Jól í skókassa


Mig langar að nota tækifærið á blogginu mínu, þó það sé aðallega matarblogg, til þess að vekja athygli á því frábæra verkefni ,,Jólum í skókassa“ en síðasti skiladagur er 12. nóvember (fyrir árið 2016). Þetta er alþjóðlegt verkefni sem KFUM og KFUK hefur haldið utan um hér á landi frá því árið 2004. Verkefnið gengur út á að gefa fátækum og oft munaðarlausum, börnum í Úkraínu jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Við fjölskyldan höfum árlega tekið þátt í verkefninu síðan árið 2008, en þá fluttum við heim frá Svíþjóð. Þá voru yngstu börnin 4 og 8 ára og ég hef látið þau taka þátt í verkefninu með því að þau gefa jafnaldra sínum gjöf. Þau hjálpa til við að finna gjafirnar og pakka þeim inn. Stundum hafa þau teiknað myndir og sent með í kassanum eða sent ljósmynd af sjálfum sér.

2008 – Vilhjálmur Jón minn að pakka í jólaskókassann í fyrsta sinn!

Fyrsta árið sýndi ég krökkunum  þetta myndband sem sýnir börnin í Úkraínu taka við gjöfunum. Dásamlegt en samtímis sorglegt myndband sem sýnir hvað börnin eru þakklát fyrir þetta litla sem þau fá og hvað mörg þeirra búa við erfiðar aðstæður. Vilhjálmur minn, þá átta ára, sem er afar blíður og viðkvæmur, vildi í kjölfarið gefa þeim allt dótið sitt! Jóhanna Inga var fjögurra ára og meiri nagli en bróðir sinn. Ég sýndi henni myndbandið og benti á jafnaldra hennar. ,,Sjáðu, þessa stelpa á ekki neitt, enga foreldra, ekkert dót, hún á bara eitt rúm“. Í kjölfarið hvatti ég Jóhönnu til að gefa stelpunni brot af leikföngunum sínum í skókassann. Mín var nú alls ekkert á þeim buxunum! ,,En aumingja litla stelpan, hún á ekkert, þú sem átt svo mikið“ sagði ég og reyndi að höfða til samkenndar hjá litlu dóttur minni. Hún setti hendur á mjaðmir og sagði ákveðin ,,hún á nú rúm!“! En ég þurfti bara að spjalla stutta stund í viðbót við snúlluna áður en hún féllst á að gefa dálítið af dótinu sínu og í dag er hún hvað spenntust í fjölskyldunni fyrir þessu verkefni. Það var einmitt svo gaman að heyra hana fyrr í dag útlista þessu verkefni fyrir vinkonu sinni sem var að spyrja hvað allt þetta dót væri að gera á borðinu hjá okkur.

2008 – Jóhanna Inga mín fjögurra ára heima hjá ömmu og afa að pakka í skókassa í fyrsta sinn! 🙂

2011 – Vilhjálmur heima hjá Önnu Sif vinkonu þegar við tókum okkur saman og útbjuggum jólaskókassa.

Ég er með ,,Jól í skókassa“ í huganum allt árið og er stöðugt að leita að einhverju sniðugu til að setja í kassana. Ég var ekkert lítið glöð þegar ég fór á leikfangaútsölumarkað í Garðabæ í byrjun janúar síðastliðinn. Þar voru Lego þreföld pennaveski, stútfull af ritföngum, á aðeins 500 krónur … ég keypti þau öll! 🙂 Þar voru líka sniðug og flott leikföng sem munu fara í pakkann. Í Svíþjóð í sumar fann ég þykkar og skemmtilegar stílabækur sem ég keypti fyrir skókassann. Ég hef líka fengið ömmu til að prjóna eitthvað hlýtt til að setja með í kassann. Fleira er hægt að finna í sniðugum verslunum eins og Tiger, Rúmfatalegernum, Ice in A Bucket og Megastore  Það þarf ekkert að vera dýrt að taka þátt í verkefninu ef maður bara hefur augun opin allt árið fyrir sniðugum gjöfum! Mér skilst að fæstir safni í kassa yngsta og elsta aldurshópinn þannig að fyrir utan að láta yngstu börnin mín gefa jafnöldrum sínum, þá útbý ég yfirleitt einn kassa til viðbótar fyrir annan hvorn þann hóp.

IMG_9245

2011 – Jón Andri, Vilhjálmur og Jóhanna Inga með útroðna skókassa.

Það sem á að fara í kassann:

1. Hreinlætisvörur. Óskað er eftir því að allir láti tannbursta og tannkrem í kassann. Endilega setjið svona barnatannbursta og barnatannkrem með myndum á. Ég hef lesið margar frásagnir þeirra sem afhenda kassana að þetta sé það sem börnunum finnst allra merkilegast í kössunum! 🙂 Einnig má setja sápustykki, greiðu, þvottapoka eða hárskraut. Ég sé á myndunum frá Úkraínu að stelpurnar eru oftast með stór og mikil hárskraut og ég reyni því að hafa hárskrautið þannig.

2. Föt, t.d. húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol eða peysu. Ég hef lesið frásagnir þeirra sem fara með gjafirnar að það er oft mjög kalt á barnaheimilunum. Einnig verða veturnir ískaldir í Úkraínu. Ég reyni því að setja alltaf hlýjar skjólflíkur, húfu, vettlinga og sokka, helst úr ull, allavega ekki úr gerviefni. Eins nota strákar í Úkraínu sokkabuxur og stuttbuxur sem spariföt, gott að hafa það í huga þegar maður útbýr strákapakka.

