Hafraklattar


Þessir hafraklattar eru ofsalega góðir og ef maður einbeitir sér eingöngu að haframjölinu í uppskriftinni er jafnvel hægt að ímynda sér að þeir séu bráðhollir! Það er mikilvægt að baka klattana ekki of lengi. Ekki láta ykkur bregða þó þeir séu enn dúnmjúkir eftir baksturinn. Leyfið þeim að kólna og þá dökkna þeir aðeins og harðna en verða samt enn lungnamjúkir að innan. Jóhanna Inga beið spennt eftir að myndartökunni lyki (börnin eru farin að spyrja alltaf núna: ,,ertu búin að taka mynd, megum við borða?“ 😉 ) og hámaði svo í sig hafraklatta á mettíma!

Uppskrift:

  • 500 gr smjör (lint)
  • 100 gr sykur/hrásykur
  • 300 gr púðursykur
  • 4 tsk vanillusykur
  • 4 egg
  • 350 gr hveiti/spelt
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk kanill
  • 550 gr haframjöl
  • 100 gr. smátt skorið suðusúkkulaði (má auka, minnka eða sleppa)
  • 1 bolli rúsínur (má auka, minnka, sleppa)

Aðferð:

Smjör, sykur og púðursykur þeytt þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í einu og einu í senn ásamt vanillusykri. Þurrefnum bætt út í, hveiti, matarsóda, salti og kanil, og í lokin er haframjöli, rúsínum og súkkulaði bætt við.

Á þessu stigi er deigið mjög blautt. Búið til kúlur í höndunum, ca. á stærð við tómata/plómur, setjið á plötu og fletjið lítillega út. Ég næ um það bil 9 stykkjum á plötu. Athugið að klattarnir stækka í ofninum.

Bakað í miðjum ofni við 200° í  ca 8-10 mínútur. Mikilvægt að baka ekki klattana of lengi, þeir eiga rétt að vera ljósbrúnir. Úr þessari uppskrift fékk ég ca. 30 klatta.

44 hugrenningar um “Hafraklattar

  1. Ekkert smá góðir – en aðeins linir – hefði örugglega þurft að baka þá aðeins lengur en í 9 mínútur… Vona að þeir klárist sem fyrst – annars borða ég þá!

    • Já, nákvæmlega, maður vill eiginlega ekki eiga svona klatta heima hjá sér, of freistandi! 😉 Ég held að það skipti miklu máli að rúlla vel saman deiginu í kúlu (þótt það sé klístrað), setja svo á plötuna og klappa þeim aðeins þannig að þeir fletjist örlítið út. Ég bakaði mína í 8 mínútur og þeir voru alveg passlega bakaðir, mjúkir að innan en stökkir að utan (eftir að þeir kólna). Hins vegar prófaði ég eina plötu þar sem ég setti bara hrúgu af deginu með skeið á plötuna, þá urðu þeir allt of lausir í sér, svo skiptir stærðin líka máli.

  2. Ég gerði þessa í gær og þeir voru æðislegir! Fór svo með smakk til vinkvenna og fékk að heyra að svona ættu hafraklattar að vera! Þeir voru kannski heldur mjúkir í miðjunni en ég setti þá bara í ísskápinn og þá fann ég síður fyrir því! Ég hefði kannski átt að baka þá í 10.mín frekar en 8 en ég mun koma til með að prófa það næst! 😉

    Með kv. Drífa

    • Frábært að heyra! 🙂 Ég held að ég bæti við bökunartímann í uppskriftina, 8-10 mínútur. Bökunarofnar eru svo misjafnir, maður þarf að prófa sig áfram. Takk fyrir að skilja eftir skilaboð!

  3. Ætla að fara að prufa þessa uppskrift en mig langar að vita hvort þú hefur reynt að minnka sykurmagnið, þá sérstaklega púðursykurinn?

