Súkkulaði-bananavöfflur


IMG_0368

Mér finnst flest allt þar sem súkkulaði er sameinað með banönum afskaplega gott. Ég hef sett inn hingað á síðuna nokkrar slíkar uppskriftir sem eru allar í miklu uppáhaldi.

Frönsku pönnukökurnar, crepes, með Nutella og banönum eru til dæmis hættulega góðar.

IMG_3736

Þessi súkkulaði- og bananakaka er líklega uppáhaldskakan mín hér á Eldhússögum. Ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu!

IMG_9530

Banankakan með súkkulaði lætur ekki mikið yfir sér á mynd en er sjúklega góð.

IMG_0153

Þessi bananakaka hefur verið í uppáhaldi á heimilinu í 20 ár og eina kakan sem eiginmaðurinn bakar reglulega.

IMG_2259

Hér er svo súkkulaðikaka með banönum og sykurpúðum, algjört hnossgæti.

IMG_1013

Hérna er reyndar banana- og karamellubaka en hún er svo dásamlega góð.

IMG_3186

Í dag bæti ég í safnið enn einni súkkulaði/bananauppskriftinni sem sló svo sannarlega í gegn hér heima! Ég fór nefnilega að hugsa um leiðir til þess að nota skemmtilegu vöffluformin mín á fleiri vegu en að baka bara í þeim hefðbundnar vöfflur. Þessi form fást í Kokku. Hér setti ég inn uppskrift þar sem ég bakaði hefðbundar vöfflur í formunum.

vöfflur

Mér datt í hug að prófa að búa til vöfflur með súkkulaði og banönunum, nokkuð sem reyndist snilldarhugmynd. Ég prófaði mig áfram og fyrstu vöfflurnar reyndust óætar! Ég notaði of mikið kakó og of lítinn sykur, þær urðu alltof rammar. En eftir að hafa prófað mig áfram með deigið datt ég niður á sjúklega góðar vöfflur, þessar verðið þið bara að prófa! Frábær eftirréttur eða með kaffinu til hátíðarbrigða. Ég prófaði bæði að baka þær í vöffluformunum mínum í ofninum en líka í belgíska vöfflujárninu og hvor tveggja kom álíka vel út.

IMG_0353IMG_0361IMG_0375

Svona komu vöfflurnar úr belgíska vöfflujárninu

Það er því ekkert því til fyrirstöðu að baka þessar vöfflur í hefðbundu vöfflujárni ef þið eigið ekki formin. Ég mæli hins vegar mikið með formunum úr Kokku, þá er hægt að baka allar vöfflurnar í einu og bera þær fram sjóðandi heitar samtímis. Snilld til dæmis sem eftirréttur fyrir marga.

Súkkulaði-bananavöfflur

Uppskrift:

  • 2 dl hveiti
  • 2 dl kartöflumjöl
  • 1 msk kakó
  • 1 msk vanillusykur
  • 1/2 dl sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3 dl mjölk
  • 2 egg
  • 100 g smjör, brætt
  • 2 bananar, stappaðir

Þurrefnunum blandað saman í skál. Þá er öðru egginu og helmingnum af mjólkinni blandað út í. Því næst er hinu egginu, restinni af mjólkinni, brædda smjörinu og banönunum bætt út í og hrært með písk þar til deigið er slétt. Bakað í vöfflujárni og vöfflurnar bornar fram heitar.

Ef notuð eru vöffluform er ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Deiginu er hellt í formin og sett inn í ofn í 7 mínútur. Því næst eru formin tekin úr ofninum og vöfflunum hvolft á bökunarplötu. Hitað í ofninum í 4-5 mínútur til viðbótar.

IMG_0349

Vöfflurnar er hægt að bera fram með niðursneiddum banönum og sírópi, ís og karamellusósu, þeyttum rjóma og Nutella sósu eða hverju því sem hugurinn girnist.

IMG_0379