Í gær buðum við foreldrum mínum í hægeldað lambalæri. Við fórum í barnaafmæli seinnipartinn og komum ekki heim fyrr en rétt fyrir kvöldmat. En þegar maður er með svona læri og meðlæti í ofninum sem sér um sig sjálft þá er lítið mál að bjóða í mat þó lítill tími sé til eldamennsku. Ég bakaði köku í eftirrétt sem var algjört hnossgæti. Í raun er þetta sænsk „kladdkaka“ með hnetu- og súkkulaðikremi. Sænsku klessukökurnar eru ákaflega góðar, til dæmis er þessi sænska klessukaka ein sú vinsælasta á blogginu mínu. Öllum fannst okkur Snickerskakan jafngóð þeirri köku og sumum fannst hún meira að segja enn betri! Eins og með margar kökur þá var hún enn betri daginn eftir. Í gærkvöldi náði ég ekki að kæla hana alveg í tvo tíma með kreminu á þannig að kremið var enn mjúkt. En núna var ég að smakka þessa sneið sem myndin er af hér að neðan, kremið var þá orðið stökkt og kakan búin að brjóta sig …. namm, þvílíkt sælgæti! Eitt er allavega víst að það verður ekki hafin megrun hér á bæ á þessum mánudegi! 🙂 Þessa köku þurfa allir sælkerar að prófa!
Uppskrift:
- 4 egg
- 4,5 dl sykur
- 2 tsk vanillusykur
- 8 msk kakó
- 3 dl hveiti
- 200 g smjör, brætt
- 100 g Pipp súkkulaði með karamellu (má sleppa)
Krem:
- 2 dl salthnetur
- 200 g rjómasúkkulaði
Ofninn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita, og ca 26 cm smelluform smurt að innan. Smjörið brætt og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt saman. Því næst er vanillusykri, kakói, bræddu smjöri og hveiti hrært út í. Deiginu er hellt í bökunarformið og pippmolunum þrýst ofan í deigið hér og þar. Því næst er kakan bökuð í miðjum ofni við 175 gráður (undir- og yfirhita) í 30 til 40 mínútur, kakan á að vera blaut í miðjunni.
(Í mínum ofni dugði 30 mínútna bökunartími en hjá sumum hefur kakan verið of blaut eftir 30 mínútur – það þarf að finna út rétta tímann fyrir hvern og einn ofn og fylgjast vel með kökunni. Athugið að hitinn er gefinn upp fyrir undir- og yfirhita, sami hiti á blæstri er í raun hærri hiti.)
Á meðan er rjómasúkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og hnetunum bætt út í þegar súkkulaðið hefur bráðnað. Þegar kakan er komin úr ofninum og hefur kólnað dálítið er kreminu hellt yfir kökuna og hún kæld í minnst tvo tíma áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.




Ekkert smá girnileg. 🙂
Ég er búin að kíkja hérna inn á þessa köku nokkrum sinnum á dag síðan hún kom inn og láta mig dreyma um að hún birtist jafnvel á eldhúsborðinu ef ég kíki nógu oft.. 😉 Mun á efa skella í þessa fljótlega!
Ég væri alveg til að þessi myndi birtast aftur í ísskápnum hjá mér! 🙂 Mæli með að þú skellir í eina, þetta er einföld og fljótleg kaka!
Bakaði þessa í kvöld og náði að smakka smá mola af henni og VÁ hvað hún er góð. Lofaði dótturinni að við myndum baka aðra fyrir helgina þar sem þessi sem ég var að baka verður gefin í afmælisgjöf á morgun.
Bara takk kærlega fyrir þessa skemmtilegu og vönduðu síðu, ég er bara í því að prófa nýjar uppskriftir.
En hvað þetta var gaman að heyra Þóra! 🙂 Takk fyrir góða kveðju!
Frábær síða hjá þér og yndislega girnilegar uppskriftir:) Skoða hérna á hverjum deigi og hlakka alltaf til þegar það koma nýjar uppskriftir inn:) rosalega flott hjá þér.)
Takk fyrir hrósið Steinunn Rut, það gleður mig mikið! 🙂
Sá þessa, og súkkulaði fíkillinn ég varð að prófa 🙂 gladdi vinnufélagana með henni og allir sammála um að hún væri æðisleg takk fyrir flotta síðu
Frábært Perla! Takk fyrir að skilja eftir komment! 🙂
Mjög góð sælgætiskaka.
