Fermingarveisla


IMG_5106 Um daginn sagðist ég ætla að blogga meira um fermingarveisluna en ég er að hugsa um að gera gott betur og hafa þetta einskonar gátlista líka fyrir fermingarveislur (hér bloggaði ég líka um fermingarveislu dóttur vinkonu minnar, þar er hægt að finna fleiri hugmyndir). Á hverju ári bætast nýir fermingarforeldrar í hópinn sem eru allir í sömu hugleiðingum og þá getur verið gott að fá hugmyndir og góð ráð frá öðrum sem þegar hafa gengið í gegnum þetta ferli.

Á Facebook er hópur sem heitir Fermingar undirbúningur og hugmyndir sem er sniðugur fyrir fermingarforeldra. Þar er hægt að fá hinar ýmsu hugmyndir og spyrjast fyrir um eitt og annað.

En víkjum að fermingarveislunni og matnum. Ég ákvað að bjóða upp á það sem mér finnst sjálfri best að fá í svona veislum, smárétti og kökur í eftirrétt. Einn galli við smárétti er þó að margir þeirra geymast illa, til dæmis snittur og slíkt, því þarf að útbúa suma réttina samdægurs. Það gefst yfirleitt lítill tími á sjálfan fermingardaginn að stússast með veitingar. Ég ákvað því að búa til um það bil helming réttanna sjálf og keypti svo restina tilbúna. Það sem ég gerði meðal annars sjálf voru þessi kjúklingaspjót hér en að þessu sinni notaði ég kjúklingalundir frá Rose Poultry sem mér fannst koma enn betur út en að nota kjúklingabringur, þær voru afar meyrar og góðar. Ég leitaði mikið að góðum grillspjótum og fann bestu spjótin í Þinni verslun. Þau voru ekki of löng og voru með flötum enda öðru meginn. Þau voru líka á góðu verði, 250 stykkki á 998 krónur (uppfært: sami kassi með 250 spjótum er til í Krónunni á 798 kr.) Það voru til svipuð grillspjót í Søstrene Grene en þar kostuðu 40 spjót 299 krónur. Gott er að setja álpappír utan um endana á spjótunum á meðan grillað er til þess að þau verði ekki svört. Ég reyndar setti bara spjótin í eftir á.

IMG_5103 Ég gerði líka þessar laxarúllur IMG_5114 auk þess að gera snitturnar sem ég er með uppskrift að hér. IMG_5122 Svo fékk ég mömmu til þess að búa til skinkuhorn. Ég ákvað að panta smárétti frá Osushi en ég hafði smakkað þá áður og fannst þeir ákaflega góðir. Mér finnst líka mjög þægilegt að á heimasíðunni þeirra er góður listi með myndum af öllum réttunum, nokkuð sem mér finnst að fleiri staðir ættu að tileinka sér. Það munar svo mikið um að sjá hvernig réttirnir líta út og vita strax verðið í stað þess að fá blindandi tilboð eins og margir staðir eru með. Ég pantaði djúpsteiktar risarækjur með súrsætri sósu. IMG_5118 Hrikalega góðar og ég held ég geti fullyrt að þær hafi slegið í gegn í veislunni, þetta var allavega það sem mér fannst best á veisluborðinu. Í veislunni voru um það bil 75 gestir (þarf af 10 börn undir fermingaraldri). Ég var með átta tegundir af smáréttum og miðaði við að vera með rúmlega tvo bita af hverjum rétti á mann eða um það bil 150 bita af hverjum rétti (var þó með töluvert meira af kjúklingaspjótunum og sushi). Þetta gera meira en 16 bita á mann sem er vel ríflegt, það er reiknað með 12-16 bitum af smáréttum (reyndar með sætum bitum líka) sem heil kvöldmáltíð fyrir einn. Eftir fyrstu umferð á veisluborðið voru enn til rækjur en þær kláruðust síðan alveg. Fyrir næstu veislu mun ég pottþétt kaupa meira af þeim – ég var nefnilega hálft í hvoru að vonast til að að yrði afgangur sem við gætum gætt okkur á eftir veisluna! 😉 IMG_5102 Að sjálfsögðu pantaði ég líka gómsæta sushi bita frá Osushi. Ég var með rétt um 180 sushi bita og hélt að það væri yfirdrifið nóg þar sem að það borða nú ekki allir sushi. Það dugði en kláraðist næstum því, kannski ekki skrítið því það var ofsalega gott. IMG_5116 Þriðji rétturinn sem ég pantaði voru hrossaspjót, hljómar kannski ekki vel í allra eyrum en er ó svo gott! Þau eru marineruð í einhverskonar asískri sósu með klettasalati, vorlauk og sesamfræjum – ljúffengt! Ég pantaði 150 spjót og það voru bara örfá eftir. IMG_5095 Ég get allavega vel mælt með smáréttunum frá Osushi og mun klárlega nýta mér þjónustu þeirra aftur. IMG_5105

