Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu


þorskur

Þessi fiskréttur er einn sá besti sem við höfum bragðað, svo einfalt er það!  Bragðgóður fiskurinn með ljúffengu pistasíusalsanu, sætu kartöflumúsinni með mildu chili og límónubragði og svo sósunni sem er hnossgæti, gerð úr meðal annars smjöri og sojasósu, vá hvað þetta kom á óvart! Þetta var eins og að snæða fiskrétt á einhverjum frábærum veitingastað! Það hljómar núna eins og ég sé að mæra eldamennskuna hjá mér í bak og fyrir en það er uppskriftin sem er svona frábær, það getur hver sem er eldað þennan rétt! Enn og aftur undrast maður yfir því hvað hægt er að galdra fram dásamlega bragðgóða rétti með fremur fáum og einföldum hráefnum. Sósan var algjör snilld! Sem betur fer tvöfaldaði ég uppskriftina því sósan var hreinlega sleikt upp úr skálinni, sem og fiskurinn og kartöflumúsin. Næst ætla ég að prófa þessa sósu með laxi, það er örugglega líka meiriháttar gott. Með þessum rétti sauð ég nýtt og ferskt brokkolí. Ég sýð það afar stutt, það er ekki gott að borða mauksoðið brokkolí auk þess sem þá fara öll næringarefni úr því!

Sumum finnst erfitt að tímasetja matargerð og setja því kannski fyrir sig að það þarf að útbúa þrenns konar uppskriftir fyrir þennan rétt. En það er auðvelt. Best er að byrja á kartöflunum, afhýða þær, skera niður og byrja á að sjóða þær. Þegar þær eru komnar í pottinn er fiskurinn útbúinn og gerður tilbúinn fyrir ofninn. Eina sem er viðkvæmt fyrir biðinni er fiskurinn, maður vill bera hann á borð þegar hann er nýkominn úr ofninum. Þess vegna er best að setja hann í ofninn þegar kartöflurnar eru komnar vel á stað og jafnvel sósan líka. Kartöflumúsin er stöppuð, hrærð og bragðbætt í potti og þá þarf að skerpa á henni en það er hægt að gera hvenær sem er þannig að hún þolir vel að bíða.

Uppskrift f. 3

Sætkartöflumús
 • ca 5-600 gr sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita
 • 1-2 kartöflur, skrældar og skornar í bita
 • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
 • safi úr 1/2 límónu (lime)
 • ca 1 msk smjör
 • salt og pipar

Kartöflur og sætar kartöflur skrældar og skornar í svipað stóra bita. Þær eru svo settar í pott og vatn rétt látið fljóta yfir. Chili skorið í tvennt langsum, fræin hreinsuð úr og því svo bætt út í pottinn. Til að fá bragðsterkari kartöflumús er hægt að saxa chili smátt. Límónusafa bætt út í pottinn. Suðan látin koma upp og soðið í 15-20 mínútur eða þar til að kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Vatninu helt af og chili (ef það er í heilu) fjarlægt. Kartöflurnar stappaðar fínt með smjöri og bragðbættar með salti, pipar og jafnvel meiri límónusafa. Til að skerpa á hitanum á sætkartöflumúsinni er hún sett í pott og hituð upp við meðalhita, hrært í á meðan.

Þorskur með pistasíusalsa:
 • ca  600 gr þorskhnakkar eða þorskflök
 • salt og pipar
 • 3-4 msk pistasíuhnetur, saxaðar (má líka nota furuhnetur)
 • 3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
 • 1 msk olífuolía
 • ca 1 dl fersk steinselja, söxuð
 • 1/4 – 1/2 rautt chili, fræhreinsað og fínsaxað

Ofninn hitaður í 220 gráður. Þorskflökin skorin í bita og þeim raðað í smurt eldfast form. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pistsíuhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju, chili og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

 Sojasmjörsósa

 • 3 msk smjör
 • 1 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
 • 1 hvítlauksrif, saxað fínt
 • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
 • 2-3 msk sojasósa
 • 1 msk steinselja, söxuð smátt

Smjör brætt í potti og látið krauma við fremur vægan hita í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt. Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram. Njótið gjarnan með góðu hvítvínsglasi!

14031Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með franska hvítvíninu Arthur Metz Pinot Gris. Lýsing: Roðagult. Meðalfylling, hálfþurrt, mild sýra. Hýði, reykur.

130 hugrenningar um “Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu

 1. Þessi uppskrift er frábær og sojasmjörsósan æðisleg, ég elda þetta mikið á mínu heimili en tvöfalda sósuna því hún er svo vinsæl. Á eftir að prófa fleiri uppskriftir frá þér en síðan er mjög flott og margar girnilegar uppskriftir.
  Takk fyrir okkur, kveðja Kristína

 2. Einfaldlega langbesti fiskréttur sem ég hef fengið. Notaði saltaða þorskhnakka.

 3. Vá!!!! Þetta er ekkert smá gott! Notaði lax, það er geggjað:) Takk fyrir frábæra síðu:)

 4. Bakvísun: Hátíðarmatur og nýjung á Eldhússögum | Eldhússögur

 5. Bakvísun: Vinsælustu uppskriftirnar 2013 | Eldhússögur

 6. Við vorum með þennan rétt í gær og hann var frábær, án efa einn besti fiskréttur sem ég hef fengið 🙂

 7. Dásamlegur réttur Dröfn, prófaði hann áðan og mun bjóða uppá hann um helgina í boði. 🙂 kærar þakkir, Sigriður

  • En hvað það var yndislegt að heyra Sigríður – kærar þakkir fyrir að skrifa mér kveðju! 🙂

