Smjördeigskörfur með ís-rjóma, banönum, Daim og Nutella.


IMG_4738

Ég elska góða eftirrétti sem eru fljótgerðir. Ég er með nokkrar uppskriftir að eftirréttum sem ég nota oftar en aðrar þegar ég hef lítinn tíma til að undirbúa matarboð. Núna bætist þessi uppskrift klárlega í þann hóp, hrikalega góður eftirréttur sem tekur skotstund að gera. Ég er vandræðalega hrifin af smjördegi og kaupi það yfirleitt tilbúið frosið. Það tekur bara örfáar mínútur að þiðna eftir að plöturnar eru teknar í sundur og þá er hægt að búa til allskonar dásemdir úr því.

IMG_4695

Á myndunum sést nýjasta viðbótin í eldhúsið mitt. Þetta eru dásemdar vörur frá Willamia fyrir eldhúsið, Knit Factory. Það er hægt að fá dúka, tuskur, eldhúshandklæði, svuntur og margt fleira ofboðslega flott í þessari línu.

IMG_4750

Hér að ofan sést t.d. dásamlegi löberinn sem prýðir eldhúsborðið mitt. 🙂

En aftur að uppskriftinni. Hráefnin eru fá en smellpassa svo vel saman, bananar, rjómi, Daim og Nutella getur aldrei klikkað! 🙂 Ég notaði fremur stór muffinsform en það er auðvelt að aðlaga stærðina bara eftir þeim formum sem maður á heima.

IMG_4699

Uppskrift (6 stórar smjördeigskörfur)

  • 3 plötur smjördeig
  • örlítið hveiti
  • 2.5 dl rjómi
  • 1-2 dl vanilluís, látinn bráðna dálítið (má sleppa)
  • 2-3 bananar, skornir í sneiðar
  • 4 lítil Daim, söxuð smátt
  • ca. 1 dl Nutella

IMG_4703

Ofn hitaður í 200 gráður. Smjördeigsplötunum þremur er skipt í tvennt og þær allar flattar vel út með kökukefli á hveitistráðu borði. Stór muffinsform klædd að innan með útflöttu smjördegi og bakað í um það bil 12 mínútur við 200 gráður eða þar til smjördegið er orðið gullinbrúnt. Á meðan er rjóminn þeyttur. Það er rosalega gott að bæta við bráðnuðum vanilluís út í rjómann þegar hann er næstum fullþeyttur en þvi má sleppa. Því næst er banönum blandað saman við þeytta rjómann og helmingnum af saxaða Daim súkkulaðinu. Þegar smjördegið er tilbúið er það látið kólna (kólnar mjög fljótt), hver karfa síðan fyllt með banana/Daim-rjóma og restinni af Daim súkkulaðinu er stráð yfir. Loks er Nutella hitað í örbylgjuofni í ca. 30 sekúndur eða þar til auðveldlega er hægt að dreifa því yfir smjördeigskörfurnar.

IMG_4716

IMG_4742IMG_4723IMG_4708IMG_4769

6 hugrenningar um “Smjördeigskörfur með ís-rjóma, banönum, Daim og Nutella.

  1. Þetta er aldeilis girnileg uppskrift og það er næsta víst að þessi eftirréttur á eftir að vera á borðum hér. Takk kærlega 🙂

    Bara svo þú vitir er grænn litur í uppáhaldi hjá mér

  2. Þennan verð ég að prófa, girnilegur og flottur. Grænn er minn uppáhaldslitur, ef ég verð sú heppna.

  3. Þessi er pottþétt góður á sko eftir að prófa. Snilldar uppskriftir hér alltaf.

  4. Líst vel á þennan rétt og finnst báðir litirnir flottir.

  5. Mikið er þetta girnilegur eftirréttur! Elska þegar þeir eru auðveldir en samt bragðgóðir! Hlakka til að prófa þessa uppskrift! 🙂 Grátt væri annars mitt val! 😉

  6. Sæl, alltaf jafn girnilegt hjá þér. Mig langaði að vita hvort þú ættir í fórum þínum uppskrift að hinni frægu Mississippi Mud Pie, sem væri ekki alltof flókin.

Skildu eftir svar við Rún Rafnsdóttir Hætta við svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.