Smáhamborgarana pantaði ég frá American Style. Ég náði nú ekki að smakka allar tegundirnar (þetta voru einar 5-6 tegundir) en fannst þeir heldur til of þurrir. Það hefði verið ráð að hafa með auka sósu, t.d. bernaise sósu og hamborgarasósu og bjóða upp á að fá sér auka sósu á borgarana.

Svo þetta sé dregið saman þá var ég með eftirtaldar veitingar fyrir 75 manns (þar af 10 börn):

180 Sushi bitar (kláraðist nærri því)

150 Risarækjur (kláruðust)

150 hrossapjót (smá afgangur)

150 Laxarúllur (smá afgangur)

140 smáhamborgarar (smá afgangur)

150 snittur (smá afgangur)

150 míni skinkuhorn (kláruðust)

230 kjúklingaspjót (nokkur afgangur)

Ég var með allskonar tegundir af gosi ásamt kaffi og miðaði við 1/2 líter af gosi á mann, það var mjög passlegt. Eins var ég með Trópí fernur fyrir börnin.

Þó svo að ég hafi gaman af því að baka þá ákvað ég að leggja það í hendur bökunarsnillingnum henni Önnu frænku minni sem er konditor, menntuð í Danmörku. Terturnar hennar eru veisla fyrir bæði augað og magann! IMG_5172 Vilhjálmur hafði ekki mikla skoðun á matnum en hann er áhugamaður um tertur! 🙂 Við fórum því til Önnu og hann lýsti því sem hann vildi. Hann ákvað alveg sjálfur hvaða tegundir af tertum yrði og hvernig þær átti að skreyta. Hann var ákveðinn í að bjóða upp á kransaköku skreytta með tónum og g-lykli. IMG_7550 Einnig vildi hann uppáhaldstertuna sína, sænska prinsessutertu og var með ákveðna skoðun á skreytingunum sem Anna átti auðvelt með að framkvæma. IMG_5088 Við vorum himinlifandi þegar við sáum útkomuna, ótrúlega falleg terta og kransakaka, alveg eftir Vilhjálms höfði, og báðar brögðuðust himneskt vel. Kransakakan hennar Önnu er framúrskarandi góð, langsamlega best af öllum þeim sem ég hef prófað og tertan einstaklega góð – og ég er ekki bara að segja þetta af því við erum skyldar! 🙂 Kranskakan var 15 hringja, tertan var 40 manna og að auki var ég með 80 lítil glös af Dumle súkkulaðimús ásamt súkkulaðigosbrunn, ávextum og berjum. Ég hélt að það yrði fremur mikill afgangur en það var bara smá biti eftir af tertunni, einn hringur af kransakökunni og öll súkkulaðimúsin kláraðist. Það sannaðist að það er ekki bara ég sem er hrifin af tertunum hennar Önnu! 🙂 Þið getið skoðað þessi gómsætu listaverk á Facebook síðunni hennar hér. IMG_5083 Hér að neðan setti ég saman dálítinn gátlista fyrir fermingarveislur og skrifaði líka hvernig ég útfærði ýmiss atriði fyrir okkar veislu. Það væri mjög gaman ef fleiri fermingarmömmur – eða pabbar – myndu bæta við þennan gátlista í athugasemdunum. Þar væri hægt að koma með góð ráð og hugmyndir sem þið hafið notast við í fermingarveislum. Þannig yrði þetta góður hugmyndabanki! 🙂

