Besta skúffukakan


Ég er dálítið spennt að setja þessa uppskrift hérna inn! Ég fer sjaldnast nákvæmlega eftir mataruppskriftum og breyti þeim oft og iðulega. En kökuuppskriftir eru viðkvæmari fyrir breytingum og ekki oft sem ég breyti þeim mikið. Ég hef hins vegar verið að prófa mig áfram með skúffukökur. Allir vilja eiga eina feiknagóða uppskrift af skúffuköku og ég hef prófað margar slíkar til að finna hina einu og sönnu, en án árangurs. Vissulega eru margar skúffukökur ljómandi góðar en undanfarið hef ég verið að prófa mig áfram með mína eigin uppskrift og er loksins komin niður á eina sem ég er mjög ánægð með. Þessi skúffukaka er bragðgóð og mjúk, sú besta sem ég hef smakkað hingað til. Ég held að einn af göldrunum við hana sé súrmjólkin með karamellubragði!

Jóhanna Inga yngsta skottið okkar átti 8 ára afmæli um daginn og þá var auðvitað bökuð skúffukaka. Reyndar var ég ekki búin að fullþróa uppskriftina mína þá, það gerðist nú bara í gær! En ágætis skúffukaka var þó bökuð á afmælinu og í ár var yngsta barnið með afar þægilega ósk um afmælistertu. Engar flóknar fígúrur eða kastalar, brúðarterta skyldi það vera! 🙂 Hún átti að vera með hvítu kremi, blómum og skrauti. Jóhanna Inga valdi sjálf af kostgæfni allt skrautið á tertuna og við mæðgur hjálpuðumst að með að skreyta brúðarterturnar! Þær voru tvær, önnur fyrir 20 stelpna bekkjarafmæli og hin fyrir fjölskylduafmælið.

Heimilisfaðirinn sem er liðtækur á grillinu en er ekkert mikið í eldamennskunni annars átti sína 15 mínútna frægð við afmælisundirbúninginn! Honum var afhent melóna ásamt skurðarhníf og gefinn fyrirmæli um útskurð. Verandi fjarska góður skurðlæknir fórst honum þetta verk auðvitað snilldar vel úr hendi og út kom þessi skemmtilegi broddgöltur:

Þessi krúttulegi broddgöltur fer inn í hugmyndabankann fyrir afmæli sem er hér.

Uppskriftin af skúffukökunni hér að neðan passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm. Ég myndi gera uppskriftina eina og hálfa, jafnvel tvöfalda fyrir stóra ofnskúffu. Ég notaði uppskriftina af kökukreminu fyrir líka fyrir hvítu brúðartertuna hennar Jóhönnu, ég sleppti bara kakóinu og setti dálítin vanillusykur í staðinn þar sem að hún vildi hvítt krem. Ég vil taka það fram að kökuuppskriftin er mín en uppskriftina af kökukreminu fékk ég úr Gestgjafanum.

Uppskrift (fyrir form sem er 25×35 cm, fyrir ofnskúffu þarf 1 1/2 uppskrift):

 • 2 dl sykur
 • 2 dl púðursykur
 • 2 egg
 • 170 gr smjör, brætt
 • 5 dl hveiti
 • 1 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 3 tsk. vanillusykur
 • 1 dl. kakó, sigtað
 • 2 1/2 dl súrmjólk með karamellu
 • 1 dl vatn, sjóðandi heitt

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt.

Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Smjöri, púðursykri og sykri hrært mjög vel saman. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu. Því næst er þurrefnunum blandað saman í skál annars vegar og súrmjólk og sjóðandi heitu vatni í aðra skál hins vegar. Um það bil helmingur af blöndunum úr hvorri skál fyrir sig er bætt út í deigið og hrært í stutta stund, þá er restinni úr báðum skálunum bætt út í deigið og hrært. Athugið að hræra eins stutt og hægt er, bara þar til hráefnin hafa blandast saman, ekki lengur. Deiginu er hellt í smurt smurt bökunarform eða ofnskúffu (þessi uppskrift passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm, fyrir ofnskúffu þarf að gera eina og hálfa uppskrift) og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni.

