Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetum


Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetumVið stórfjölskyldan komum oft saman við hin ýmsu tækifæri og borðum þá saman eða höldum kaffiboð. Þegar allir mæta erum við 17 manns. Oftast nær sé ég um matinn en ef að réttunum er eitthvað skipt á milli okkar þá fellur eftirrétturinn yfirleitt í mínar hendur. Mér finnst voðalega gaman að útbúa eftirrétti þar sem hver fær sina skál eða skammt, það er svo fallegt og girnilegt að bera fram þannig eftirrétti. Panna cotta er afar vinsæll eftirréttur hjá fjölskyldunni og amma veit ekkert betra! 🙂

Ég er nýbúin að uppgötva að sumir hafa aldrei notað matarlím og halda að það sé eitthvað flókið. En það er svo fjarri því að vera rétt, það er ekkert mál að nota matarlím og þarf engar flóknar kúnstir. Ég hef notað matarlím frá því að ég byrjaði að bralla í eldhúsinu og það hefur aldrei misheppnast – ég sver það! Þið sem hafið ekki þorað að nota matarlím hingað til, endilega prófið að gera panna cotta, þið munuð verða hissa á því hversu einfalt og fljótlegt það er! 🙂 Ég er með margar uppskriftir að panna cotta hér á síðunni og hér að neðan bætist enn ein í safnið. Panna cotta tekur enga stund að útbúa og það er svo hentugt að geta útbúið eftirréttinn með góðum fyrirvara – tilvalið á páskaborðið! 🙂

IMG_8050

Dumle panna cotta f. 3

·      4 dl rjómi

·      ½ dl sykur

·      2 ½  matarlímsblöð

·      1 poki Dumle orginal (120 g)

·      1/2 dl hnetur (t.d. heslihnetur og/eða kasjúhnetur)

·      1 msk sykur (fyrir hneturnar)

·      1 tsk smjör

·      ber til skreytingar

Matarlímsblöðin eru lögð í skál með köldu vatni í minnst 5 mínútur. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni og Dumle molunum bætt út í pottinn. Hrært þar til þeir hafa hafa bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa leyst upp. Hellt í þrjár skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Hneturnar eru settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær saxaðar niður gróft og dreift yfir panna cotta. Skreytt með berjum að vild.

IMG_8052

Ostakökudesert með hindberjasósu


Ostakökudesert með hindberjasósuÉg er búin að setja inn þónokkuð af uppskriftum að ostakökum undanfarið enda finnst mér þær hnossgæti! 🙂 Eini ókosturinn við ostakökur er að þær þarf að búa til með smá fyrirvara. Þegar við komum heim frá Bandaríkjunum í ágúst ákvað ég að hafa matarboð strax daginn eftir lendingu. Við vorum búin að vera í heilan mánuð erlendis og farin að sakna vina okkar. Elfar byrjar yfirleitt á því að fara beint á vakt þegar við komum heim úr fríi en aldrei þessu vant fékk hann helgarfrí áður en hann þurfti að mæta til vinnu. Ég ýtti því bara ferðatöskunum út í horn og blés til matarboðs. Mig langaði helst að hafa ostaköku í eftirrétt en hafi ekki tíma til þess að búa hana til. Það varð því úr að ég setti saman þennan eftirrétt á örstuttum tíma. Ótrúlega góður og ekki spillir fyrir hversu einfaldur og fljótlegur hann er.
IMG_7260
Uppskrift f. 6:
  • 2 dósir Philadelpia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 300 g Digestive kex
  • 300 g frosin hindber, afþýdd
  • 1.5 msk sykur
  • ber til skreytingar (t.d. hindber og bláber)
  • fersk myntublöð (má sleppa)

IMG_7257

Rjómaostur, grísk jógúrt og rjómi er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri og 100 grömmum af hindberjunum þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Afgangnum af hindberjunum (200 grömm) eru maukuð vel með gaffli og sykrinum bætt út í. Ef sósan verður mjög þykk er hægt að þynna hana með örlitlu vatni. Því næst er öllum hráefnunum blandað í sex skálar – einnig er hægt að setja allt í eina stóra skál. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni og loks hindberjasósunni. Þetta er endurtekið um það bil tvisvar eða þar til hráefnin eru búin. Að lokum er skeytt með berjum og jafnvel ferskum myntublöðum.
IMG_7265

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum


Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetumUm daginn gaf ég nokkrar uppskriftir fyrir fermingarveislur í Fréttatímanum. Ein þeirra var af sjúklega góðu Dumle-súkkulaðifrauði. Á þessum myndum útbjó ég það í litlum skömmtum sem hentar vel á hlaðborð en það er ekkert því til fyrirstöðu að búa til hefðbundinn eftirrétt úr þessari uppskrift og þá passar uppskriftin fyrir um það bil fjóra. Það þarf ekkert endilega að gefa sér tvo daga til að útbúa réttinn en það getur verið afar hentugt þegar veisla er undirbúin. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að gera réttinn samdægurs. Það eina sem þarf að gæta að er að rjóminn sé orðin alveg kaldur áður en hann er þeyttur.