3. Skóladót, t.d. penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur eða vasareikni. Ég reyni að hafa alltaf allt ofangreint í pakkanum, bæði ritföng sem hægt er að nota við lærdóm en líka eitthvað skemmtilegt eins og liti og litabók. Litlir vasareiknar sem ganga fyrir sólarljósi eru sniðugir. Ég keypti nokkra svoleiðis á útsölumarkaði Eymundsson á 100 kall! Hér að neðan sýni ég pennaveski en ég fékk það á útsölu á 500 krónur, auðvitað er nóg að setja til dæmis blýant, strokleður og liti.

4. Sælgæti, t.d. sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó eða karamellur. Ég hef eiginlega alltaf hlaup, pez, sleikjó og annað slíkt nammi. Það er sælgæti sem flestum krökkum líkar vel, það er til dæmis ekkert öllum krökkum sem finnst lakkrís eða súkkulaði gott.

5. Ég hef alltaf mjúk dýr/bangsa í öllum pökkum, sama fyrir hvaða aldurshóp pakkinn er, maður er aldrei of stór fyrir mjúkan bangsa! Ég er með stóran kassa í geymslunni af lítið notuðum mjúkum dýrum sem komast ekki lengur fyrir inni hjá krökkunum. Þau velja alltaf úr honum dýr eða bangsa til að gefa sem ég þvæ og set í kassann.

5. Það er hægt að setja allskonar leikföng í kassana. Ég set til dæmis oft vasaljós, þá með auka rafhlöðum. Best eru þó þessi handknúnu, duga endaust! Það er hægt að setja allskonar önnur leikföng í skókassana … litla bíla, jójó, plastdýr, dúkkur og dúkkuföt, barbie og barbieföt, púsl, blöðrur, bolta, glansmyndir, límmiðar, litlar töskur, skart, perlur, leir, gorma, pet shop, munnhörpur eða önnur lítil hljóðfæri, litabækur, þrautbækur, lego, playmó, grímur … og svo framvegis.

Jól í skókassa er þarft verkefni sem allir ættu að taka þátt í. Þetta er líka góð leið til að kenna okkar eigin börnum örlæti, gjafmildi og að rækta með sér kærleika og samkennd. Og ekki síst til að kenna þeim þakklæti fyrir þær aðstæður sem þau búa við hér á Íslandi. Ég vona að allir sem vettlingi geta valdið taki þátt ,,Jólum í skókassa“ í ár! 🙂

Mig langar að benda á aðra bloggfærslu um ,,Jól í skókassa“ frá afar öflugum systrum sem útbúa yfir 30 jólaskókassa árlega af mikilli alúð. Þær eru með fullt af góðum hugmyndum og ábendingum um gjafir í kassana.

12 hugrenningar um “Jól í skókassa

 1. Frábærar hugmyndir, erum einmitt að taka þátt núna í fyrsta skipti og verður þetta núna árleg hefð 🙂
  En hvar færðu svona stóra skókassa?

  • Æðislegt að heyra að þið ætlið að taka þátt! 🙂 Ég er á höttunum eftir stórum skókössum allt árið! 🙂 Þessir eru undan leðurstígvélum, kuldaskóm og öðrum stórum skóbúnaði. Skóbúðir eru oft með svona skókassa sem þau gefa. Gangi ykkur vel! 🙂

 2. Þú ert ofurhetja! Flott hjá þér að skrifa svona greinargóða lýsingu á þessu.

 3. Elsku Dröfn mín, þú ert alveg einstök. Frábært framtak alveg. Og ég sé þig alveg fyrir mér að leita að gjöfum til að setja í kassann allt árið. Ertu ekki annars enn með augun opin fyrir leðurhönskunum sem þú varst að leita logandi ljósi að fyrir 15 árum ;o)

  Ég hlóp upphátt að „hún á nú rúm“ HAHAHA

  Luv
  B

  • Takk elsku Brynja mín! 🙂 Hahaha …. jújú, ég man ekki lengur fyrir hvern þeir voru, kíki samt eftir þeim! 😉 Kram á þig! ❤

 4. Sæl vertu. Þetta er frábær grein hjá þér og yndislegt að sjá hvað þið fjölskyldan eruð dugleg í verkefninu. Frábær leið til að byrja jólaundirbúninginn.

  • Sæl Áslaug og takk fyrir fallega kveðju! 🙂 Ég er sammála, jólaundirbúningurinn byrjar sannarlega með jólum í skókassa, bæði í huga og gjörðum.

   • Takk fyrir frábæra lýsingu á verkefninu. Ég hef tekið þátt í þessu í mörg ár og á sérstakan kassa inni geymslu sem ýmislegt dettur í allt árið. Ýmislegt sem stundum kemur upp í hendurnar á manni.
    Ef ég finn ekki skókassa í nágrenninu tek ég kassa undan ljósritunarpappír og sker ofan af honum.
    Sælgætið hef ég alltaf eitthvað smátt; karamellur, sleikjó eða þrista, og fylli svo upp í öll holrúm með þessu þegar ég raða í kassann.

   • Takk fyrir kveðjuna Dóra! 🙂 Sniðugt hjá þér að nota kassa undan ljósritunarpappír!

 5. Frábær færsla hjá þér! 🙂

  Ég er búsett í Danmörku og hér er þessu verkefni sýnd skammarlega lítill áhugi, en ég með allar klær úti og mörg járn í eldindum til að hrinda þessu sómasamlega af stað næsta ár.
  Hlakka mikið til þessa verkefnis.

  Gangi ykkur sem allra best, 🙂
  kveðjur frá DK,
  Rannveig

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.