Hindberjasúkkulaðiterta


Í gær var sannarlega tilefni til þess að taka upp nýju uppskriftabókina þar sem að eiginmaðurinn átti afmæli. Það var erfitt að velja bara eina tertu af öllum þessum girnilegu tertum úr Lomenlinos tårtor. En ein þeirra höfðaði sérstaklega vel til mín; ,,Hallonbrownie“ eða Hindberjabrownie. Hindber og súkkulaði saman getur bara aldrei klikkað! Ekki spillti fyrir að í uppskriftinni var Muscovado hrásykur sem mér finnst gott að nota í kökur og tertur. Hann er til bæði dökkur og ljós, sá dökki er með dálitlum lakkrískeimi en sá ljósi með karmellukeimi. Ég fann bara dökkan Muscovado sykur í Hagkaup en í uppskriftinni átti að vera ljós, held að tertan hafi samt ekkert orðið verri fyrir það. Þessi terta er langbest daginn eftir að hún er bökuð og hefur fengið að brjóta sig aðeins.

Uppskrift:

Hindberjabrownie-botnar:

  • 225 gr. smjör
  • 200 gr. 70% súkkulaði
  • 3 dl. ljós Muscovado hrásykur
  • 1.5 dl. sykur
  • 4 stór egg
  • 4.5 dl. hveiti
  • 1 dl. kakó
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 100 gr. hindber (helst fersk en má nota frosin)

Marengs-smjörkrem með hindberjum (ATH. þessa uppskrift gerði ég eina og hálfa til þess að hún dyggði, hér að neðan er hún einföld)

  • 4 stórar eggjahvítur
  • 2 1/3 dl. sykur (200 gr)
  • 250 gr. ósaltað smjör (við stofuhita)
  • 100 gr. hindber
  • rauður matarlitur ef vill

Súkkulaðikrem

  • 100 gr. 70% súkkulaði
  • 50 gr. smjör

Aðferð:

Hindberjabrownie-botnar:

  1. Ofninn hitaður í 175 gráður.
  2. Tvö 15 cm. lausbotna kökuform smurð (þetta eru mjög lítil form, ég notaði 20 cm. form sem ég fékk í Húsasmiðjunni snemma síðastliðið í vor)
  3. Smjör og súkkulaði brætt við vægan hita í skál í vatnsbaði.
  4. Muscovado sykur, sykur og egg þeytt létt og ljóst.
  5. Sigtið saman hveiti, kakó og lyftidufti í skál.
  6. Hellið brædda súkkulaðinu og smjörinu varlega saman við eggjamassann og þeytið þar til blandan verður slétt. Blandið hveiti, kakói og lyftidufti saman við með sleikju. Setjið deigið í vel smurð kökuformin og stingið hindberjunum ofan í deigið. Bakið við 175°C í 45-50 mínútur. (Ég minnkaði tímann um 10 mínútur þar sem að kökuformin mín voru breiðari og hæð kökubotnanna þar með lægri).