Kökukrem:

 • 150 gr smjör, mjúkt
 • 200 gr flórsykur
 • 4,5 msk kakó
 • 2 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.

90 hugrenningar um “Besta skúffukakan

 1. Snilld, þarf að prófa þessa ! Er búin að vera að leita af hinni fullkomnu skúffuköku en ekki ennþá fundið ! Alltaf eitthvað sem virkar ekki ! Mun prófa þessa við fyrsta tækifæri !

 2. Ég gerði eina og hálfa uppskrift og hún smellpassaði í ofnskúffuna, alveg einstaklega góð kaka 🙂

 3. í hversu stórt form passar þessi girnilega uppskrift í ?? 🙂
  Langar svo að prófa 😉

  • Bökunarformið sem ég notaði fyrir þessa uppskrift er ca. 25 x 35 cm. Fyrir venjulega ofnskúffu myndi ég gera þessa uppskrift eina og hálfa. Gangi þér vel! 🙂

   • Takk fyrir…. mun prófa þessa bráðum í afmæli 🙂 hlakka mikið til 🙂

 4. Þetta er æææðisleg kaka! Er að baka hana í annað skiptið núna síðan þú settir hana inn 🙂
  Algjör snilldarsíða hjá þér, allt rosa girnilegt 🙂

 5. Ofsalega mjúk kaka og góð. Átti ekki súrmjólkina (komst ekki frá veiku barni út í búð) en notaði í staðinn drykkjarjógúrt með karamellubragði og það kom mjög vel út. Frábærar uppskriftir hjá þér. Takk

  • En hvað það var gaman að heyra! 🙂 Gott að vita af því að drykkjarjógúrtið geri svipað gagn. Batakveðjur til barnsins! 🙂

 6. Hæ hæ, þegar þú gerðir „brúðartertuna“ gerðirðu tvo skammta og settir krem á milli eða var hún alveg nógu þykk úr forminu?

  • Ég man það ekki alveg en ég er eiginlega viss um að ég hafi gert tvær kökur og sett krem á milli. En nota bene þá er formið fremur lítið (miðað við ofnskúffu allavega), það er 25×35 cm. Það er líka hægt að gera þessa uppskrift sinnum eina og hálfa í venjulega ofnskúffu, skera hana svo í tvennt og leggja saman með kremi á milli.

   • takk takk, ætla að prófa að gera prinsessukastala úr þessu, betra að hafa góða köku með lélegri skreytingu en lélega köku með góðri skreytingu en vonandi heppnast báðir hlutirnir hjá mér 😉

   • Já, ef kakan er góð þá getur hún ekki klikkað – sama hvernig hún lítur út! 🙂 Það er voða gaman að gera prinsessukastala. Hér getur þú séð einn frá mér. https://eldhussogur.com/2012/07/14/hugmyndir-fyrir-barnaafmaeli/ Ég gerði bara tvær kökur, sú sem kemur ofan á er minni en hin. Á hvert horn setti ég ísform, smurð með kökukremi. Svo notaði ég súkkulaði, sælgæti, myndir, heimagerða fána og annað til að skreyta með. Einfalt og afmælisbarnið afar ánægð! 🙂 Gangi þér vel!

 7. Bakvísun: Grískur kjúklingaréttur með tzatziki jógúrtsósu | Eldhússögur

 8. yndislega góð og vinsæl, ætla svo að prófa kjúklingalasagnjað á föstudag :). Takk fyrir frábærar uppskriftir 😀

 9. Takk fyrir flotta uppskrift, fór reyndar línuvilt og tókst að baka hana án sykurs og púðursykurs he he smakkaðist ekki alveg eins vel svoleiðis, en áttaði mig áður en kremið fór á kökuna og bakaði aftur 🙂 hafðist allt á tíma fyrir afmælisveisluna hjá stráknum mínum rosa fín kaka passa mig á sykrinum næst 🙂

  • Haha … eins gott að þú náðir að redda kökunni! 🙂 Hún hefði nú ekki verið upp á marga fiska án sykurs! Takk fyrir kveðjuna! 🙂

 10. Þessi kaka bragðaðist einstaklega vel með svissnesku og þýsku hráefni!

  Hlakka til að prófa meira af síðunni.