  • Hvar á veislan að vera, heima eða í sal? Ef veislan á að vera í sal þá þarf að bóka hann með mjög góðum fyrirvara. Vinsælir salir eru jafnvel bókaðir með meira en árs fyrirvara. Oft og tíðum ákveður fólk fermingardaginn áður en kirkjan gefur út hvaða daga er fermt en flestar kirkjur halda sig við sömu dagsetningarnar ár eftir ár. Það er gott að hafa í huga að það eru fleiri salir um að velja en bara hefðbundnir veislusalir. Aðrir salir sem koma til greina eru til dæmis safnaðarheimili, matsalir í skólum og á stórum vinnustöðum. Einnig er oft hægt að nýta sali á vegum stéttarfélaga og íþróttafélaga.
  • Myndartaka. Algengast er að taka fermingarmyndirnar fyrir fermingardaginn og oft er einni eða fleiri myndum úr myndartökunni stillt upp í fermingarveislunni. Mér finnst Lalli ljósmyndari langsamlega bestur og Vilhjálmur fór í myndartöku til hans tveimur dögum fyrir sjálfa ferminguna. Ég notaði tækifærið og lét hann fara í klippingu á þessum degi og klipparinn hans gerði hárið hans fínt fyrir myndartökuna.
  • Myndartaka í veislunni. Fáið einhvern, auk ykkar sjálfra, til að taka myndir fyrir ykkur í veislunni. Munið að taka myndir af veisluborði, skreytingum, gestunum, uppákomunum og í lokin er gaman að stilla fermingarbarninu upp með foreldrum, systkinum, ömmu og öfum, bestu vininum og fleirum og smella af myndum!
  • 1797465_10152096332222993_5031783339011518903_n  Pixel býður upp á að maður hanni kortin sjálfur en ég var með ákveðnar hugmyndir um tónlistarþemakort sem ég skýrði út fyrir þeim og þeir hönnuðu fyrir mig. Ég vildi hafa kortið einfalt, sem sagt ekki brotið, því margir setja svona boðskort upp á ísskáp og þá njóta þau sín ekki ef þau eru tvöföld. Við ákváðum líka að hafa textann þannig að við foreldrarnir buðum til veislunnar en nafnið á fermingarbarninu kom skýrt fram, okkur fannst það fallegast þannig. Það var líka mjög þægilegt að ég gat skilað gestalista til þeirra í Excel skjali og þeir prentuðu framan á umslögin, ég mæli með þeim tímasparnaði! Það er gott að senda boðskortin með góðum fyrirvara. Fermingar eru oft í kringum páskana þegar fólk er á ferð og flugi. Ég sendi boðskortin með mánaðarfyrirvara en algengt er að senda þau með 4-6 vikna fyrirvara. Það er því gott að byrja að huga að boðskortunum með allavega tveggja mánaða fyrirvara. Ég lét einnig prenta nokkur kort með öðrum texta: “Velkomin í fermingarveisluna mína – 4. hæð” og svo nafn fermingarbarnsins undir. Ég hengdi þau kort upp við innganginn og í lyftunni svo það færi ekkert á milli mála hvert ætti að fara þegar í húsið var komið. Ég tók með mér stórar kertaluktir að heiman og setti fyrir utan hurðina á húsinu sem salurinn var í til að merkja enn betur hvar veislan væri og til að skapa notalega stemmningu.