Marengs-smjörkrem

  1. Setjið eggjahvítur og sykur í skál og yfir vatnsbað með sjóðandi vatni. Þeytið allan tímann blönduna með þeytara (hefðbundnum, ekki rafmagns) þar til að hún er orðin 65 gráður eða þar til sykurkristallarnir eru horfnir.
  2. Setjið blönduna í hrærivél og haldið áfram að þeyta þar til að blandan verður stíf og slétt og er orðin köld (getur tekið upp í 10 mínútur)
  3. Bætið við smjörinu, litlum bita í senn. Þegar allt smjörið er komið út í marengsinn, þeytið í 3-5 mínútur í viðbót
  4. Maukið hindberin með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Sigtið maukið í gegnum fínt sigti til að losna við litlu kjarnanna.
  5. Hellið hindberjamaukinu út í smjörkremið og þeytið þar til það er slétt. Bætið við rauðum eða bleikum matarlit til að fá sterkari lit.
Kljúfið botnana í tvennt með góðum hníf (brauðhníf). Setjið ein af nú fjórum tertubotnum á tertudisk og smyrjið kreminu á hann og svo koll af kolli. Smyrjið síðan þunnt lag af kremi utan um alla tertuna og setjð í ísskáp í um það bil 20 mínútur. Bætið þá við kremið þar til að tertan er með jöfn og falleg. Setjið tertuna í ísskáp aftur á meðan súkkulaðikremið er útbúið.
Súkkulaðikrem:
Súkkulaði og smjör brætt yfir vatnsbaði við vægan hita. Blandan látin kólna þar til að hún byrjar að þykkna dálítið. Mikilvægt er að blandan renni enn til en sé þó ekki of þunn.
Hellið súkkulaðikreminu yfir kökuna og látið það renna aðeins yfir kantana. Það þarf að vinna hratt áður en súkkulaðikremið stífnar, notið spaða til að dreifa úr því við þörfum. Skreytið með hindberjum.

Afraksturinn var útlitslega nokkuð langt frá frumgerðinni en góð var hún! Þetta er terta sem er betra að búa til deginum áður en hún er borin fram. Þessa terta er dálítið keimlík þessari á forsíðumynd bloggsins, Kirsuberjadraumnum, en í því kremi er Masacarpone ostur (eða rjómaostur), skelli þeirri uppskrift inn við tækifæri.

Kakan og pakkarnir biðu eiginmannsins þegar hann kom heim úr vinnunni. Jóhanna Inga bjó til styttu í skólanum í vor handa pabba sínum en geymdi hana heima hjá vinkonu sinni þar til í dag: ,,annars myndi ég freistast til að gefa pabba hana fyrir afmælið hans“! 🙂 Í dag voru þær hér þrjár vinkonurnar að baxa við að pakka inn styttunni í stóran kassa og svo í fínan bleikan pappír og slaufur! 🙂

12 hugrenningar um “Hindberjasúkkulaðiterta

  1. Mér sýnist nú tertan vera næstum alveg eins og sú í bókinni, felst ekki munurinn bara í fjölda hindberja? Bestu kveðjur, I
    (hef heitið því að skilja eftir skilaboð alltaf þegar ég kíki á síðuna þína)

  2. Ég vildi óska þess að ég hefði þor í að búa til svona kökur. Lítur skelfilega vel út, já og takk fyrir að búa til nýtt uppáhaldsblog fyrir mig!

  3. Bakvísun: Grilluð nautasteik með piparsósu | Eldhússögur

  4. Bakvísun: Heimsins bestu Brownies | Eldhússögur

  5. Hæhæ,

    flottar uppskriftir hjá þér 🙂 Ein spurning, hvenær bætir þú við hindberjunum í botnana?

    • Góð spurning Elísabet! Ég hef gleymt að setja það inn, búin að laga það núna. Þeim er sem sagt stungið ofan í tilbúið deigið. 🙂

      • Frábært, takk fyrir þetta 🙂 Bara verð að prófa þessa!

  6. Var með afmæli um helgina og var með þessa geggjuðu köku, ótrúlega góð og líka svo flott þegar kremið er komið á 😉 Var svo auðvitað með meira af síðunni þinni, maríuköku sem ég gerði tvöfalda, oreokúlur, súkkulaðitertu með bananakremi, Frazermint marengsteruna ummm hún var ótrúlega góð, súkkulaðikökuna með pipp bananakremi, kladdkökuna með appelsínumpippinu og brauðréttinn með dijon sinnepinu. Þetta var allt yndislega gott og svo gaman þegar allir fara glaðir út 🙂

    • En gaman að heyra Halla og þvílíkt flott veisla hjá þér með öllum þessum veitingum, eiginlega allar mínar uppáhaldskökur samankomnar! 🙂 Takk fyrir góða kveðju! 🙂

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.