  Kveðja frá Sviss 🙂

 11. Bakvísun: Skúffukaka sem er svo góð

 12. Var að prófa að baka þessa köku en þar sem ég er erlendis var ekki til púðursykur þannig að ég notaði bara 4dl af sykri og notaði hreina jógúrt í stað súrmjólkur og hún var rosalega góð! Sýrópið í kreminu setur alveg punktinn yfir i-ið:)

  Takk fyrir mig!

 13. Elska þessa, ef ég ætla að baka þá biður maðurinn minn alltaf um góðu súkkulaðikökuna:)

 14. Búin að gera hana 3x og hún klárast alltaf heima hjá mér ! Snilldarsíða 🙂
  Takk fyrir mig !

 15. Þessi skúffukaka slær öllum öðrum við! Í fyrsta skipti kláraðist skúffukakan áður en afmælið var búið – hún var svo góð að kannski hefði verið gott að hafa tvær 🙂
  Hjartans þakkir, þessi verður gerð aftur og aftur…

  • Og ég gleymdi líka að segja, að héðan í frá mun ég alltaf setja smávegis síróp í smjörkrem! Bæði varð það bragðbetra og svo stífnaði það ekki.

  • Mikið gleður þessi kveðja mig Björg! Takk! 🙂 Ég er sammála með sírópið í smjörkremið, það gerir kremið ómótstæðilegt! 🙂

 16. Þessi kaka er sannarlega góð. Ég átti ekki púðursykur en setti kókospálmasykur í staðinn. Mjög góð kaka

 17. Bakvísun: Afmæliskaka Axels | Matargleði

 18. Ég bakaði kökuna í gær og hún var einstaklega ljúffeng! Kærar þakkir fyrir uppskriftina. Ég á áreiðanlega eftir að prófa ýmsa rétti á þessu fína bloggi þínu 🙂

 19. Þessi kaka er í ofninum núna, ilmar dásamlega, og JI hvað ég hlakka til að prófa;)

 20. Svo ég segi nú líka hvernig hún bragðaðist, þá var hún ææði! Ein besta skúffukaka sem ég hef smakkað, mjúk og góð 🙂 Takk!
  Ég lét líka einn lítinn espresso bolla og vanilludropa í staðinn fyrir sýrópið og það var mjög gott;)

 21. Eftir að ég fann þessa uppskrift hjá þér þá hef ég bakað hana allavegna 6 eða 7 sinnum, hef haft hana í barnaafmælum, í vinkonuhitting og við alls lags tækifæri! Er að fara baka hana núna, einfaldlega vegna þess að það er sunnudagur 🙂 TAKK FYRIR ÆÐISLEGA UPPSKRIFT. P.s. elsti strákurinn minn er með mjólkuróþol og ég nota olíu í staðinn fyrir smjörið og haframjólk í staðinn fyrir súrmjólkina og hún er samt sjúúúúklega góð 😉

 22. Það sem ég er búin að leita að hinni fullkomnu skúffuköku! Hún er það góð að við erum farin að finna tilefni til að halda upp á eitthvað svo við getum bakað og skreytt þessa köku 🙂 Takk annars fyrir þetta blogg, þú hefur hjálpað mér með ófá barnaafmæli, matarboð og helgarmat!

 23. Vá hvað þetta er frábær skúffukaka! Ég á sko eftir að baka þessa oft 🙂

 24. Sæl, var að spá að baka þessa fyrir afmæli 🙂
  hvað helduru að ein svona uppskrift myndi duga í mörg kringlótt form? Er að spá í að gera sirka 4 hæða köku úr þessari uppskrift….
  Takk fyrir frábærar uppskriftir 🙂

  • Sko, uppskriftin eins og ég gef hana upp passar ekki í skúffuform heldur aðeins minna form, 25×35 cm. Það er því líklega aðeins of mikið deig í 24 cm hringform. Spurning að miða við eina og hálfa uppskrift í tvö kringlótt form. Það yrði því tvisvar sinnum ein og hálf uppskrift fyrir fjögur hringform! – vona að þú fattir þessa flóknu stærðfræði! 🙂

 25. Bakvísun: Vinsælustu uppskriftirnar 2013 | Eldhússögur

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.