IMG_4444

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum (passar í ca. 10 lítil glös eða 4 venjulega skammta sem eftirréttur)

  • 1 poki Dumle karamellur (120 g)
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl hnetur (t.d. heslihnetur og kasjúhnetur)
  • 2 msk sykur
  • ½ msk smjör
  • hindber til skreytingar

Dagur 1:

Hneturnar eru grófsaxaðar og settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær muldar niður og geymdar í góðu íláti.

Karamellurnar eru klipptar í smærri bita. Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu er karamellunum bætt út rjómann og hrært þar til þær hafa bráðnað. Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli þar til blandan er orðin alveg köld, best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu.

IMG_4416

Dagur 2:

Rjómablandan er þeytt í hrærivél þar til að hún hefur náð æskilegum stífleika. Þá er blandan sett í rjómasprautu og sprautað í um það bil tíu lítil glös eða skálar. Karamelliseruðu hnetunum dreift ofan í hvert glas og skreytt með hindberjum. Það er í lagi að setja plastfilmu yfir glösin og geyma þau í kæli fram á næsta dag.

IMG_4431

 

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði


Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Nú er ég komin heim úr frábærri Bostonferð. Ekki nóg með að borgin sjálf sé dásamlega falleg og bauð okkur upp á frábært veður, mat, drykk og verslanir heldur var félagsskapurinn ekki af verri endanum. Við vorum saman átta æskuvinkonur, nokkrar okkar hafa meira að segja verið saman í bekk alla tíð síðan í 1. bekk í grunnskóla. Þessi hópur var ávísun upp á viðburðaríka daga og fjörug kvöld. Við gerðum vel við okkur í mat og drykk auk þess sem við versluðum svolítið. Einhverjum fannst það kannski meira en „svolítið“ því það var gengið upp að okkur í verslunarmiðstöðinni og okkur þakkað fyrir að bjarga ekónómíu Bandaríkjanna – grínlaust! Mér tókst að versla hér um bil allar jólagjafirnar og einnig keypti ég allskonar spennandi eldhúsvörur sem ég hlakka til að taka í notkun. Jamm, ég lagði mitt að mörkum fyrir Obama! 😉

Ég er nú enn að jafna mig eftir ferðina tímalega séð. Ég fór í vinnuna beint eftir svefnlaust næturflug og hef verið að berjast við að snúa sólarhringnum við. Helgin var að auki þéttskipuð hjá okkur og lítill tími gefist til að slaka á eða jafnvel taka upp úr töskunum. Ég hafði dregið það lengi að halda upp á afmæli Jóhönnu Ingu fyrir bekkinn hennar. Hún vildi bjóða öllum 23 stelpunum í bekknum og ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að leysa það. Að lokum ákvað ég að leigja sal hjá fimleikafélagi Bjarkar sem var frábær hugmynd. Þar gátu stelpurnar leikið sér í skemmtilegum sal með til dæmis svampi í gryfju sem var afar vinsælt. Svo buðum við upp á pizzur og köku. Jóhanna Inga vildi köku með „Aulanum ég“ þema og ég bjó því til eina slíka. Eins og ég hef skrifað áður þá hef ég mjög gaman af því að baka en er enginn snillingur í skreytingum, eiginlega er ég með þumla á öllum þegar kemur að föndri! Að auki hafði ég varla nokkurn tíma til að útbúa kökuna og varð því að finna fljótlega lausn. Mér fannst þessi útfærsla af sundlaugarköku bæði sniðug og einföld. Ekkert meistaraverk en Jóhanna var afskaplega ánægð með kökuna sína og þá var takmarkinu náð.

IMG_0790

Auk þess sem við héldum upp á afmælið núna um helgina fórum við í veislu, á tónleika, í leikhús og út að borða, það hefur því verið nóg að gera.

Mig langaði í dag að setja inn uppskrift að óskaplega einföldum eftirrétti en frábærlega góðum. Þessi réttur er dálítið í takti við annríki helgarinnar sem var að líða því þetta er réttur sem ég gríp oft til ef ég þarf að útbúa eftirrétt með engum fyrirvara. Það er best að bera fram vanilluís með þessum rétti en toppurinn finnst mér að senda eiginmanninn út í ísbúð á meðan ég útbý réttinn og bera svo fram með honum ljúffengan rjómaís beint úr vél í íssbúðinni!