Gaman að heyra Sveinn! 🙂
Smakkaði þessa köku um helgina og úfff….. ég á varla til orð enn 🙂 En rjómi er alger nauðsyn með. Á eftir að baka þessa köku sjálf og örugglega oftar en einu sinni. Takk, takk!
Já, þetta er massív kaka sem þarf einmitt nauðsynlega rjóma! 🙂 Takk fyrir kveðjuna! 🙂
Sæl aftur. Ætla að prófa þessa köku og baka fyrir afmælið mitt sem er á föstudaginn, virðist vera einföld og fljótleg fyrir önnum kafna kennara 😉 bestu kveðjur
Gaman að heyra það Ingibjörg! Jú, þetta er einföld og fljótleg kaka fyrir upptekna kennara sem og aðra! 🙂
Sæl.
Síðan þín er hreint út sagt dásamleg og ég ætla að koma fjölskyldunni á óvart á laugardagskvöldið. Þá hittumst við stórfjölskyldan í sumarbústað og gæðum okkur á lambalæri ég ætla svo að toppa kvöldið með þessari girnilegu súkkulaðiköku og verða vinsælust. Læt vita hvernig bragðast…ef ég verð ekki búin með hana áður:)
Takk fyrir mig.
Takk fyrir hrósið, það gleður! 🙂 Ég hlakka til að vita hvernig fjölskyldunni líkar kakan!
Ég er núna vinsælust í minni fjölskyldu þar sem kakan náttúrulega sló í gegn….takk kærlega fyrir flottar uppskriftir
Búin að baka þessa og er bara að bíða eftir kvöldinu til að fá að smakka með vinum ^.^ … Er svo girnileg að hálfa væri hellingur!
Frábært! 🙂 Vona að kakan hafi staðist væntingar!
Bakaði þessa í gær á 175 blástur og fannst hún of blaut í miðjunni en of bökuð í jaðrinum. Ertu með stillt á undir og yfir eða á blástur? En ótrúlega flott síða hjá þér, takk fyrir mig:) Kveðja
Hulda.
Sæl Hulda Björk. Ég gef upp hita miðað við undir og yfirhita. Þegar notaður er blástur þyrfti að lækka niður í 160 gráður. Ég skrifa venjulega við uppskriftir sérstaklega ef ég nota blástur. Það er samt líklega best að ég skrifi líka þegar ég nota undir- og yfirhita til að forðast allan misskilning! 🙂
Bakaði kökuna um helgina og hún er náttúrlega frábær, sló í gegn í kaffinu í gær 🙂 Takk fyrir frábæra uppskrift.
Takk sömuleiðis fyrir góða kveðju Ingibjörg! 🙂
Kærastinn bakaði þessa fyrir nafnakaffi hjá dóttur okkar… Hún var svooo góð og sem betur fór var smá afgangur svo ég gat fengið mér mola 2 daga á eftir. Algjört nammi!
Gaman að heyra Jóna Svandís og til hamingju með nafna-athöfnina! 🙂
þessi kaka er dásemdin ein !!! Og síðan alveg frábær. Takk fyrir mig 🙂
Kærar þakkir Sólveig! 🙂
Bakvísun: Klessukaka með Daimrjóma | Eldhússögur
Bakvísun: Sukk – en ekkert svínarí | Ullarsokkurinn
Gerði þessa um helgina – alveg sjúklega góð! 🙂 Takk fyrir frábæra síðu 🙂
Þakka þér fyrir Hildur! Það gleður mig að fá kveðju! 🙂
Bakvísun: Sætkartöflusúpa með kjúklingi | Eldhússögur
umm þessi er æðisleg 🙂
Bakvísun: Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti | Eldhússögur
Bakvísun: Salat með sesamkjúklingi | Eldhússögur
Hvaða rjómasúkkulaði er best í kremið? Er ekki hægt að bræða snikkers og nota sem krem eða kemur það kannski ekki vel út?
Ég nota bara þetta hefðbundna hreina mjólkursúkkulaði frá Nóa og Siríus. Mögulega getur þú notað Snickers, þú þyrftir að bræða það við mjög vægan hita og væntanlega bæta við örlitlum rjóma til að þynna það, samt ekki of mikið. Þetta eru samt bara pælingar hjá mér, ég þori ekki að ábyrgjast útkomuna! 🙂
Bakvísun: Súkkulaðikaka með “fudge” kremi | Eldhússögur
Æðislega girnilegt! En hvað gerir maður ef maður á ofn sem er ekki með svona undir-yfir hita stillingu?
