Fylltir sveppir


Fylltir sveppirÉg held að fáar þjóðir séu jafn þakklátar fyrir smá sólarglætu og við Íslendingar. Þegar ég bjó í Svíþjóð hneykslaðist ég oft á vanþakklæti Svía þegar kom að veðrinu. Sumrin í Svíþjóð eru dásamleg, bæði löng og hlý. Samt eru Stokkhólmsbúar stöðugt að kvarta yfir því að sumrin þeirra séu stutt, köld og blaut og þeir grínast jafnvel með að það ætti eiginlega ekki að vera byggjanlegt í svona köldu landi. Meðalhitinn í júlí í Stokkhólmi er þó nálægt 22 stiga hita! Þegar talað er um sumarveðrið í Stokkhólmi þá draga Stokkhólmsbúar gjarnan fram þá fáu daga þegar veðrið var ekki gott. Hér á Íslandi bregst það ekki, sama hversu slæmt sumarið hefur verið, alltaf má heyra okkur Íslendingana segja: „Við fengum nú rosalega góða tvo daga þarna snemma í sumar!“ eða eitthvað álíka. Ég ætla nú rétt að vona að þessir tveir dásamlegu sólardagar um helgina verði ekki þessir „tveir góðu dagar“ sem við þurfum að vitna í eftir sumarið! Reyndar munum við fjölskyldan fá okkar skerf af sól og líklega gott betur þar sem að við gerum húsaskipti í heilan mánuð í sumar og dveljum þá í Michigan í Bandaríkjunum en meðalhiti þar í júlí er hvorki meira né minna en 29 gráður.

IMG_5747

Ég átti alltaf eftir að setja inn fleiri uppskriftir frá útskriftarveislunni hennar Óskar. Ég bauð þá upp á meðal annars fyllta sveppi sem voru afar ljúffengir. Þeir eru líka mjög hentugir á smáréttahlaðborð. Ég útbjó þá kvöldið áður og setti beint á ofnplötu með plastfilmu yfir og geymdi í ísskáp. Ég hitaði sveppina svo rétt áður en veislan hófst þannig að þeir voru enn volgir en það er vel hægt að bera þá fram kalda.

Uppskrift (ca. 16 sveppir):

  • 500 g sveppir (gott að velja meðalstóra sveppi, alla svipað stóra)
  • 1.5 msk olía
  • 4 -5  hvítlauksrif, saxaður mjög fínt eða pressaður
  • 1 blaðlaukur, hvíti hlutinn saxaður mjög smátt
  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum (eða annað gott hvítlaukskrydd)
  • 1/4-1/2 tsk cayenne pipar
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 1 box (200 g) Philadelphia rjómaostur með hvítlauki og kryddjurtum, látið ná stofuhita
  • ca. 50 g rifinn Parmesan ostur

IMG_5672

Ofn hitaður í 175 gráður og ofnplata klædd bökunarpappír. Sveppir hreinsaðir varlega með eldhúspappír og stönglarnir losaðir úr sveppunum. Sveppastönglarnir eru því næst saxaðir mjög smátt og þeir steiktir á pönnu ásamt hvítlauknum og blaðlauknum upp úr olíunni (þess skal gæta að laukurinn brenni ekki). Þegar sveppirnir hafa tekið lit er pannan er tekin af hellunni og látið kólna dálítið. Þá er rjómaosti, helmingnum af parmesan ostinum og kryddum bætt út í og blandað vel saman, smakkað til og kryddað meira eftir smekk. Sveppahöttunum er raðað á ofnplötuna. Hver sveppur er því næst fylltur vel að sveppa/ostablöndunni. Að lokum er afgangnum af rifna parmesan ostinum dreift yfir sveppina. Bakað í ofni við 175 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til sveppirnir byrja að mynda vökva og osturinn hefur brúnast.

IMG_5674IMG_5745

4 hugrenningar um “Fylltir sveppir

  1. Úúúúfff geggjað girnilegt finnst fylltir sveppir svo góðir, prófa þessa við fyrsta tækifæri 🙂

  2. Þessi uppskrift er í algjöru uppáhaldi hjá mér, búin að nota hana nokkrum sinnum 🙂

Skildu eftir svar við Hjalmfri Hætta við svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.