Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku


Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basiliku

Ég ætlaði að setja þessa uppskrift inn fyrr í vikunni en þurfti að leysa úr dálitlu vandamáli áður. Vandamál sem var fyrirsjáanlegt um leið og ég eignaðist nýju Canon EOS 7D myndavélina mína sem er dásamleg í alla staði. Ég var samt ekkert svo glöð þegar ég sá að í þessum vélum er ný tegund af minniskortum sem passa ekki í kortalesarann á tölvunni. Ég vissi að fyrr en seinna myndi ég mæta því vandamáli að finna ekki snúruna á milli myndavélar og tölvu og það var einmitt það sem gerðist núna í vikunni. Snúran týndist, aðrar snúrur virkuðu ekki, og ég gat ekki sett myndirnar inn á tölvuna. Ótrúlega pirrandi því ég var einmitt svo spennt að deila með mér þessari uppskrift. Það væri gaman að heyra frá þeim sem eru með svipaðar myndavélar hvort að utanáliggjandi kortalesarar séu kannski málið?

En allavega, ræðum frekar um mat! Á nokkrum vikum hefur þessi nautahakksrúlla orðið hástökkvari á síðunni minni.

IMG_9626

Uppskriftin hefur verið skoðuð meira en 25 þúsund sinnum, er núna önnur mest skoðaða uppskriftin á Eldhússögum, Snickerskakan hefur þó enn vinninginn en naumlega þó. Það sem er svo skemmtilegt við þessa rúllu er að þarna er komin nýstárleg leið til að elda úr hakki og það er hægt að útfæra rúlluna á svo marga vegu. Ég hef sjálf bara eldað þessa rúllu einu sinni – ég er alltaf svo upptekin við að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu. Ég reyndar gerði aðra útfærslu af rúllunni hér sem var alveg jafngóð og þessi fyrsta, ef ekki betri. Eftir að hafa tekið eftir þvi að nautahakksrúllan tróndi vikum saman á toppnum yfir mest skoðuðu uppskriftirnar hjá mér varð ég ansi spennt að elda hana aftur sjálf og þá í nýrri útfærslu. Að þessu sinni gerði ég rúllu með mozzarella, basiliku og tómötum og maður minn hvað það var gott! Allir í fjölskyldunni borðuðu á sig gat og fannst þetta besta útfærslan hingað til. Þið ættuð að prófa! 🙂

IMG_0576

Uppskrift f 4

  • 600 gr nautahakk
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 msk kartöflumjöl (2 msk husk fyrir LKL-vænan rétt)
  • 1 tsk salt
  • pipar
  • 1 egg
  • 125 g mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum) – ekki verra að nota 2 kúlur
  • ca 3 stórir tómatar
  • ca 20 g fersk basilika
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk (fyrir LKL er rjómi bestur)
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari (sleppa fyrir LKL)
  • 2 tsk rifsberjahlaup (sleppa fyrir LKL)

Ofninn er hitaður í 180 gráður. Nautahakki, nautakrafti, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Tómatar eru skornir í tvennt og innvolsið tekið úr þeim – það er ekki notað. Restin af tómötunum eru skornir niður í bita. Mozzarella osturinn er skorinn niður í þunnar sneiðar.  Mozzarella ostinum er raðað á nautahakkið, basilikublöðunum er raðað yfir ostinn. Því næst er tómötunum dreift yfir. Gott er að strá grófmöluðum svörtum pipar yfir allt í restina. Með hjálp smjörpappírsins undir hakkkinu er því rúllað upp eins og rúllutertu.

IMG_0571

Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Bræddu smjöri og sojasósu blandað saman og helt yfir rúlluna. Hitað í ofni í ca. 40-50 mínútur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Fyrir LKL- væna sósu er best að nota rjóma og leyfa sósunni að malla dálítið, við það þykkist hún og þá þarf ekki sósujafnara. Það er líka hægt að bæta ca. 2 msk af rjómaosti út í sósuna til að hjálpa til við þykkingu. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna (ekki fyrir LKL) og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum eða blómkálshrísgrjónum* , salati og rifsberjahlaupi.

* Þau eru gerð með því að rífa niður blómkál (ekki stilkana, bara blómin) á grófu rifjárni. Það er svo sett út í sjóðandi vatn sem er saltað (vatnið á rétt að fljóta yfir þau) í 3 mínútur. Það þarf svo að láta leka vel af blómkálshrísgrjónunum, þau eiga að verða alveg vatnslaus, áður en þau eru borin fram.

IMG_0585

20 hugrenningar um “Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku

    • Tack Apollonia, roligt att se att folk från andra länder kan använda mina recept! 🙂 Läser du isländska eller använder du Google Translate? Hoppas du läser min svenska i alla fall, jag är inget bra på danska! 🙂

  1. Utanáliggjandi kortalesari sem er með usb tengi er mjög góður og kostar bara um 2-3000 kr í elko. Síðan þín er æði 😉

  2. Gerði svona rúllu um daginn eftir að hafa hugsað um hana í nokkurn tíma. Ég notaði grófsaxaða sveppi 1 box, eina gula papriku, og grófsaxaða reykta skinku 1/2 búnt c.a. Steikti sveppina og léttkældi áður en ég rúllaði öllu upp með rifnum osti. Góð tilbreyting að nota hakkið svona. Líst vel á þetta nýja afbrigði.Takk fyrir skemmtilegt blogg.

  3. Þetta er vinsælasti hakkrétturinn á mínu heimili núna og mér líst einstaklega vel á þessa útfærslu 🙂 Takk fyrir mjög svo skemmtilegt blogg og frábærar uppskriftir 🙂

  4. Bakvísun: Mexíkósk nautahakksrúlla | Eldhússögur

    • Ég hef reyndar ekki prófað það Kristín en ég hafði áhyggjur af því að fyllingin yrði of blaut, þess vegna ákvað ég að nota ekki innvolsið,

  5. Bakvísun: Nautahakksrúlla með osti og brokkolí | Eldhússögur

  6. Bakvísun: Parmesanristaðar kartöflur | Eldhússögur

  7. Bakvísun: Ravioli í ítalskri tómatsósu og ferskur aspas með parmesan osti | Eldhússögur

Skildu eftir svar við Eyrún Jónsdóttir Hætta við svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.