Sæl Lilja! Ef þú ert bara með blástur á ofninum þá myndi ég lækka hitastigið niður í 170 gráður. Fylgstu svo bara vel með henni, oft verða kökur fyrr bakaðar með blæstri.
Sæl.
Bakaði þessa dásamlegu köku fyrir afmæli og hún féll svo sannarlega í kramið hjá veislugestum.
Takk fyrir frábæra síðu!
Takk fyrir frábæra kveðju Sigurlaug! 🙂
get ekki beðið eftir að prufa þessa 😉 – veit að hún eftir að slá í gegn 😉 þetta er mjög flott síða hjá þér… get ekki beðið eftir að fara prufa hinar ýmsu uppsriftir…
takk fyrir okkur
Takk fyrir hrósið Guðrún Dís! Ég held að þú verðir ekki fyrir vonbrigðum með Snickerskökuna! 🙂
Er ekki í lagi að frysta þessa köku og þá án þess að setja kremið á
Það ætti að vera í góðu lagi, líka að frysta hana með kreminu.
Takk fyrir. Tek það fram að ég er búin að prófa þessa köku tvisvar, aldrei verið neinn afgangur til að prófa hvort óhætt er að frysta hana. Hún er ofboðslega góð s.o. ýmislegt fleira sem ég hef prófað af síðunni þinni 🙂
Bakvísun: UPPSKRIFTIR
Sæl Drofn,
Takk fyrir að deila girnilegum uppskriftum með okkur! Mig grunar að eg yrði fastur gestur her næst komandi dögum 😉 takk fyrir síðuna !
I dag prófaði þessa snickers kokkuna- bakaði hana i 35 mín. Og var aðeins oflengi….þvi hún var allt of þurr að mínum mati…eg setti reyndar ekki auka súkkulaði bita en það hélt átti ekki skipta málið. Minnkaði reyndar aðeins sykur . Varðandi sósu – átti ekki setja aðeins mjólk út i ?! -allavega eg gerði það, þvi súkkulaði og hnetur var massi sem þurfti að smyrja þá a :)))
Allavega Mennirnir heima voru alsæl glaðir að fá snickers kokku i eftirmat og eg stefni að baka hana fljotlega aftur 😉
Takk fyrir okkur!
Sæl og takk fyrir góða kveðju! 🙂 Það þarf greinilega að finna út bökunartímann fyrir hvern og einn ofn. Einhverjir skrifuðu hér að 30 mínútur hefðu verið alltof lítið hjá þeim þannig að þetta er greinilega mjög mismunandi eftir ofnum. Ég notaði ekki mjólk í súkkulaðið og það var alveg nógu þunnt hjá mér til að ég gæti hellt því. Ég held að ef maður bræðir súkkulaðið hægt yfir vatnsbaði þá ætti það að vera nógu þunnt til að geta hellt því. En auðvitað er lítið mál að bæta smá mjólk eða rjóma í súkkulaðisósuna! 🙂
Ótrúlega góð kaka og allir ánægðir með hana en rjómasúkkulaðið varð svo hart ofan á, doldið erfitt að skera hana. Keypti bara frá Nóa Siríus ,var samt lengi á borði áður en hún var borðuð?
Ég nota líka rjómasúkkulaði frá Nóa og Siríus. Eina ráð mitt er að hafa kökuna lengur við stofuhita áður en hún er borin fram! 🙂
Hrikalega góð kaka bakaði hana fyrir 17 júní 🙂
Takk kærlega fyrir uppskriftina 😀
Það var lítið Bugga! Gaman að fá kveðju, kærar þakkir! 🙂
Bakaði þessa köku síðustu helgi og hún var bara einn draumur með þeyttum rjóma.
Bakvísun: Snickerskaka | Uppskriftasafn Hönnu Lilju
Sæl Dröfn. Þar sem ég hef notað uppskriftir frá þér í örugglega tugatali þá er nú löngu orðið tímabært að ég skilji eftir comment hér á síðunni. Mig langar að þakka þér fyrir einstaklega gott matarblogg. Ég sé að þú leggur mikinn metnað í framsetningu og myndatöku og það er alltaf jafn þægilegt að notast við uppskriftir frá þér. Það virðist vera sama hvað ég nota héðan, það slær alltaf í gegn. Nú er ég í annað skiptið með snickersköku í ofninum og veit að ég verð ekki svikinn.
Takk fyrir mig!
Mikið er gaman að fá svona góða kveðju Heiða Rut, hún gleður mig mikið! Kærar þakkir og vonandi heldur þú áfram að finna góðar uppskriftir hér á síðunni! 🙂