Eggja- og beikonmúffur


Eggja- og beikonmúffur

Þeir sem fylgjast með Eldhússögum á Instagram eða á Facebook sáu að ég setti inn myndir í vikunni sem birtust einmitt í Vikunni! Ég var nefnilega beðin um að vera matgæðingur Vikunnar og gefa þrjár uppskriftir. Mér fannst þetta spennandi verkefni og ákvað að gefa nýjar uppskriftir sem ég hef ekki sett inn á bloggið enn.

Vikan2-001

Ein þeirra er ofsalega ljúffeng og góð tælensk kjúklinga- og sætkaröflusúpa. Þetta er bragðmikil og einkar bragðgóð súpa sem er ákaflega einföld og fljótlegt að búa til. Önnur uppskriftin var að blautri súkkulaðiköku með glóaldini, það er dásamleg súkkulaðikaka með appelsínubragði, minnir á kattartungurnar góðu. Þriðja uppskriftin er af einum þeim besta laxarétti sem ég hef smakkað! Sojamaríneraður lax með mangó/avókadósalsa og smjörsteiktu spínati. Þennan rétt tekur engan tíma að elda en maður minn hvað hann er góður! Samsetningin er skotheld, ljúffengur laxinn með bragðgóðu maríneringunni og dásamlega góða meðlætið – það er bara skylda fyrir laxaunnendur að prófa þennan rétt! Tölublaðið af Vikunni með ofantöldum uppskriftum kom út fyrir helgi, ég hvet ykkur til þess að næla ykkur í eintak!

Vikan1-001

Í dag ætla ég að setja inn uppskrift af ekki síður góðum mat. Þetta eru eggja- og beikonmúffur sem slógu í gegn í sextugsafmæli mömmu (meira um afmælisveitingarnar í næstu færslu! 😉 ). Þar sómdu múffurnar sér einstaklega vel á brunch-borðinu.

IMG_9925

Múffurnar eru ákaflega ljúffengar og afar einfaldar að útbúa. Það eina sem krefst er að vera með gott möffinsform. Ég prófaði að gera þær í einnota möffinsformum en þær festust of mikið við formin fyrir minn smekk. Ég notaði því „non stick“ möffinsform sem tekur 24 múffur í einu, þetta er svona míní-möffinsform. Ég fékk það í Hagkaup á 2990 kr. Múffurnar losnuðu mjög auðveldlega úr forminu, ég þurfti ekki einu sinni að smyrja það að innan. Það er afar gaman að bera þessar múffur fram á til dæmis „brunch“ borði því þær eru svo fallegar. Eins er svo skemmtilegt að með þessum múffum fær maður morgunverðinn allan í einum litlum gómsætum bita – egg, beikon og ost!

IMG_0094Svona líta múffurnar út að innan

Það er auðvitað líka hægt að nota þessa uppskrift venjuleg möffinsform sem eru stærri (taka þá oft átta eða tólf múffur í einu). Þá þarf bara að auka aðeins við bökunartímann.

Uppskrift (passar í eitt möffinsform sem tekur 24 mínímúffur eða form sem tekur 12 venjulegar múffur):

  • 10 egg
  • 150 g rifinn ostur (ég notaði mozzarella)
  • 3/4 dl rjómi
  • ca 140 gr beikon
  • sléttblaða steinselja, skorin smátt (ég notaði ca. 1 dl), líka hægt að nota graslauk
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • það er hægt að bæta við öðrum hráefnum eftir smekk, t.s. spínati, eins er hægt að gera múffurnar meira „spicy“ með t.d. með því að krydda þær með chiliflögum.

IMG_9864

 Ofn er hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Beikonið er steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt, þá er það skorið í litla bita. Eggin er þeytt létt saman í skál. Því næst er rifna ostinum, rjómanum, steinseljunni og kryddinu bætt út í. Blöndunni er því næst ausið með skeið ofan í möffinsformið. Gæta þarf að fara vel ofan í botninn á skálinni með skeiðinni og þannig sjá til þess að beikonið og osturinn dreifist jafnt ofan í hvert hólf. Best er að sléttfylla hólfin.

IMG_9870

Þá eru múffurnar bakaðar við 180 gráður í 15 mínútur. Á meðan bakstri stendur rísa múffurnar vel upp úr forminu en falla síðan dálítið niður eftir að þær eru teknar út.

IMG_9911Svona líta múffurnar út í lok bökunartímans

IMG_9898Hér eru múffurnar byrjaðar að falla saman eftir baksturinn – það er alveg eðlilegt.

Hjá mér voru múffurnar alveg lausar í forminu og auðvelt reyndist að fær þær upp á disk með gaffli. Gott er að bera múffurnar fram heitar en það er líka hægt að bera þær fram kaldar.