IMG_5331

  • Í kirkjunni: Munið að spyrja fermingarbörnin ykkar hvoru megin í kirkjunni þau eru (þau vita það eftir æfinguna). Ef fermingarbarnið situr til dæmis hægra megin þá er betra fyrir aðstandendur að sitja vinstra meginn í kirkjunni, þ.e. ská á móti, til að sjá barnið á meðan athöfn stendur.
  • Gott er að hafa í huga að gefa sér góðan tíma á milli fermingar og veislu. Ef ferming er klukkan 14 þá getur verið tæpt að hafa veisluna klukkan 16 ef eitthvað er eftir að undirbúa. Við vorum komin í salinn um það bil 15.45 og vorum með veisluna klukkan 17.
  • Gylling á sálmabók. Það er hefð fyrir því að fermingarbörn séu með sálmabækur við ferminguna og þær eru yfirleitt með gyllingu þar sem kemur fram nafn og fermingardagur. Hefðin er að strákar noti svarta sálmabók og stelpurnar hvítar. Þessar sálmabækur er hægt að kaupa og gylla á mörgum stöðum, t.d. hjá Garðheimum, Blómavali, Stell.is eins er hægt að fá gyllingu hjá Kirkjuhúsinu og nunnunum í Hafnarfirði og það tekur nokkra daga að fá bækurnar gylltar. Sum fermingarbörn nota gamlar sálmabækur frá foreldrum sínum og bæta við nafninu framan á bókina. Það getur verið skemmtilegt að leggja svo sálmabókina til sýnis hjá til dæmis gestabókinni í veislunni.
  •  Margir útbúa sérstaka gestabók fyrir ferminguna. Ég legg ekki mikið upp úr því og finnst eiginlega óþarfi að sitja uppi með heila gestabók sem bara er skrifað í einu sinni. Það getur reyndar verið skemmtilegt að sameina gestabók og myndaalbúm. Ég hef hins vegar notað bókina “Fyrsta bók barnsins” sem gestabók í síðustu tveimur fermingum og látið gestina skrifa aftast í hana. Þar eru yfirleitt nokkrar auðar síður sem mér finnst tilvaldar að nota sem gestabók fyrir fermingarveislugesti og slá þannig botninn í bókina.
  • Sumir vilja láta prenta á servíettur og merkja kerti. Það er gert meðal annars hjá sömu aðilum og gylla sálmabækurnar, Blómavali, Garðheimum og á fleiri stöðum. Við ákváðum að gera það ekki. Veislan hjá okkur var með tónlistarþema og ég keypti kerti í Íkea. Ég notaði svo gamla nótnabók sem ég fékk á nytjamarkaði og bjó þannig til nótnakerti. Nóturnar sem ég stakk í kertin fékk ég í Föndru. Við vorum með servíettur í stíl við kertin, með nótum á. Ég fékk líka bókstaf fermingardrengsins í Föndru og fékk handlagna vinkonu mína til þess að mála stafinn og skreyta með nótum.

IMG_7545IMG_4979

  • Ef lítil börn eru í veislunni er gott ráð að hafa barnahorn með borði og stólum fyrir krakkana. Þar er hægt að hafa liti, litabækur, kubba, pleymó, bækur og slíkt. Ef aðstaða er til staðar getur líka verið sniðugt að hafa teiknimynd í gangi.
  •  Ég var í vandræðum með að finna löbera á gestaborðin sem mér fannst nógu fallegir en kostuðu ekki hönd og fót. Ég notaði ekki dúka og vildi fá löbera sem dygðu yfir öll borðin og þurfti því um 30 metra. Ég endaði á því að kaupa flekagardínur í Íkea. Hver fleki er þrír metrar og hann er hægt að kljúfa í tvennt, það nást því sex metrar úr einum fleka. Efnið er mjög gerðarlegt og fallegt þannig að þessir “löberar” komu mjög vel út. Ef þið þurfið að leigja hefðbunda dúka þá þarf að panta þá með fyrirvara á dúkaleigum. Hér eru dæmi um dúkaleigur: Damask – A. Smith, Fönn, Fjöður, Efnalaugin Björg og Stór dagur. Ég var að spá í að hafa hvíta dúka á borðunum en hætti svo við, fannst borðin koma best út svona. Mér fannst reyndar frekar skrítið að stærstu dúkarnir á dúkaleigunum virtust vera 2.30 cm x 2.30. Það voru ekki til dúkar sem voru 3 metrar á lengd. Það getur líka verið sniðugt að athuga á vinnustöðum t.d. foreldra fermingarbarnsins hvort til séu dúkar. Til dæmis vinn ég í skóla og ég uppgötvaði að þar eru til fínir hvítir dúkar sem ég hefði getað fengið lánaða. Í versluninni Rekstrarvörum er líka hægt að kaupa pappírsdúka á rúllum sem eru mjög vandaðir og líkjast taudúkum eins eru þeir til í Besta. Mér reiknaðist til að það hefði kostað mig svipað mikið að leigja dúka og kaupa pappírsdúka í Rekstrarvörum. Stundum hafa verið dúkar og renningar frá Duni í Stórkaup á mun betra verði en í öðrum verslunum, það borgar sig að athuga hjá þeim. Það eru líka til flottir renningar hjá Skreytum.is ásamt allskonar skemmtilegu borðskrauti.
  • IMG_5255Kertastjakana undir sprittkert keypti ég alla á nytjamörkuðum og blandaði saman mismunandi tegundum, var með 6-7 á hverju borði. Vasana undir blómin átti ég frá síðustu fermingu. Ég fór í Dalsgarð í Mosfellsdal og keypti Musacari laukana (perluhýasintur) sem ég einfaldlega hreinsaði moldina af og setti í vasa auk fallegra steina.

