Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi


Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremiAfmælisveisluþema: froskurinn Kermit!

Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi

Í dag héldum við upp á níu ára afmæli yngsta barnsins á heimilinu. Við þau tímamót áttaði ég mig á því að það eru ekki svo mörg ár eftir hjá mér í barnaafmælisgeiranum sem er dálítið skrítin tilfinning eftir að hafa verið í 20 ár í þeim geira!

IMG_7014

Jóhanna Inga er afar hrifin af Prúðuleikurunum og langaði að hafa Kermit þema í afmælinu.

IMG_6946

Ég fann enga slíka afmælisdiska en það er líka miklu skemmtilegra að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn (*hóst* þ.e. gúggla!). Ég notaði einfalda græna plastdiska og skeiðar úr Partíbúðinni með litlum hvítum servíettum. Ég keypti líka glös í stíl en notaði þau sem poppílát fyrir hvern og einn gest. Glösin skreytti ég með grænum kreppappír sem var klipptur út eins og kraginn hjá Kermit – Elfar er svo góður með skærin að hann var settur í það verkefni.

IMG_6952

Þegar ég ætlaði að nota sama kreppappírinn til þess að klæða appelsínflöskurnar var Jóhanna ekki nógu sátt því hún taldi þetta alls ekki rétta litinn á Kermit. Mamma vinkonu Jóhönnu sem er kjólameistari og snillingur á saumavélina bjargaði okkur með því að sauma svona fínan strokk úr teygjuefni utan um flöskurnar í rétta græna litnum (samkvæmt Kermit-sérfræðingnum, afmælisbarninu!). Jóhanna Inga klippti svo út augu, teiknaði á þau og límdi á strokkinn. Heliumskorturinn var liðinn hjá og við keyptum nokkrar grænar og hvítar blöðrur með helíum í partíbúðinni.

IMG_7004

Veitingarnar voru auðvitað líka í stíl við Kermit. Ég bjó til afmælisköku með mynd af Kermit (kökuuppskriftin hér).

IMG_6969

Pabbinn á heimilinu útbjó ávaxtaspjót og bjó til Kermit úr epli. Hann notaði sykurpúða fyrir augu sem Jóhanna Inga teiknaði á með matarlitapenna úr Allt í köku í Ármúla og jarðaber fyrir munn.

IMG_6947

IMG_6955

Einnig bakaði ég muffins með grænu kremi. Ég notaði Mentos fyrir augu og Jóhanna Inga teiknaði á það augu matarlitarpennanum. Afar auðvelt í framkvæmd en gefur skemmtilegar muffins.

IMG_6948

IMG_7092

Að auki voru pizzasnúðar í boði og svo auðvitað eplakaka sem er í miklu uppáhaldi hjá Jóhönnu fyrir utan hinar kökurnar og brauðréttina fyrir fullorðna fólkið.

IMG_6994

Ég veit varla hvaða uppskrift ég ætti að setja hér inn fyrst en ég byrja á muffins kökunum. Þær eru afskaplega einfaldar en mjög bragðgóðar. Þetta er góður muffinsgrunnur sem hægt er að nota einan og sér eða bæta við t.d. eplabitum sem velt hefur verið upp úr kanelsykri, bláberjum eða öðrum berjum, súkkulaðibitum eða hverju því sem hugurinn girnist. Kremið er afskaplega hentugt fyrir lituð krem og býsna gott, galdurinn við hvað það er bragðgott held ég að sé sírópið!

Uppskrift (gefur 20 muffins):

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 dl mjólk

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjörið er brætt og látið kólna, þá er mjólkinni bætt út í. Egg og sykur er þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Þá er hveiti, lyftidufti og vanillusykri blandað saman. Þessari þurrblöndu er blandað smátt og smátt út í eggjablöndunum á víxl við smjör/mjólkurbönduna. Deiginu er skipt á milli um það bil 20 muffins forma (fer eftir stærð) en formin eiga að vera fyllt til 2/3. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

Smjörkrem með vanillu:

  • 150 g smjör (við stofuhita)
  • 200 g flórsykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 msk síróp
  • matarlitur

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Ef kremið á að hafa lit er matarlitnum bætt út í að síðustu. Smyrjið kreminu á kaldar muffins. Ef útbúa á frosk líkt og á myndunum þá er, grænn matarlitur settur í kremið og hvítt Mentos notað fyrir augu. Það er teiknað á augum með svörtum matarlits penna úr Allt í köku, Ármúla.

IMG_7098

IMG_7075

14 hugrenningar um “Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi

  1. þú klikkar ekki…að vanda :o) Gaman að elda eftir blogginuþínu og að fá hugmyndir kveðja úr Danaveldi
    Harpa

  2. Langar ad fà uppskrift af pizzusnùdunum. Er amma 5 barna frà 6m til 8 àra.l
    Langar ad prufa thà handa theim.Takk fyrir.

  3. Rosalega girnilegt hjá þér 🙂 Væri til í að fá uppskrift að pizzasnúðunum, er að fara halda barnaafmæli um helgina og langar hafa eitthvað annað en bara súkkulaðikökur.

  4. Ertu með uppskriftina hér inni af marengskökunni sem er mynd af á afmælisborðinu ?

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.