 8. Bakvísun: Ofnbakaður þorskur | Lífsstill Sólveigar

 9. komdu sæl.. Hvað get eg notað í staðin firir hnetur ?? Er með hnetu ofnæmi og er oft í þessum vandræðum að hnetur séu í uppskriftum og sleppi þeim bara en þá vantar einkvað í staðin ..Kveðja Auðbjörg

  • Sæl. Ertu með jarðhnetuofnæmi? Hnetur skiptast almennt í jarðhnetur (e. peanuts, svo sem salthnetur) annars vegar og trjáhnetur hins vegar (svo sem heslihnetur, valhnetur, pekanhnetur, möndlur). Hnetur eru með algengustu ofnæmisvökum í fæðu og er jarðhnetan þeirra þekktust. Yfirleitt beinist ofnæmið að einni tegund af hnetum. Ef þú ert með jarðhnetuofnæmi þá getur þú notað t.d. pekanhnetur.
   Svo eru furuhnetur í raun ekki hnetur, þrátt fyrir heitið. Þeir sem hafa hnetuofnæmi geta yfirleitt alltaf borðað furuhnetur og þær er líka hægt að nota í þessa uppskrift.

 10. Besti fiskréttur sem ég hef smakkað, takk fyrir þessa frábæru uppskrift 🙂

 11. Er södd og sæl eftir þessa dásemd sem og kampavínið með! Erum ákveðin í að elda þennan rétt fyrir matarklúbbinn okkar við fyrsta tækifæri, takk fyrir að deila honum með okkur;)

 12. Bakvísun: Rabarbarabaka með jarðaberjum og hvítu súkkulaði | Eldhússögur

 13. Er með matarboð í kvöld. Fiskur varð fyrir valinu og þá var ekki erfitt að velja uppskrift. Er búin að elda þetta áður og verður örugglega gert aftur og aftur. Geggjað góður.

 14. Guðdómlega gott, hentum smá sellerírót með kartöflunum og röspuðum smá parmesan yfir í lokin. Krakkarnir elskuðu matinn jafnt sem fullorðnir. Gerum þennan rétt aftur með enn fleirum. Jamm

 15. Dásamleg samsetning, hafði þetta í matarboði í gær, stráði kirsuberjatómötum úr eigin garði yfir fiskinn, mest fyrir augað, geri þennan rétt örugglega aftur.

 16. Þessi á heima á hátíðarborðinu, ofsalega fallegur og bragðgóður fiskréttur 😉
  -B

 17. Þessi réttur er algjört lostæti. Þvílík veisla! Takk fyrir góðan uppskriftavef.

 18. Bakvísun: Brie-bökuð ýsa með pistasíum | Eldhússögur

 19. Þetta var þvílíkt gómsæti, einfalt að matreiða og mjög þægilegar leiðbeiningar. ég ákvað að hafa hvítlauksbrauð Ínu með(namm) ég mátti bara til með að segja þúsund takk, með betri fisk sem ég hef borðað 🙂

 20. Klárlega uppáhalds fiskréttur fjölskyldunnar og sætkartöflumúsin er líka í uppáhaldi. Kærar þakkir enn og aftur fyrir að deila uppskriftunum þínum með okkur.

 21. Hann Ingvar minn á eftir að verða rosalega glaður þegar ég fer að elda svona flotta fiskrétti aftur! Þennan ætla ég að prófa í næstu viku! Hlakka þvílíkt til því allir lofsama hann þvílíkt….

 22. Þetta er besti fiskréttur sem ég hef smakkað! Er farin að gera hann vikulega og hann bregst ekki 🙂 Vil þakka þér kærlega fyrir að deila öllum þessu flottu uppskriftum hér á síðunni, ég er búin að vera fasta gestur í mörg ár 🙂

 23. Frábær fiskréttur sem ég hef oft gert. Í kvöld eldaði ég útgáfu af honum, átti ekki allt í pistasíu salsað þannig að ég gerði mangó-chilli-kókos salsa í staðin og útkoman var dásamleg. Fiskurinn, sósan og kartöflumúsin frábært kombó 🙂

 24. Dröfn ég vona að þú hafir tíma og svara mér sem fyrst. Ég verð með matarboð á föstudag eftir viku og langar svo að bjóða upp á þennan rétt. Hef lagað hann í nokkur skifti og þetta er alveg guðdómlega gott. Bý í Svíþjóð og þá er líka alltaf gaman að bjóða upp á fisk þegar gestir koma. Mín spurning er hvað þú heldur um að ég breyti þorskinum í saltfisk. Ég à fullt af saltfisk og svona eftir jólin er gott að nota það sem til er í frystinum. Kær kveðja og takk fyrir frábært matarblogg

 25. Bakvísun: Tillögur að páskamáltíðum | Eldhússögur

 26. Bakvísun: Þorskur – Site Title

 27. Virkilega gott, góð tilbreyting í fisk eldamennskuna hér. Minnti helst á fisk á fínum veitingastað 🙂

 28. Prófaði þessa uppskrift með létt söltuðum þorskhnökkum – mjög viðunandi – sleppti salti og minnkaði sojasósu skammtinn 👌

 29. Ég er svooo sammála þér með þessa uppskrift. Þessi smjörsósa er guðdómleg. Fékk svona svipað í Eldum Rétt pakka og gerði endurtekið f nokkrum misserum. Rakst nu á hana hér á síðunni þinni og bara varð að gera í dag. Óvenju góður miðvikudagsmatur til heiðurs þér og fyrrum forseta.

  Kram, I

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.