IMG_5018

  • Fríða vinkona mín sem er snilldar blómaskreytir gerði svo þessa rustic borðskreytingu á matarborðið. Hún er gerð úr liljum, perluhýasintum, mosa, greinum og steinum.

IMG_5004 IMG_5183

  •  Það er misjafnt hvað boðið er upp á í fermingum. Sumir eru með hefðbundin kökuboð með kökum og brauðréttum. Aðrir bjóða upp á súpu og brauð á meðan einhverjir hafa mat, til dæmis lambalæri og meðlæti. Ég ákvað að bjóða upp á það sem mér finnst sjálfri best að fá í svona veislum, smárétti og kökur í eftirrétt eins og ég lýsti hér að ofan og þar kemur líka fram nákvæmlega allt varðandi magn.
  •  Margir eru með myndasýningu í gegnum skjávarpa þar sem myndum af fermingarbarninu í gegnum tíðina er varpað á tjald. Ég ákvað hins vegar að vera dálítið “retro” og útbjó fullt af myndum af syninum í myndaforritinu Picasa. Þar breytti ég útliti myndanna þannig að þær litu út eins og Polaroid myndir og skrifaði texta undir þær. Ég hengdi svo upp snæri hér og þar í salnum og klemmdi myndirnar á snærin með litlum klemmum úr Tiger. Þannig gegndu myndirnar líka ákveðnu skreytingarhlutverki fyrir salinn. Hér að neðan glittir líka í glerkúpul og undir honum var ég með fyrstu skóna hans Vilhjálms. Það er einmitt skemmtilegt að nota sem skraut fyrstu skó barnsins, fyrsta kjólinn eða annað slíkt. Þegar Ósk fermdist notaði ég skírnarkjólinn hennar sem „skraut“. Sumir geyma kannski skírnarkertið sem er gaman að taka fram við þetta tækifæri.

IMG_4999 IMG_4997

  • Það er gaman að brjóta upp veisluna með einhverju skemmtilegu. Vilhjálmur er búinn að æfa á píanó í nokkur ár og spilaði tvö verk í veislunni.
  • IMG_5161 Ég útbjó líka myndband þar sem ég klippti saman skemmtileg myndbönd af Vilhjálmi í gegnum tíðina. Ég var svo forsjál að taka upp myndband með Vilhjálmi átta ára gömlum þar sem hann bauð gesti velkomna í fermingarveisluna sína og fannst mjög skrýtið þegar ég lét hann segja ártalið 2014 enda var þá bara árið 2008! 🙂
  • IMG_5218Myndbandið féll vel í kramið og mér skildist á mörgum gestum að það hefði orðið þeim hvatning til að taka upp fleiri myndbönd af börnunum sínum! 🙂

IMG_5244 Skreytingar þurfa ekki að vera dýrar, hér eru afklipptar greinar hirtar úr Sorpu og sería úr Tiger sem kostaði 1200 krónur. IMG_5251 Tveir kertastjakar að heiman og einn af nytjamarkaði, vasi úr Rúmfatalagernum og Perluhýasintur úr Dalsgarði (kosta 400 ca. 6 laukar saman) IMG_4983 Föndrað nótukerti, Perluhýasintur og í þriðja vasanum geymdi ég að tilviljun snærið sem ég notaði fyrir myndirnar og stakk í það afklippum – þetta endaði sem skraut! 🙂

  • Ekki gleyma að taka með í salinn kveikjara fyrir kerti, límband, kennaratyggjó og annað smálegt sem getur komið að gagni við skreytingar.

IMG_5171Fermingardrengurinn og stoltir foreldrar.

IMG_5178 IMG_5270

Flottu systkinin!

