkar uppskriftir. Þessi réttur sem ég gef uppskrift af í dag smellpassar inn í LKL. Ég notaði kjöt sem ég keypti hjá Mýranauti. Ég hafði nýtt mér þá þjónustu sem þau bjóða upp á, að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni. Við grilluðum snitselið og með því hafði ég blómkáls- og brokkolígratín og fetaosta-jógúrtsósu. Rosalega gott! Ég segi eins og Fríða vinkona, ég er farin að nota þessa dásamlegu sósu með öllu! 🙂 Gratínið var ákaflega gott og ég mun klárlega búa það til aftur sem fyrst.

IMG_9299

Ég fór í gegnum uppskriftirnar mínar hérna á blogginu og merkti þær sem henta lágkolvetna mataræðinu. Þær eru nú að finna undir flokknum „LKL uppskriftir“. Flokkana er hægt að finna í rúllulistanum hér hægrameginn á síðunni. Það eru mögulega einhver hráefni í þessum uppskriftum sem er á bannlista fyrir LKL en ef ég hef merkt þær LKL, þá met ég sem svo að auðvelt sé að aðlaga viðkomandi uppskriftir að LKL með því að sleppa einstaka hráefni eða skipta því út fyrir annað. Ég er ekki sjálf á þessu matarræði (surprice! 😉 ) og ekki með fullkomna þekkingu á því, þó hafi lesið mér aðeins til þegar ég fór í gegnum uppskriftirnar, þið látið mig bara vita ef ykkur finnst einhver uppskrift ranglega merkt sem LKL!

En hér kemur uppskriftin af blómkáls- og brokkolígratíninu góða. Það væri líka hægt að setja út í það skinku eða beikon og þá er komin heil máltíð!

IMG_9308

Uppskrift:

  • 1 blómkálshöfuð
  • 1 brokkolíhöfuð
  • 2 egg
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt eða pressað
  • 1/2 – 1 rauður chili, fræhreinasaður og saxaður smátt
  • salt & pipar

IMG_9297

Ofn hitaður í 225 gráður, undir- og yfirhita. Blómkálið og brokkolíið eru rifin eða skorin niður í passlega stór blóm. Vatn sett í stóran pott og það léttsaltað, suðan látin koma upp. Blómkálið og brokkolíið er soðið í örfáar mínútur, þá má ekki verða mjúkt. Því næst er vatninu helt frá og grænmetið sett í eldfast mót. Egg, rjómi, 1 dl af rifna ostinum, hvílaukurinn, salt, pipar og chili hrært saman og hellt yfir grænmetið. Restinni af rifna ostinum dreift yfir. Bakað í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur.

IMG_9320

Fetaost- og jógúrtósa:
  • 2 dl grísk jógúrt
  • 100 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu)
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • grófmalaður pipar

Öllu blandað saman með gaffli. Fyrir þá sem vilja sósu án kekkja er hægt að keyra jógúrtina og fetaostinn saman í matvinnsluvél í stutta stund áður en restinni af hráefnunum er bætt út í. Gott er að geyma sósuna í ísskáp í stutta stund áður en hún er borin fram.

23 hugrenningar um “Blómkáls- og brokkolígratín

  1. Ég skoða bloggið þitt oft, finnst þetta alveg frábært hjá þér. Er búin að útbúa réttu úr mörgum uppskriftum allt mjög gott. Segi svo öllum sem vilja heyra hvaðan uppskriftin er.

  2. Ég átti nú frekar von á að sjá eiginmanninn í Séð og heyrt með borða og kórónu. Kemur nú samt ekki á óvart að þú skreytir þeirra síður.

  3. Til hamingju Dröfn þú átt þetta svo sannalega skilið. Hvert sem maður fer þá eru allir að tala um bloggið þitt. Ég er ákveðin í að prófa bæði blómkáls og brokkolígratengið og jógúrtsósuna strax á morgun
    og það smellpassar í LCHF mataræðið.

  4. Ég bjó þennan rétt til í gær.. átti nautafillé í frystinum og fannst tilvalið að prófa þetta meðlæti með. Það stóðst auðvitað allar væntingar. Ofsalega gott.. eitt verð ég þó að nefna. Ég hef aldrei gert svona sósu áður með fetaostinum fannst það brilliant hugmynd. Ég geri þó oft svona kaldar sósur, úr sýrðum rjóma eða jógúrt og set bara hvítlauk og smá salt og pipar og stundum smá dijon sinnep. Það sem ég áttaði mig þó ekki á er að auðvitað er osturinn ofsalega saltur þannig að eftir að ég hafði saltað eins og ég geri vanalega (sem er þó ekkert gríðarlegt) varð sósan allt of sölt. Ég reddaði því með því að bæta bara þeim mun meiri jógúrt út í þannig að hún varð fín (bara mikill afgangur sem verður nýttur með kjúklingnum í kvöld ;)). Fannst ágætt að benda á þetta ef fólk er ekki vant að nota svona kubba fetaost. 🙂

    • Þetta er góð ábending Anna Sigga, takk! 🙂 Ég gerði einmitt þessa sósu í gær og þá sleppti ég alveg saltinu enda þarf þess varla. Ég laga þetta í uppskriftinni.

  5. Sæl mín kæra,
    Nú er ég að undirbúa svona lkl viku og ætlaði að flétta upp öllum lkl uppskriftunum þínum í borðanum hægra megin. Það var bara ein uppskrift í þeim flokki, getur það passað? Ef ég vissi hvað lkl væri þá myndi ég að sjálfsögðu renna í gegnum allar uppskriftinar þínar (kann þær reyndar flestar utan af). En ég hef ekki hugmynd um um hvað lkl snýst um, fannst þetta bara hljóma mjókkandi og langar að prófa:)

    • Sæl kæra Mandý mín! 🙂
      Núna er ég búin að laga þetta, það eiga að sjást 27 uppskriftir (talan stendur í sviga fyrir aftan flokkinn) í LKL uppskriftaflokknum. Vonandi sérðu þetta líka í Ameríkunni líka! 🙂 Þetta er víst voða mjókkandi, ég hef samt ekki reynsluna, ég er nefnilega á hvítt sykur/hvítt hveiti-kúrnum! Kúr sem á eftir á slá í gegn, ég er bara á undan minni samtíð! 🙂

  6. Bakvísun: Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL | Eldhússögur

  7. Hæ hæ. Við prófuðum blómkáls- og brokkólígratín sem kvöldmat í kvöld. Ég bætti við afganginum af lambalærinu síðan í gær, smá afgang af kartöflum og grænum baunum og þetta var alveg hrikalega góður og saðsamur réttur! En auðvitað ekki LKL eftir að kartöflunum var bætt við 🙂 . Þessi réttur verður hafður aftur hér á bæ.
    Kærar þakkir, hlakka til að prófa fleiri rétti hjá þér.
    Kveðja, Hrönn H.

  8. Rosalega gott meðlæti, hafði þetta með lambalærinu í gær og allir mjög ánægðir með þetta 🙂

  9. Mikið ofboðslega er þetta góður réttur, ég tala nú ekki um þegar fæst alveg nýtt íslenskt kál. Takk fyrir mig.

Skildu eftir svar við Eldhússögur Hætta við svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.