Kjötbollur í tómatsósu


Í gömlu handskrifuðu uppskriftabókinni minni, sem mér er tíðrætt um, er þessi uppskrift af kjötbollum á þriðju blaðsíðu. Þetta er því uppskrift sem hefur fylgt okkur fjölskyldunni frá upphafi og er alltaf jafn vinsæl hjá öllum fjölskyldumeðlimum, sérstaklega krökkunum. Með þessum rétti hef ég hrísgrjón eða kúskús. Ég hef með árunum minnkað kjötbollurnar töluvert, þá þurfa þær styttri eldunartíma. Í upprunalegu uppskriftinni er ekki egg en mér finnst það binda svo vel saman bollurnar að ég bætti því við. Það er mikilvægt að krydda vel hakkið svo að þetta verði kjötbollur sem bragð er að! Í uppskriftinni sem ég gef upp hér að neðan er sama magn og ég nota fyrir fjölskylduna okkar, það er, fyrir sex svanga og ei matgranna, það kláraðist hver einasta bolla hjá okkur! Fyrir þetta magn þarf að nota tvær pönnur til að steikja bollurnar á eða steikja þær í tveimur umferðum.

Uppskrift:

  • 1300 gr nautahakk
  • 2 1/2 dl brauðmylsna eða mulið Ritz kex
  • 1 egg
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • salt og pipar
  • gott krydd, t.d. Töfrakrydd frá Pottagöldrum
  • 1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
  • 2 dósir hakkaðir tómatar með basilku
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1/2 dl tómatsósa
  • 1 tsk kjötkraftur
  • 1 msk þurrkuð basilika

Nautahakki, brauðmylsnu, rifnum osti, eggi og kryddi blandað vel saman og mótaðar bollur  á stærð við tómata. Bollurnar eru steiktar í smjöri og/eða olíu á pönnu þar til þær eru vel steiktar á öllum hliðum. Ef pannan er stór er hægt að útbúa sósuna á pönnunni, annars er best að færa bollurnar yfir í stóran pott og útbúa sósuna í honum. Lauknum bætt á pönnuna með bollunum, því næst er rjómanum hellt út á ásamt hökkuðum tómötunum. Að því búnu er tómatpúrru, tómatsósu, kjötkrafti og basiliku bætt út í. Bollurnar látnar malla í sósunni í ca. 10-15 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn. Sósan er smökkuð til með kryddi. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati eða soðnu brokkolí.

9 hugrenningar um “Kjötbollur í tómatsósu

  1. Mikið er þetta góður matur. Alveg frábær. Ætla að vera örlátari á kryddið næst, en samt alveg frábær.

  2. Eg set alltaf sma chilli i sosuna og geymi hana i frysti i 6 klukkutima. Set sma kanilstong ofan i sidustu 15 minuturnar til ad na jafnvægi a rettinn

  3. Snilldarbollur – ég skellti mínum í ofninn á meðan ég gerði sósuna bætti bara aðeins meira af kjötkrafti til að bæta upp fyrir kraftinn sem hefði annars orðið eftir á pönnunni. En fyrir vikið var ég ekki nema 40mín frá upphafi til enda 😀 Allir borðuðu með bestu lyst, þetta mun pottþétt vera gert aftur.

  4. Þessar bollur og þessi réttur er “ eitthvað annað “ einsog unglingarnir mínir segja ! Gjörsamlega frábær matur ! Takk – kristín

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.