IMG_5234

Ber er hver að baki nema sér vini eigi – hér er fermingardrengurinn og bestu vinirnir! 🙂

33 hugrenningar um “Fermingarveisla

  1. Frábært að fá svona gátlista og hugmyndir,ég er að fara ferma á næsta ári 🙂

  2. Innilega til hamingju með þennan flotta strák og frábærlega flotta lýsingu af greinilega vel heppnuðum degi. Er búin að bíða eftir hugmyndum til að nýta mér í stúdentsveislu Elsu dóttur minnar (vinkona Óskar frá DK). Á pottþétt eftir að nýta mér þínar góðu uppskriftir enn og aftur. Hef svo oft eldað eftir þeim og þær svíkja aldrei. Kveðja Sigga Lóa DK

    • Kærar þakkir Sigga Lóa og takk fyrir góða kveðju sem gleður mig! 🙂 Ósk var einmitt svo glöð að hitta Elsu um daginn. Gangi ykkur vel með stúdentsveisluna! 🙂

  3. þú ert hugsanlega skipulagðasta manneskja á jörðinni Dröfn, þetta er ekkert smá flott hjá þér og á eftir að koma að góðum notum fyrir marga 🙂 til hamingju með sæta fermingarstrákinn enn og aftur

    • Takk elsku Fríða mín! 🙂 … og þú ert klárlega besti blómaskreytir á landinu – takk fyrir flottustu blómaskreytinguna og hjálpina!

      • vá það var nú bara ekkert elskuleg, hvenær sem er 🙂

  4. til hamingju með drenginn ykkar og flottu veisluna hjá ykkur og svo sannarlega góðar leiðbeiningar fyrir undirbúning á hvaða veislu sem er

  5. Innilegar hamingjuóskir til ykkar með fermingardrenginn, þetta er svo flott hjá þér/ykkur.
    Hef verið að fylgjast með blogginu þínu um nokkurt skeið, það er svo skemmtilegt, myndirnar frábærar sem og allur maturinn. Það er nánast daglegt verk að ath. hvort eitthvað nýtt sé þar inni. Takk kærlega fyrir

  6. Bakvísun: Mexókóskur kjúklingaréttur | Eldhússögur

  7. Bakvísun: Mexíkóskur kjúklingaréttur | Eldhússögur

  8. Innilega til hamingju með drenginn og þessa fallegu veislu!!

    Hef nýlokið við að ferma og er smá sár yfir því að hafa gleymt að taka útimyndir af fjölskyldunni og fermingarbarninu, einnig gleymdi ég að taka myndir af barninu með ömmum og öfum. Mjög gott að hafa einhvern fastan á myndavél sem er ekki í nánustu fjölskyldu.

    Þá er líka nauðsynlegt að byrja snemma á boðskortum, u.þ.b. 2 mánuðum fyrr, þau eru stundum lengi í fæðingu og getur dregist að koma þeim almennilega á koppinn.

    Ef maður er með myndasýningu er nauðsynlegt að byrja að garfa í myndum svona 4 mánuðum áður, svo hún sé tilbúin löngu áður og skapi ekkert stress.

    Spurning um að fá tips um dúka eða gott verð á dúkaleigu.

    Kannski lúra einhverjir á meðmælum um ákveðna sali!!

    Við fórum í myndatöku mánuði fyrir fermingu og það tókst að fá albúm til að hafa í veislunni, hefðum líka getað fengið cd með myndunum til að láta rúlla með myndashowinu og þá þarf ekki að handfjatla albúmið í veislunni, prufugreiðslan var á sama tíma.

    Líka sniðugt að hafa sér veitingaborð fyrir börnin, og merkja það sem slíkt, og líka gott að hafa sér afdrep fyrir yngstu börnin þar sem í boðið er dót, litir, blöð, video, kubbar og annað í þeim dúr.

    Hlakka til að sjá hugmyndabankann stækka!!

    • Frábærir punktar! 🙂 Takk fyrir þetta!

      Við einmitt tókum myndir af fermingarbarninu með nánustu, ömmum og öfum og fleiri. Myndartakan hjá ljósmyndaranum var bæði úti og inni, mest þó úti, þar á meðal fjölskyldumyndartakan.

      Í síðustu fermingu (ekki í þetta sinn því það voru fá börn og veitingarnar fremur barnvænar) var ég með veitingaborð fyrir börnin. Það var lágt borð sem passaði fyrir börnin og á því voru litlar pizzur, kokteilpylsur og skinkuhorn ásamt ávaxtasafa.