Uppskrift f. ca. 5-6

  • 500 g jarðaber
  • 2 stórir  bananar
  • 4 kiwi
  • 2 perur (vel mjúkar)
  • 100 – 150 g hvítt súkkulaði
  • grófur eða fínn kókos (má sleppa)

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænu laufin skorin af jarðaberjunum og þau skorin í tvennt eða fernt, fer eftir stærð. Bananar skornir í sneiðar. Kíwi afhýdd og skorin í bita. Perurnar eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar í bita. Ávöxtum og berjum blandað saman í passlega stórt eldfast mót (líka hægt að setja hæfilegan skammt í lítil form og bera fram fyrir hvern og einn). Hvíta súkkulaðið er saxað niður (eða notaðir hvítir súkkulaðidropar) og dreift yfir ávextina og berin. Ef maður vill er að auki hægt að strá smá kókos yfir í lokin. Hitað í ofni í um það bil 10 – 15 mínútur við 200 gráður eða þar til súkklaðið er bráðnað og hefur fengið smá lit. Borið fram strax heitt með góðum vanilluís.

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu


Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu

Í dag fengum við góða sænska gesti til okkar í mat. Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég tek oft rispur þar sem ég býð upp á sama matréttinn í matarboðum í allmörg skipti – þar til að ég fæ nóg og sný mér að öðrum rétti! 🙂 Nú í sumar hafa þessir uppáhaldssréttir verið tveir fiskréttir héðan frá Eldhússögum. Annarsvegar er það ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og hinsvegar sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati. Þegar við fáum til okkar Svía í mat þá bjóðum við hér um bil alltaf upp á fisk. Almennt eru Svíar hrifnir af fiski en í Stokkhólmi er lítið um góðan fisk og Stokkhólmsbúar kunna því vel að meta góða fiskinn okkar. Að þessu sinni bauð ég upp á þorskinn en grillaði hann í stað þess að baka í ofninum.

IMG_6582

Ég bauð upp á eftirrétt sem ég gerði oft fyrir nokkrum árum en var búin að steingleyma þar til hann rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég var að fletta uppskriftabók um daginn og sá þá mynd af svipuðum eftirrétti. Í framhaldinu rótaði ég í uppskriftablöðunum mínum og fann þá uppskriftina sem ég notaði alltaf – mikið var ég glöð því rétturinn er einn af mínum uppáhalds! Ég prófaði nýjung í dag. Ég útbjó smjördeigsböggul fyrir hvern og einn gest. Í upphaflegu uppskriftinni er smjördeiginu pússlað saman með því að leggja brúnirnar örlítið yfir hvor aðra og deigið flatt dálítið út, eldfast mót klætt að innan með smjördeiginu og fyllingunni hellt út í. En mér fannst mikið betra að útbúa svona böggla eins og ég gerði í dag, ég mæli með því. Ég notaði smjördeig sem ég keypti í Nettó (hafið þið kannski séð þessa tegund í annarri verslun?). Mér finnst þetta smjördeig eiginlega betra en Findus smjördeigið og það er talsvert ódýrara. Í pakkanum eru sex plötur (fimm hjá Findus) og þær eru bæði þynnri og stærri, það er mjög hentugt í þessari uppskrift. Ef þið notið plötur frá Findus í þessa uppskrift þá mæli ég með því að fletja þær örlítið út (muna að nota hveiti, annars klessast þær).

Uppskrift: TC bröd smjördeig

  • 1 pakki frosið smjördeig (ég notaði frá TC brød sem fæst í Nettó, það eru 6 plötur eða 450 g)
  • ca 700 g græn epli (ég notaði 4 stór epli)
  • 70 g smjör
  • 70 g hrásykur (má líka nota venjulegan sykur)
  • 70 g rjómakaramellur (ég notaði Werther’s Original)
  • 100 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
  • 1 lítið egg, slegið (má sleppa)

Smjördeigsplötunar látnar þiðna (þær þiðna á mjög skömmum tíma) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ofninn hitaður i 210 gráður við undir- og yfirhita. Eplin eru afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Smjör, hrásykur og karamellur eru settar í pott og brætt við meðalhita, hrært í á meðan.

IMG_6579

Þegar karamellurnar eru bráðnaðar og sósan er orðin slétt er eplum og hnetum bætt út í. Á þessum tímapunkti hleypur sósan oft í kekki þar sem að eplin kæla sósuna. Látið ekki hugfallast heldur skerpið aðeins á hitanum og látið sósuna hitna aftur. Hrærið í blöndunni og smátt og smátt verður karamellusósan aftur mjúk. Þegar eplin og hneturnar eru öll þakin sósu er góður skammtur settur í miðjuna á hverri smjördeigsplötu.

IMG_6580

Ég reyndi að hafa ekki mikinn vökva með, til þess að deigið héldist stökkt, en gott er að geyma vökvann sem verður afgangs til að nota í lokin. Því næst eru hornin á hverri plötu tekin upp og lögð að miðjunni. Það er allt í lagi þó þau leggist ekki alveg að fyllingunni, það er bara fallegra að hafa bögglana aðeins opna. Smjördegið er þá smurt með eggi. Bakað í ofni við 210 gráður í um það 20-25 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt. Borið fram heitt með vanilluís eða rjóma. Karamelluvökvann, sem varð afgangs, er frábærlega gott að hita upp aftur og hella yfir eplin í hverjum böggli. Njótið!

IMG_6585