Heimsins bestu Brownies


Ég hef áður minnst á muscovado sykur og hvað hann sé góður í tertur og kökur. Muscovado sykur er hrásykur, unninn úr sykurreyr en ekki hreinsaður. Þó að hann sé ekki beint hollur þá inniheldur hann b-vítamín og ýmis önnur næringarefni sem eru ekki í hreinsuðum sykri. Það er ákveðið lakkrís/karmellubragð af honum og hann hentar því afar vel í ýmsar kökur, sælgæti, karamellusósur auk heitra drykkja. Þegar muscovado sykur er notaður í kökur verða þær bragðmeiri og rakari en ef að notaður er venjulegur sykur eða púðursykur þar sem að muscovado heldur svo vel í sér raka. Þess vegna hentar hann vel í brownies því þær eiga að vera svolítið rakar og næstum klesstar. Mér finnst þessar brownies feykigóðar og einfaldar að baka. Þegar ég er með matarboð skelli ég oft í eina uppskrift á meðan ég elda matinn og býð upp á nýbakaðar og gómsætar brownies í eftirrétt!

Uppskrift:

200 gr. suðusúkkulaði
225 gr. smjör
3 egg
225 Muscovado sykur (dökkur)
80 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
100 gr. grófhakkaðir valhnetukjarnar, líka hægt að nota pekanhnetur.
200 gr. mjólkursúkkulaði, grófbrytjað

Hitið ofnin í 180 gráður og smyrjið ferkantað form (ca. 20×30 cm). Brjótið suðusúkkulaðið í bita og setjið í pott ásamt smjörinu, bræðið við mjög vægan hita. Takið pottinn af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og blandan slétt. Þeytið saman egg og Muscovado sykur þar til létt og ljóst. Hrærið súkkulaðiblöndunni saman við. Blandið hveiti, lyftidufti, valhnetum og mjólkursúkkulaði varlega saman við. Hellið í formið og bakið neðarlega í ofni í 30-40 mín, eða þar til skorpa hefur myndast ofan á en kakan er enn mjúk. Leyfið kökunni að kólna dálítið í forminu áður en hún er skorin í bita. Berið bitana fram volga með vanilluís eða þeyttum rjóma, berjum og jafnvel heitri karamellusósu!

Karmellusósa:

120 g smjör
115 g púðursykur
½ tsk vanilludropar
¼ bolli rjómi

Setjið allt hráefnið saman í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sósuna krauma í 3-5 mínútur. Hærið stöðugt í á meðan.
Berið sósuna fram heita með kökunni