      Ég var með barnahorn þar sem voru litir, blöð, litabækur, kubbar og bækur.

  9. Frábær færsla, ekkert smá flott að fá svona góð ráð 🙂 En ég má til með að spyrja þig að einu, hvar fékkst þú þennan fallega bláa kjól ?

    • Kærar þakkir Eydís! 🙂 Kjólinn er frá warehouse og ég keypti hann í Warehouse básnum í Debenhams – var einmit rosalega ánægð með hann! 🙂

    • Ég keypti þá tilbúna frá American style en fannst þeir ekki alveg nógu góðir, of þurrir fyrir minn smekk. Ég hef hins vegar smakkað frábæra smáborgara frá Happ. Síðan eru t.d Hamborgarafabrikkan og Tapas að selja svona smáhamborgara en ég veit ekki hvernig þeir eru. Ég er ekki með neina sérstaka uppskrift að smáhamborgurum en það er vel hægt að baka lítil hamborgarabrauð og búa til litla hamborgara.

  10. Ég hef fengið frábæra svona smáhamborgara hjá Veislunni á Seltjarnarnesi 🙂
    Takk fyrir þessa frábæru fermingarfærslu. Ég er að fara að ferma í mars og er mjög óörugg með þetta allt. Hér er nóg af hugmyndm og punktum. Takk, takk, takk.

  11. Langar svo að spyrja þig út í snærið með myndunum 🙂 Ætla að gera það sama en er í mestu vandræðum með hvernig ég festi snærið á vegginn? Hvað notaðir þú? 🙂
    Veislan verður í sal svo ég þarf auðvitað að hafa e-ð sem ekki skemmir út frá sér.

    • Sæl Jana. Ég keypti í Bykó svo sniðuga litla króka sem límast beint á vegginn en eru fjölnota, þ.e. hugsaðir þannig að hægt sé að losa þá og færa. Þeir héldust vel á veggnum en skildu samt ekkert far eftir sig þegar þeir voru teknir af.

  12. Frábær færsla hjá þér með mikið af gagnlegum upplýsingum fyrir fermingarforeldra 🙂 Má ég spyrja hvort að þú prentaðir sjálf út Polaroid myndirnar eða er ráðlegt að láta fagmenn prenta út fyrir mann?

    • Sæl Anna Hilda. Það er vel hægt að prenta út þessar myndir sjálfur ef maður er með góðan prentara. Hins vegar lét ég prenta þær út hjá Pixlar, þetta voru það margar myndir. Það er ekkert svo dýrt. Ég fór með myndirnar á minnislykli til þeirra (var búin að setja svona Polaroid ramma á þær í Picasa) og þau prentuðu myndirnar út fyrir í réttu formati sem passar svona polaroid, þ.e. meira kassalaga en aflöngu eins og hefðbundnar myndir.

  13. Sælar,

    Þessi fermingasíða er orðin hálfgerð biblía hjá mér! Frábært að hafa allar þessar upplýsingar og virkilega vel framsett hjá þér.
    Eitt sem mér leikur forvitni á að vita er hversu margar laxarúllubita þú reiknaðir með á mann og ca. hvað þú færð marga bita úr hverri tortillu? Fjölskyldan mín tekur nú alveg vel til matar síns og ég er að reyna að setja verðmiða á hvern rétt og reikna út hversu mikið ég þarf af öllu 🙂

    Bestu þakkir!!
    Kv. Harpa

    • Takk fyrir góða kveðju Harpa! 🙂 Ég var með 8 tegundir af smáréttum og reiknaði með rúmlega 16 bitum á mann, þar með voru 2 bitar af hverri tegund (ég var þó með meira af kjúklingi og sushi). Ég reiknaði því með ca. tveimur laxabitum á mann og náði um það bil 10 bitum úr hverri rúllu (ef maður notar ekki mjög litlar burritos pönnukökur heldur þessar stærri sem koma 4 saman í pakka). Gangi þér vel! 🙂

  14. Flott síða hjá þér Dröfn. Vel skrifað og fallegar myndir. Gaman að lesa yfir allan fermingarundirbúninginn og hugmyndirnar. Kær kveðja, Laufey Erlends.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.