Ostakjötbollur með pasta og mjúkri tómatsósu


Þessi réttur er ofsalega mildur og bragðgóður auk þess að vera einstaklega barnvænn! Engin óvinsæll laukur eða sterk krydd en samt voru kjötbollurnar bragðmiklar með piparostinum og sósan mjúk og bragðgóð. Rétturinn fékk 11 í einkunn af 10 mögulegum hjá yngstu börnunum, ,,sjúklega gott“ hljómaði dómurinn! Ég var að fara í saumaklúbb hjá glæsilega matarbloggaranum henni Svövu vinkonu minni og ég ætlaði sko ekki að mæta södd þangað! 🙂 En börnin þurftu eitthvað að borða (bæði stór og smá!) og ég ákvað að búa til eitthvað sem þeim yngri þætti reglulega gott. Jóhanna Inga var búin að tala um að sig langaði í kjötbollur. Ég átti hakk og bjó til þennan rétt úr því hráefni sem ég átti í ísskápnum og það heppnaðist afar vel.

Kjötbollur:

  • 700 gr hakk piparostur
  • 1 box rifinn piparostur
  • 1 dl brauðmylsna
  • 1 egg
  • 1 tsk basilika
  • salt og pipar
  • smjör eða olía til steikingar

Sósa:

  • 1 ferna eða dós „passerade“ tómatar (þessir sem eru alveg fínmaukaðir, eins og þykkur tómatsafi)
  • 2 dl rjómi eða matargerðarjómi
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 msk tómatsósa
  • 1/2 msk sojasósa
  • 1/2 tsk kjötkraftur
  • salt og pipar
  • annað krydd, t.d. steinselja, origano og basilika (má sleppa)

Pasta: soðið eftir leiðbeiningum

Öllum hráefnunum í kjötbollurnar blandað saman (ég reyndi að mauka ostinn vel með höndunum) og litlar kjötbollur mótaðar. Olía eða smjör, eða blanda af hvor tveggja, sett á pönnu og bollurnar steiktar við fremur háan hita þar til þær eru nærri því gegnumsteiktar, bollunum snúið við þörfum. Tómatþykkninu („passerade“ tómatar) hellt út á pönnuna ásamt, rjóma, tómatpúrru, tómatsósu, sojasósu, kjötkrafti og kryddi. Sósunni leyft að malla þar til kjötbollurnar eru eldaðar í gegn. Áður en sósan er borin fram er hún smökkuð til með  til dæmis kryddi og sojasósu. Ef maður vill þykkari sósu er hægt að nota dálítinn sósujafnara eða maizenamjöl. Borið fram með pasta.

13 hugrenningar um “Ostakjötbollur með pasta og mjúkri tómatsósu

  1. Takk fyrir skemmtilegt blogg og frábærar uppskriftir.. Ég prófaði þessar kjötbollur og þær voru mjög góðar. Kveðja, Áslaug Þ.

  2. Takk fyrir okkur 🙂 svo ég vitni í miðjubarnið “ þetta var geeðveikt gott, viltu elda svona aftur“

  3. Þessar eru komnar í uppáhalds matur hjá fjölskyldunni, æði takk fyrir að deila þessu með okkur 🙂

  4. Þessar voru æði! Vorum með þær núna í kvöld og verða bókað aftur. Notaði kálfahakk því ég átti svoleiðis í frystinum. Takk fyrir mig 😀

  5. Flottur kvöldmatur fyrir alla fjölskylduna, allir ánægðir og sósa er eitthvað svo mjúk 😉

  6. Takk kærlega fyrir frábærar uppskriftir. Ég elda þessar uppskriftir endalaust fyrir barnabörnin mín.
    Þær vekja alltaf lukku. Takk fyrir mig.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.