    • Sæl Guðrún. Ég hef ekki reynt það, vissulega er þetta mikið sykurmagn en þurrefnin á móti (haframjöl og hveiti/spelt) eru alveg tæplega kíló. En ég myndi alveg þora að minnka púðursykurinn dálítið, get auðvitað ekki lofað samt að útkoman klikki ekki! 🙂 Ef þú prófar að minnka sykurinn, láttu endilega vita hvernig gekk! 🙂

  4. Bakvísun: Kjúklingapasta í rjómaostasósu með beikoni | Eldhússögur

  5. Mmm var að smakka þessa hjá samstarfskonu minni og ætla að baka þá sjálf fyrir jólin!
    Frábær síða hjá þér 🙂

    • Sæl Anna Kristín

      Ég gef upp hita miðað við undir- og yfirhita. Ég reyni alltaf að taka það fram ef ég er að gefa upp hita miðað við blástur! Gangi þér vel með baksturinn! 🙂

  6. Þessir slógu algjörlega í gegn hjá fjölskyldunni um jólin. Nú verða þeir bakaðir aftur fyrir páska. Notaði bara góðan slatta af rúsínum. Takk fyrir frábærar uppskriftir 🙂

  7. Ég velti sykurmagninu líka fyrir mér eins og einhver hér að ofan,
    mín reynsla er sú að oftast megi minnka sykur um næstum helming.
    Ég þori kannski ekki að vera alveg svo djörf í fyrsta sinn, en ég mun minnka það eitthvað, klárlega.

  8. Nú er ég búin að prófa og ákvað að lifa bara á brúninni og minnkaði sykurinn um helming, bæði hrásykur og púðursykur og þeir eru sko alveg dísætir engu að síður. Rúsínur eru ekki vinsælar hér á bæ en ég notaði ca. 120-130 gr. af suðusúkkulaði og þeir eru svo sannarlega ljúffengir!
    Og ég notaði blástur, geri það reyndar næstum alltaf.

  9. þessir eru æði, er búin að gera þá nokkrum sinnum, og í uppáhaldi hjá okkur (sérstaklehga mér) er að frysta þá og taka svo eina og eina og borða hálf frosnar! Það er ógeðslega gott að dýfa þeim í morgunkaffið um helgar beint úr frystinum! verðið að prófa 😉

  10. Búin að prufa þessa….hrikalega góðir og geri þá eflaust aftur og aftur, og minnka sykurmagn og bæta við hnetum, rúsínum og öðrum berjum……

  11. Frábærar kökur, síðasta platan er í ofninum og hér eru allir sælir og glaðir með mjólk og hafraklatta, menntskælingur talar um að þær séu betri en klattarnir í möruneytinu í skólanum hans. Bakaði þæt í 8 mín og það henntar vel fyrir minn ofn.
    kærar þakkir fyrir þessa frábæru síðu 🙂 Alda

  12. Frábærir hafraklattar notaði spelt en er alveg sammála að minnka sykurmagnið. Ég hef notað frosin ber, berjablanda úr Kosti og það hefur smakkast vel.

  13. Bakvísun: Vinsælustu uppskriftirnar 2013 | Eldhússögur

  14. Var að baka þessa þeir eru alveg æðislega góðir……en er ekki allt í lagi að frysta þá…..ef ég set þá ekki í frysti þá er hætta á að ég borði þá alla í kvöld hahahahah

  15. Þetta eru snildar klattar og algjört uppáhald hérna á þessu heimili núna í þessum skrifuðum orðum er verið að baka 😀 búin að fá fullt af hrósum fyrir þessa klatta og búin að benda fullt af fólki á þessa uppskrift takk kærlega fyrir að vera með þessa síðu ég nota hana rosalega mikið 😀

  16. mmmmmm er að búa þá til núna, finn þennan góðmetan ilm koma út úr ofninum, hlakka til þess að setjast niður með fjölskyldunni og njóta þess að borða þessar kökur. Auðvitað stórt mjólkurglas með 😉 Er búin að smakka eina “ DÚNDUR GOTT “ !!

  17. Omg mjög gott elska þessa uppskrift og það er líka mjög gaman að baka þessa hafraklatta.Nokkrar komnar útur ofninum og mjög góðar á bragðið.

  18. Bakvísun: JA?lalegir hafraklattar meA� rA?sA�num og sA?kkulaA�i | Hun.is

Skildu eftir svar við Hrund Hætta við svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.