IMG_9905

30 hugrenningar um “Eggja- og beikonmúffur

  1. Hæ langar að vita hvort hægt sé að nota venjulega muffins form (einnota)? á ekki svona bakka en langar að prófa 🙂

    • Sæl Barbara, þú ættir að geta notað einnota möffinsform en þá þurfa þau að vera stíf. Ég held að það þýði ekki að nota þessi þunnu venjulegu pappírsform, ég held þau haldi ekki nógu vel utan um blönduna í byrjun bakstursins, hún gæti lekið. Ef þú finnur stífari útgáfu af einnota formum, t.d. einhverskonar álform þá gengur það líklega.

    • Nei alls ekki Katrín, stærri formin ganga alveg! Ég vildi bara nota lítil í þetta sinn þar sem múffurnar fóru á veisluborð og þá hentaði betur að hafa múffurnar litlar. Þú þarft hins vegar að bæta við bökunartímann einhverjum mínútum. Gangi þér vel! 🙂

  2. Gerði þessa dásemd í dag og sló í gegn :). Svo fljótlegt og gott. Þetta verður sko endurtekið. Takk kærlega fyrir mig.
    Kveðja
    Helga

  3. Bakvísun: Maríukaka | Eldhússögur

  4. Hver ætli séu ca. hlutföllin ef ég myndi vilja hafa meirihlutann eða helming í eggjahvítum ??
    S.s. það eiga að vera 10 egg en ætli hlutfölling gætu verið 4 venjuleg egg og kannski 10 hvítur eða minna ? 🙂

    • Ég veit ekki alveg, þú þyrftir að prófa þig svolítið áfram. Ég myndi byrja einmitt ca. með þessi hlutföll sem þú stingur upp á. Gangi þér vel! 🙂

  5. Ég prófaði að gera múffurnar í gær, þær eru æði og eru algjörlega að slá í gegn heima hjá mér. Takk fyrir mig. P.s. Er ótrúlega ánægð með LKL uppskriftirnar, þú ert snillingur 😀

  6. Allveg frábærar, ég gerði svona og setti sveppi og lauk með og þær brögðuðust mjöööög vel 🙂 Veistu hvort að það sé í lagi að frysta þær?

  7. Takk kærlega fyrir vel útskýrðar og einstaklega bragðgóðar uppskriftir. Sama hvað ég prófa af síðunni þinni (og núna í hádeginu voru það eggja-og beikon múffur) , þetta er allt frábært og ég fæ hvílíkt hrós fyrir matargerð og það er einstakt þegar ég á í hlut 🙂 Takk enn og aftur.

  8. Hæhæ. Ég fór í húsgagnahöllina um daginn með það plan að kaupa smelluform.. Ég endaði á því að kaupa mér frekar muffinsform. Þau eru reyndar í stærri lagi og komast bara sex stk. í einu. En ég ákvað að elda þetta í kvöld svona til að halda upp á kaupin 😀 Ég átti hvorki graslauk, vorlauk né steinselju svo ég sleppti því. Ég reif frekar cheddar ost og bætti við cayen (eða hvernig sem þetta er skrifað) og annað’ chilli krydd. Þett var mjög gott svo ég segi bara takk kærlega fyrir góða hugmynd ! Næst ætla ég að prófa að setja skinku og sveppi eða hakk , held það sé algjört æði 🙂

    • Gaman að heyra Bára Mjöll! Já, það er hægt að gera allskonar útfærslur á svona múffum, sveppir og skinka væri örugglega æði, líka beikon! 🙂

  9. Bjó þessar til í morgun, þær voru æði! Svo einfalt að búa þær til og fallegar á brunch borðinu. Sonur minn sagði mér að þær væru „perfect!“:) Takk fyrir góðar og nákvæmar uppskriftur og myndir, ég nota vefinn þinn mikið en gef ekki alltaf endurgjöf. Segi hér með að það hefur aldrei nein uppskrift klikkað af vefnum þínum og ég hef afskaplega lítinn sans fyrir matargerð. Þess vegna henta svona nákvæmar lýsingar mér mjög vel og ég er búin að slá í gegn í eldamennskunni ansi oft með hjálp vefarins þíns:)

  10. Sæl, ætla að prófa þessR núna a eftir 🙂 veistu hvernig hvað þær gleymast lengi ?

    Kv Maria

    • Sæl María. Ég hef borðað þær daginn eftir og það var í fínu lagi. Ég veit ekki hversu lengi eftir það múffurnar haldast góðar.

  11. Áttu uppskriftina af súpunni, tælensk kjúklinga- og sætkaröflusúpa

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.